• Neptúnus

Neptúnus

Neptúnus er áttunda og ysta reikistjarnan frá sólu og sú fjórða stærsta. Neptúnus er örlítið minni að þvermáli en Úranus en ögn massameiri. Þessar tvær reikistjörnur eiga margt sameiginlegt og eru oft flokkaðar sem vatnsrisarnir í sólkerfinu, á meðan Júpíter og Satúrnus eru hinir eiginlegu gasrisar. Þessu ræður fimbulkuldi yst í sólkerfinu en sökum hans eru ýmsar gastegundir í föstu eða á fljótandi formi.

Tölulegar upplýsingar
Uppgötvuð af:
Urbain Le Verrier
John Couch Adams
Johann Gottfried Galle
Uppgötvuð árið:
23. september 1846
Meðalfjarlægð frá sólu: 4.503.000.000 km = 30,10 SE
Mesta fjarlægð frá sólu:
4.553.000.000 km = 30,44 SE
Minnsta fjarlægð frá sólu:
4.452.000.000 km = 29,77 SE
Miðskekkja brautar:
0,011
Meðalbrautarhraði um sólu: 5,43 km/s
Umferðartími um sólu: 163,79 jarðár
Snúningstími: 15klst 57mín 59sek
Möndulhalli: 29,56°
Brautarhalli:
1,77°
Þvermál:
49.528 km miðbaug
Þvermál (jörð=1):
3,883
Massi:
1,0242 x 1026 kg
Massi (jörð=1):
17,147
Eðlismassi:
1.640 kg/m3
Þyngdarhröðun:
11,15 m/s2 (1,14 g)
Lausnarhraði: 23,5 km/s
Meðalhitastig efst í lofthjúpi:
-218°C
Hæsti yfirborðshiti:
-214°C
Lægsti yfirborðshiti:
-218°C
Endurskinshlutfall:
0,41
Sýndarbirtustig:
+7,7 til +8
Hornstærð:
2,2" til 2,4"
Efnasamsetning lofthjúps: 80% vetni (H2)
19% helíum (He)
1,5% metan (CH4)
Fjöldi fylgitungla:
14

Neptúnus var rómverskur sjávarguð en upphaflega guð ferskvatns og uppsprettulinda. Sem sjávarguð var Neptúnus hliðstæða hins gríska Póseidons, ásamt því að vera guð hesta og kappaksturs.

Tákn Neptúnsuar er spjót eða gaffall sjávarguðsins.

1. Uppgötvun

Neptúnus er of daufur til að sjást með berum augum á næturhimninum og því var það ekki fyrr en sjónaukinn kom til sögunnar að unnt var að finna reikistjörnuna. Teikningar Galíleós þann 28. desember 1612 og aftur 27. janúar 1613 sýna reikistjörnuna greinilega, örstutt frá Júpíter á næturhimninum. Í bæði skiptin taldi Galíleó þó að þarna væri um fastastjörnu að ræða. Á þessu tímabili var hreyfing Neptúnusar aftur á bak (retrograde) en sú hreyfing verður þegar jörðin tekur fram úr ytri reikistjörnu á ferðalagi sínu umhverfis sólina. Færsla Neptúnusar yfir himinninn verður þá svo hæg að hann stendur nánast í stað.

Ítarlegar rannsóknir stjörnufræðinga á brautarfærslu Úranusar leiddu til þess að Neptúnus fannst. Í upphafi nítjándu aldar varð stjörnufræðingum ljóst að þeir gátu ekki spáð nákvæmlega fyrir um staðsetningu Úranusar á himninum með lögmálum Newtons. Um 1830 var ósamræmið milli sýnilegrar stöðu reikistjörnunnar og forspáðri svo mikið að sumir stjörnufræðingar töldu jafnvel að lögmál Newtons virkuðu ekki í svona mikilli fjarlægð frá sólinni.

