Tvíburarnir

 • stjörnukort, stjörnumerki, Tvíburarnir
  Kort af stjörnumerkinu Tvíburunum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Gemini
Bjartasta stjarna: Pollux
Bayer / Flamsteed stjörnur:
80
Stjörnur bjartari +3,00:
4
Nálægasta stjarna:
Gliese 251
(18 ljósár)
Messier fyrirbæri:
1
Loftsteinadrífur:
Geminítar
Sést frá Íslandi:

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Tvíburana og teljast þeir því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Sólin er innan marka Tvíburanna frá 21. júní til 20. júlí (en ekki 22. maí til 23. júní eins og segir í stjörnuspám).

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum og sjást því stundum í Tvíburunum. Dvergreikistjarnan Plútó var í Tvíburamerkinu þegar hún fannst árið 1930.

Tvíburarnir fara að sjást að kvöldlagi rétt fyrir áramót og sjást á kvöldhimninum fram í apríl. Þeir eru í suðri klukkan tíu að kvöldi í mars.

Tvíburarnir er áberandi stjörnumerki því björtustu stjörnurnar, Kastor og Pollux, eru í hópi 50 skærustu stjarna næturhiminsins. Engu að síður getur verið þægilega að styðjast við stjörnumerkið Óríon til að vísa sér veginn til Tvíburanna en þeir eru nokkru ofar á himninum í norðvesturátt frá Óríon. Einnig er hægt að finna Tvíburana út frá Sjöstirninu í Nautsmerkinu sem er talsvert vestar á himninum.

Uppruni

Tvíburarnir eru meðal elstu stjörnumerkja himins en merkið er babýlónískt að uppruna.

Gríska goðsögnin hermir að Kastor og Pollux (Pólýdevkes) hafi verið tvíburasynir Ledu Spörtudrottningar en átt hvor sinn föðurinn. Leda var vergjörn og svaf hjá Seifi (sem kom til hennar í svanslíki og stjörnumerkið Svanurinn táknar) en sömu nótt svaf hún líka hjá húsbónda sínum, Tyndareifi konungi. Bæði samböndin báru ávöxt því seinna ól Leda fjögur börn: Pollux og Helenu fögru, sem voru börn Seifs og því ódauðleg og Kastor og Klýtæmnestru, sem voru börn Tyndareifs og þar af leiðandi dauðleg.

Kastor og Pollux reyndust hinir mestu mátar. Þeim varð aldrei sundurorða og sammæltust um alla hluti. Kastor var frægur knapi og stríðsmaður sem kenndi Heraklesi skylmingar en Pollux var afburða hnefaleikakappi.

Tvíburarnir voru óaðskiljanlegir og fóru saman í leiðangurinn með Jasoni og Argóarförunum í leit að gullreyfinu. Eitt sinn, er skipverjarnir tóku land, komu hnefaleikahæfileikar Pollux sér að góðum notum. Á landinu ríkti Amykus, sonur Póseidons, hinn mesti fantur sem leyfði engum að yfirgefa landið fyrr en einhver hafði barist við hann. Pollux bauð sig fram og felldi Amykus með einu hnefahöggi sem höfuðkúpubraut hann. Seinna komu Tvíburarnir Argóarförunum til bjargar á hafi úti.

Síðar deildu Kastor og Pollux við aðra tvíbura, Ídas og Lynkeif, um tvær fagrar yngismeyjar. Ídas og Lynkeifur voru trúlofaðir Föbe og Hilaríu en Kastor og Pollux heilluðu þær upp úr skónum. Við það gátu Ídas og Lynkeifur ekki fellt sig og börðust við Kastor og Pollux um hylli þeirra. Lynkeifur rak sverð í gegnum Kastor en Pollux hefndi fyrir dauða bróður síns með því að drepa Lynkeif. Ídas réðst til atlögu gegn Polluxi en hafði ekki erindi sem erfiði því Seifur laust hann eldingu.

Pollux syrgði bróður sinn og bað Seif um að þeir gætu deilt ódauðleikanum. Seifur kom þeim báðum fyrir á himninum sem stjörnumerkið Tvíburarnir þar sem þeir halda utan um hvor annan, að eilífu óaðskiljanlegir.

Norræn goðafræði

Stjörnumerkið Tvíburarnir kemur einnig fyrir í Snorra-Eddu undir nafninu „Augu Þjassa“. Sagan hermir að jötuninn Þjassi rænir Loka sem lofar honum Iðunni og æskueplum hennar. Loka er gert að endurheimta Iðunni og eplin en síðan upphefst mikill eltingarleikur í Ásgarði sem endar með því að æsir drepa Þjassa. Dóttir hans, Skaði, kemur í Ásgarð og vill hefna föður síns. Æsir bjóða henni föðurbætur en hluti þeirra fólst í því að Óðinn setti augu föður hennar upp á himininn sem stjörnurnar í Tvíburamerkinu (Kastor og Pollux).

Stjörnur

Um það bil 85 stjörnur sjást með berum augum í Tvíburamerkinu. Kastor og Pollux eru áberandi á himninum en auk þeirra er stjarnan Alhena bjartari en 2. birtustig. Alls eru 13 stjörnur bjartari en 4. birtustig í merkinu.

 • β Geminorum eða Pollux er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Tvíburunum og ein bjartasta stjarna næturhiminsins (birtustig 1,16). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K0 í um 34 ljósára fjarlægð frá jörðinni, tvisvar sinnum massameiri en sólin, tæplega níu sinnum breiðari og 43 sinnum bjartari. Árið 2006 fannst fjarreikistjarna á braut um Pollux. Þessi reikistjarna, Pollux b, er gasrisi, 2,3 sinnum massameiri en Júpíter og lýkur einni hringferð um Pollux á 590 dögum.