Árið 1843 hóf enski stærðfræðingurinn John Couch Adams (1819-92), þá nýútskrifaður frá Cambridgeháskólanum, að kanna aðrar tilgátur. Hann hugsaði með sér að ef til vill olli þyngdartog óuppgötvaðrar reikistjörnu því að staðsetning Úranusar hnikaði örlítið frá ætlaðri staðsetningu. Adams braut heilann yfir þessu vandamáli í tvö ár og lagði þá fram útreikninga sem sýndu að Úranus hafði nokkrum árum áður tekið fram úr annarri óþekktri reikistjörnu. Úranus jók brautarhraðann þegar hann nálgaðist þessa óþekktu reikistjörnu og hægði aftur örlítið á sér þegar hann sveimaði framhjá henni. Adams var afar fær stærðfræðingur og spáði fyrir um að óþekktu reikistjörnuna væri að finna í Vatnsberamerkinu.

Í október 1845 sendi Adams útreikninga sína til George Airy (1801-92), sem þá var konunglegur stjörnufræðingur í Greenwich á Englandi. Airy veitti útreikningum Adams heldur litla athygli og kaus að aðhafast ekkert. Fáeinum mánuðum seinna gerði franski stærð- og stjörnufræðingurinn Urbain Joseph Le Verrier (1811-77) samsvarandi útreikninga sjálfur og komst að sömu niðurstöðu og Adams (Le Verrier var ekki kunnugt um útreikninga Adams). Báðir spáðu þeir fyrir um staðsetningu óþekktu reikistjörnunnar með innan við einnar gráðu skekkju.

Airy frétti af útreikningum Le Verriers og vakti það loks athygli hans. Airy fékk þá James Challis (1803-82), prófessor við stjörnustöðina í Cambridge, til að hefja skipulagða leit eftir reikistjörnunni. Challis skorti hins vegar nákvæm stjörnukort af þeim stað sem Adams hafði reiknað út að hnöttinn væri að finna og hindraði það leit hans. Auk þess var Challis ekkert mjög áhugasamur um þessa leit. Af þeim sökum varð að kanna og fylgjast með mörgum stjörnum í nokkrun tíma og sjá þannig hvort einhver þeirra færðist miðað við fastastjörnurnar í bakgrunninum.

Johann Gottfried Galle
Johann Gottfried Galle sá Neptúnus fyrstur manna.

Á sama tíma ritaði Le Verrier bréf til þýska stjörnufræðingsins Johann Gottfried Galle (1812-1910) sem þá starfaði við stjörnustöðina í Berlín. Galle fékk bréf Le Verriers í hendurnar þann 23. september 1846 og fann reikistjörnuna sömu nótt í gegnum linsusjónauka stjörnustöðvarinnar. Galle bjó yfir bestu fáanlegu stjörnukortum þess tíma og gat því hæglega fundið óþekktan hnött og metið birtustig hans á fyrirhuguðum stað. Reikistjarnan fannst innan við eina gráðu frá þeim stað sem Le Verrier sagði að reikistjarnan væri á og um tólf gráður frá spá Adams. Challis varð síðar ljóst að hann hafði sjálfur séð reikistjörnuna tvisvar sinnum í mánuðinn á undann (í ágúst 1846) en var ekki nógu vandvirkur til að taka eftir henni.

Fljótlega eftir uppgötvunina deildu Frakkar og Bretar um hver skyldi eiga heiðurinn af uppgötvuninni. Að lokum sættust menn á að bæði Le Verrier og Adams skyldu hljóta heiðurinn saman.

1.1 Nafn

Stuttu eftir uppgötvunina var Neptúnus einfaldlega kallaður reikistjarnan fyrir utan Úranus og stundum reikistjarna Le Verriers. Fyrsta tillaga að nafni kom frá Galle sem stakk upp á því að reikistjarnan yrði nefnd Janus, eftir tvíhöfða guði hliða, dyra, upphafa og endaloka. Á Englandi stakk Challis upp á því að reikistjarnan yrði nefnd Ókeanos eftir persónugervingi heimshafanna í grískri og rómverskri goðafræði.

Le Verrier stakk síðar sjálfur upp á að reikistjarnan skyldi nefnd Neptúnus, en hann hafði einnig stungið upp á að hún yrði nefnd sjálfum sér til heiðurs eða Le Verrirer.

Þann 29. desember 1846 lýsti þýski stjörnufræðingurinn Friedrich Georg Wilhelm von Struve yfir stuðningi við nafnið Neptúnus. Fljótlega eftir það var Neptúnus almennt samþykkt í alþjóðasamfélaginu.

2. Braut og snúningur

Neptúnus
Þessar fjórar myndir af Neptúnusi, áttundu og ystu reikistjörnu sólkerfisins, var tekin með nokkurra klukkustunda millibili með Wide Field Camera 3 á Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Mynd Hubbles var tekin í tilefni þess að reikistjarnan hefur lokið einni hringferð í kringum sólin frá því að hún fannst árið 1864. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)

Neptúnus snýst umhverfis sólu á sporöskjulaga braut í að meðaltali 4,55 milljarða km fjarlægð eða 30,1 stjarnfræðieiningar fjarlægð frá sólu. Miðskekkja brautarinnar er 0,011 svo það munar 110 km á vegalengdinni í sólnánd og sólfirð eða þegar reikistjarnan er næst og fjærst sólu. Brautarhallinn er um 1,77° miðað við sólbauginn. Umferðartími Neptúnusar er 164,79 jarðarár. Það þýðir að þann 12. Júlí 2011 verður eitt Neptúnusarár liðið frá því hann fannst árið 1846.

Neptúnus hefur mest áhrif allra hnatta á Kuipersbeltið sem talið er vera í milli 30 og 50 stjarnfræðieininga fjarlægð frá sólu. Kuipersbeltið er safn lítilla íshnatta, ekki ósvipað og smástirnabeltið en talsvert stærra og víðfeðmara. Neptúnus hefur þar af leiðandi gríðarleg áhrif á brautir íshnattanna í Kuipersbeltinu sem fylgja þá brautarherma með Neptúnusi. Þannig fylgir dvergreikistjarnan Plútó 2:3 brautarherma með Neptúnusi. Það þýðir að fyrir hverja þrjá hringi sem Neptúnus fer í kringum sólina fer Plútó tvo hringi. Þessi brautarherma kemur í veg fyrir að Neptúnus geti rekist á Plútó þótt dvergreikistjarnan skeri braut reikistjörnunnar.

Möndulhalli Neptúnusar er 28,32°, ekki ósvipaður og möndulhalli jarðar og Mars. Afleiðing þess er sú að á Neptúnusi eru svipaðar árstíðir og á jörðinni en mun lengri vegna þess hve umferðartíminn er langur. Á Neptúnusi er sumarið fjörutíu ára langt. Það sama má segja um veturinn, vorin og haustin.

Möndulsnúningur Neptúnusar er mislangur þar sem hann hefur ekkert fast yfirborð. Við miðbauginn er dagurinn um átján klukkustundir en aðeins tólf klukkustundir við pólsvæðin. Þetta er mesti munur á snúningstíma reikistjörnu í sólkerfinu og veldur meðal annars geysisterkum vindum í lofthjúpnum.

3. Rannsóknir á Neptúnusi

Voyager 2, Neptúnus
Voyager 2 kveður Neptúnus og heldur út úr sólkerfinu árið 1989. Mynd: NASA

Lítið sem ekkert var vitað um Neptúnus þar til Voyager 2 heimsótti reikistjörnuna þann 25. ágúst 1989. Neptúnus var seinasta reikistjarnan sem Voyager 2 heimsótti á ferðalagi sínu um ytra sólkerfið og því var ákveðið að fljúga nálægt tunglinu Tríton, þar sem engu máli skipti hvert geimfarið fór eftir það. Hið sama var upp á teningnum þegar Voyager 1 flaug framhjá Satúrnusi og Títan árið 1980.

Í þessari gríðarlegu fjarlægð voru merki geimfarsins um fjórar klukkustundir á leið til jarðar svo framhjáflugið var skipulagt í þaula fyrirfram. Fyrst flaug Voyager nálægt tunglinu Neired áður en það geystist framhjá Neptúnusi í um 4400 km hæð yfir lofthjúpnum. Síðar sama dag flaug geimfarið framhjá Tríton.