 • α Geminorum eða Kastor er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Tvíburunum og ein bjartasta stjarna næturhiminsins (birtustig 1,58). Í stjörnusjónauka sést að Kastor er þrjár stjörnur, tvær bjartar með sýndarbirtustig 1,9 (Kastor A) og 2,9 (Kastor B) og ein til viðbótar, miklu daufari af 9. birtustigi (Kastor C). Þegar ljósi stjarnanna er hins vegar beint í gegnum litrófsrita, kemur í ljós að Kastor er sexstirni, samsett úr þremur tvístirnum! Í tvístirninu Kastor A eru tvær stjörnur sem eru báðar um tvöfalt massameiri en sólin. Þær snúast um sameiginlega massamiðju á rúmum 9 dögum en fjarlægðin milli þeirra er einn tíundi af fjarlægðinni milli sólar og Merkúríusar. Í tvístirninu Kastor B eru stjörnurnar enn þéttar og snúast um sameiginlega massamiðju á aðeins 3 dögum. Tvístirnið Kastor C er samsett úr tveimur rauðum dvergstjörnum. Þótt tvöföld tvístirni (fjórstirni) séu ekki svo óalgeng er sjaldgæfara að rekast á sexstirni. Kastor er í um 50 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • γ Geminorum eða Aleha er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Tvíburunum (birtustig 1,93). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni A1 sem er að þróast yfir í risastjörnur. Stjarnan er 2,8 sinnum massameiri en sólin, 3,3 sinnum breiðari og 123 sinnum bjartari. Mu Geminorum er í um 109 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • μ Geminorum eða er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Tvíburunum (birtustig 2,87). Hún er rauð risastjarna af gerðinni M3, tvisvar sinnum massameiri en sólin og 2.800 sinnum bjartari. Stjörnuna er að finna í fæti Kastors og ber þess vegna nafnið Tejat Posterior sem þýðir „afturfótur“. Mu Geminorum er í um 230 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • ε Geminorum er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Tvíburunum (birtustig 3,06). Hún er reginrisastjarna af gerðinni G8, 19 sinnum massameiri en sólin, 140 sinnum breiðari og 8.500 sinnum bjartari. Stjarnan er í um 840 ljósára fjarlægð frá jörðinni, samkvæmt hliðrunarmælingum.

 • η Geminorum er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Tvíburunum (birtustig 3,31). Hún er þrístirni í um 350 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er í fæti Kastors og ber þess vegna nafnið Tejat Prior sem þýðir „framfótur“. Eta Geminorum A er litrófstvístirni samsett úr rauðum risa af gerðinni M3 og stjörnu af gerðinni B. Þær snúast um sameiginlega massamiðju á rúmum átta árum. Eta Geminorum B er meginraðarstjarna af gerðinni B. Umferðartími hennar um A er að minnsta kosti 700 ár.

 • ξ Geminorum eða Alzirr (hnappurinn) er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Tvíburunum (birtustig 3,35). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni F5 sem er að þróast í risastjörnu. Stjarnan er 1,7 sinnum massameiri en sólin, 2,7 sinnum breiðari og 11 sinnum bjartari. Xí Geminorum er í nálega 59 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • δ Geminorum eða Wasat (miðjan) er áttunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Tvíburunum (birtustig 3,50). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni F0 sem er að þróast í risastjörnu. Stjarnan er 1,57 sinnum massameiri en sólin og í um 61 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • ζ Geminorum eða Mekbuda er þrettánda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Tvíburunum (birtustig 4,01). Hún er risastjarna af gerðinni G0 en vegna þess að hún er sefíti, breytir hún bæði birtu sinni (frá 3,68 til 4,16) og litrófsgerð (F7 til G3). Stjarnan er næstum átta sinnum massameiri en sólin, 65 sinnum breiðari og 2.900 sinnum bjartari. Hún er í næstum 1200 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

Í Tvíburunum eru fáein markverð djúpfyrirbæri. Í merkinu eitt Messierfyrirbæri, nokkuð björt hringþoka og nokkrar lausþyrpingar.

 • Messier 35 er lausþyrping Suðvestur af henni er önnur lausþyrping, NGC 2158 (birtustig 8,6), í 11.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Báðar þyrpingar sjást í gegnum flesta áhugamannasjónauka.

 • NGC 2129 er lausþyrping í um 7.200 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er nokkuð björt (birtustig 6,7) og sést ágætlega í gegnum litla áhugamannasjónauka.

 • NGC 2355 er lausþyrping í um 5.400 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er fremur dauf (birtustig 9,7) og sést því best í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.

 • NGC 2392 eða Eskimóaþokan er hringþoka í um 2.900 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þótt þokan sé dauf sést hún ágætlega í gegnum áhugamannasjónauka.

Loftsteinadrífur

Geminítar er kröftug loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 6. desember til 18. desember. Í upphafi sést einn loftsteinn eða svo á klukkustund en næstu daga á eftir fjölgar þeim umtalsvert. Þegar drífan er hámarki 13. til 14. desember geta áhorfendur búist við að sjá 50 til 100 loftsteina á klukkustund en þeim fækkar svo jafnt og þétt. Geminíta má rekja til smástirnisins 3200 Phaethon.

Stjörnukort

Stjörnukort af Tvíburunum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Gemini the twins http://en.wikipedia.org/wiki/Gemini_(constellation) http://meteorshowersonline.com/geminids.html