Framhjáflugið reyndist afar árangursríkt. Voyager 2 uppgötvaði meðal annars að segulsvið reikistjörnunnar hnikaði frá miðju hennar líkt og segulsvið Úranusar, mældi snúningstímann og sá óvenju virkt veðrakerfi. Sex ný fylgitungl fundust og fleiri hringar umhverfis reikistjörnuna. Voyager 2 tók þessa fallegu mynd hér til hliðar af suðurpól Neptúnusar stuttu eftir að geimfarið sigldi framhjá reikistjörnunni og tók stefnuna út úr sólkerfinu okkar. Geimfarið hafði þá verið í geimnum í 12 ár og að baki var ómetanleg rannsóknarferð framhjá Júpíter, Satúrnusi, Úranusi og loks Neptúnusi. Voyager förin eru minnisvarðar um viðleitni mannsins til að skilja heiminn í kringum sig og þessi flöskuskeyti munu sigla um alheimshafið í milljónir ára.

Fyrir fáeinum árum lögðu nokkrir vísindamenn fram tillögu um leiðangur til Neptúnusar sem skotið yrði á loft í kringum 2030. Þá væri um að ræða brautarfar og lítil könnunarför sem varpað yrði inn í lofthjúpinn en einnig tvö lendingarför sem myndu lenda á Tríton. Þessi leiðangur er enn á teikniborðinu en verður vonandi að veruleika.

4. Innviðir

innviðir Neptúnusar
Innviðir Neptúnusar.

Neptúnus er ríflega sautján sinnum massameiri en jörðin og er hann því næst massaminnstur af ytri reikistjörnunum. Eðlismassi hans er 1,638 g/cm3 sem þýðir að hann er fjórða eðlisléttasta reikistjarnan á eftir Satúrnusi, Úranusi og Júpíter. Eðlismassi Neptúnusar bendir til þess að hann sé mestmegnis úr blöndu vatns, ammóníaks og metans. 

Lofthjúpur Neptúnusar er um 5-10% massans og teygir sig um 10 til 20% af vegalengdinni inn í átt að kjarnanum. Eftir því sem neðar dregur eykst þrýstingurinn og hitastigið um leið umtalsvert. Þar fyrir neðan er möttull úr vatni, metani, ammóníaki og öðrum efnum. Þrýstingurinn í möttlinum er gífurlegur, um 100.000 bör og hitastigið sömuleiðis hátt eða í kringum 2000°C. Við þennan hita og þrýsting eru efnin vökvakennd og vökvinn mjög rafleiðandi. Massi möttulsins er líklega 10 til 15 jarðmassar. Á 7000 km dýpi gætu aðstæður verið þannig að metan þéttist í demanta sem rignir niður að kjarnanum.

Innst er svo loks kjarninn. Kjarninn er líklega úr járni, nikkel, bergi og ís; álíka massamikill og jörðin. Þrýstingurinn þar er milljón sinnum meiri en við yfirborð jarðar og hitastigið sennilega rétt um 5000°C.

5. Lofthjúpur

Gögn frá Voyager 2 sýndu að efnasamsetning lofthjúps Neptúnsar svipar til lofthjúps Úranusar. Lofthjúpurinn er 80% vetni og 19% helíum en restin mestmegnis metan. Metanið í lofthjúpnum dregur í sig rautt ljós en dreifir bláu ljósi og gefur Neptúnusi því þennan fagurbláa blæ.

Vindakerfi Neptúnusar er gríðarlega öflugt, raunar hið öflugasta í sólkerfinu og ná öflugustu vindarnir nærri 600 m/s. Rannsóknir á færslu skýja í lofthjúpnum sýna breytilegan vindhraða, allt frá 20 m/s í austurátt til 325 m/s í vesturátt. Við skýjatoppinn er vindhraðinn oftast frá 400 m/s við miðbauginn niður í 250 m/s við pólsvæðin. Flestir vindar Neptúnusar blása í gangstæða átt við snúningsáttina.

6. Ský og stormar

Neptúnus, ský, dökki bletturinn
Björtu skýin á Neptúnusi, sem líkjast klósigum, breytast hratt þar sem þau myndast oft og eyðast á nokkrum tugum klukkustunda. Á þessi mynd sem nær yfir tvo Neptúnusardaga (um 36 stundir) rannsakaði Voyager 2 skýjaþróunina á svæðinu við Dökka blettinn. Hröðu breytingarnar vöktu nokkra furðu vísindamann og sýna að veðrið á Neptúnusi er e.t.v. jafn virkt og breytilegt eins og jarðar. Hins vegar er talsverður munur á aðstæðum því hitastigið í lofthjúpnum er -218°C og því eru klósigarnir þarna úr frosnu metani en ekki vatnsískristöllum eins og á jörðinni. Mynd: NASA/JPL

Þegar Voyager flaug framhjá Úranusi sáu stjörnufræðingar óvenju fá ský og bjuggust ekki við miklu þegar geimfarið heimsótti Neptúnus. Lofthjúpur Neptúnusar reyndist hins vegar þvert á móti mjög forvitnilegur. Ólíkt Úranusi er skýin mun greinilegri og þegar Voyager flaug framhjá var stór dökkur blettur á suðurhvelinu augljósasta kennileitið. Dökki bletturinn reyndist ekki mjög langlífur því þegar Hubblessjónaukinn beindi sjónum sýnum að Neptúnusi árið 1994 var dökki bletturinn horfinn. Ári síðar hafði annar dökkur blettur birst á norðurhvelinu.

Voyager sá einnig nokkur áberandi ljós ský í lofthjúpnum. Talið er að þessi ský verði til þegar vindur blæs metangasi upp í efri hluta lofthjúpsins, sem er svalari. Þar þéttist gasið og myndar ammóníakkristalla sem svo birtast sem hvít ský. Á myndum Voyagers eru þessi ský hátt í lofthjúpnum og varpa skuggum á lægri svæði hans.

Vegna mikillar fjarlægðar frá sól nýtur Neptúnus helmingi minni sólarorku en Úranus. Engu að síður er lofthjúpurinn óvenju virkur, mun virkari en lofthjúpur Úranusar. Það þýðir að einhver innri orka er til staðar í Neptúnusi. Margt bendir til þess að Neptúnus geisli frá sé meiri orku en hann fær frá sólinni, líkt og Júpíter. Líklega er Neptúnus enn að dragast saman en við það breytist þyngdarorkan í varmaorku sem veldur því að kjarninn hitnar. Þessi samblanda hlýrra innviða og kalds ytri lofthjúps veldur iðustraumum í Neptúnusi sem færir gas upp og niður innan reikistjörnunnar og við það verður skýja og stormamyndun.

Neptúnus
Þessa mynd af Neptúnusi tók Voyager 2 geimfarið þann 17. ágúst 1989 úr ríflega tíu milljón km fjarlægð, rúmri viku áður en geimfarið flaug næst reikistjörnunni. Myndin sýnir stóra dökka blettinn og önnur björt ský í lofthjúpnum. Þetta er sennilega sú mynd sem nær að sýna raunverulegan lit Neptúnusar hvað best. Mynd: NASA/JPL/Björn Jónsson (myndvinnsla)

7. Segulsvið

Segulsvið Neptúnusar líkist segulsviði Úranusar á margan hátt. Í fyrsta lagi hallar það 47° frá snúningsásnum og í öðru lagi á það ekki rætur að rekja til miðju reikistjörnunnar heldur víkur um 13.500 km frá miðjunni. Það að segulsviðið er ekki í miðju Neptúnusar hefur þau áhrif að segulsviðið er missterkt. Styrkur þess við miðbauginn er 1,42 μTesla.

Segulsviðið er talið myndast í vökvamöttli reikistjörnunnar á svipaðan hátt og segulsvið Úranusar, eða þegar uppleystar sameindir missa eina eða fleiri rafeindir og hlaðast upp (jónast).

segulsvið, gasrisar
Segulsvið jarðar, Júpíters, Satúrnusar, Úranusar og Neptúnusar. Þessi mynd sýnir hvernig segulsvið þessara reikistjarna hallar miðað við snúningsás þeirra. Segulsvið bæði Úranusar og Neptúnusar víkja frá miðju þeirra og halla talsvert miðað við snúningsásinn. Mynd: W. H. Freeman og Stjörnufræðivefurinn

8. Hringar

hringar Neptúnusar
Hringar Neptúnusar. Voyager 2 tók þessar tvær myndir af hringum Neptúnusar þann 26. ágúst 1989 úr 280.000 km fjarlægð frá reikistjörnunni. Meginhringarnir þrír eru greinilegir og sýnast heilir á myndinni. Bjarti glampinn í miðjunni er vegna yfirlýsingar á Neptúnusi til þess að unnt væri að draga fram hringana. Fjöldi fjarlægra fastastjarna sést í bakgrunninum. Mynd: NASA/JPL

Neptúnus hefur hringakerfi líkt og hinir risarnir í sólkerfinu. Hringarnir eru miklu minni en hringar Satúrnusar og líkjast einna helst hringum Úranusar. Hringarnir eru að mestu úr metanísögnum sem þaktar eru dökku efni, líklega kolefni, sem gefur þeim rauðleitan blæ og dökku ryki.

Fyrstu merki þess að Neptúnus hefði hringi sáust árið 1968 þegar stjörnufræðingar fylgdust með því þegar reikistjarnan gekk fyrir fastastjörnu og myrkvaði hana. Við myrkvunina blikkaði stjarnan, líkt og eitthvað hindraði að ljósið frá henni bærist beint til jarðar. Hringarnir virtust aftur á móti ekki samfelldir því ljósið virtist blikka mismikið.

Þegar Voyager 2 flaug framhjá komu í ljós nokkrir daufir en áhugaverðir hringir. Hringarnir eru nefndir eftir þeim stjörnufræðingum sem lögðu mikið af mörkum til rannsókna á Neptúnusi. Þeir innstu og mest áberandi eru:

 • Galle-hringurinn (1989 N3R) er innsti hringur Neptúnusar. Hann er mjög daufur og lítið vitað um hann annað en að hann er vel innan við braut Naíads sem er innsta tungl Neptúnusar. Galle-hringurinn er mjög rykugur og rauðleitur.

 • Le Verrier hringurinn (1989 N2R) er næst mest áberandi hringur Neptúnusar. Hann er engu að síður mjög daufur og rauðleitur og liggur rétt innan við braut tunglsins Despínu.

 • Adams-hringurinn (1989 N1R) er ysti hringur Neptúnusar og mest áberandi. Engu að síður er hann mjög daufur í samanburði við hringa Satúrnusar og Úranusar. Hringurinn var upphaflega nefndur 1989 N1R en var síðar nefndur John Couch Adams til heiðurs. Hringurinn er um það bil 1000 km utan við braut smalatunglsins Galateu (smalatungl eru fylgitungl innan hringakerfa reikistjarna).

  Innan hringsins eru bogar, staðir þar sem efnismagn er meira en annars staðar innan hringsins og einnig bjartari og ógegnsærri. Tilvist þessara hringboga er erfitt að útskýra þar sem allar ójöfnur í hringnum ættu að jafnast út með tímanum. Í dag er talið að þessar ójöfnur stafi af þyngdaráhrifum frá Galateu.

  Þrír mest áberandi hringbogarnir kallast Liberté, Égalité og Fraternité sem þýðir einfaldlega frelsi, jafnrétti og bræðralag sem voru hin frægu einkunnarorð frönsku byltingarinnar árið 1789. Þessi nöfn voru valin af þeim vísindamönnum sem urðu fyrstir varir við tilvist hringboganna árin 1984 og 1985. Allir bogarnir eru tiltölulega nálægt hver öðrum.

 • Hringur:
  Fjarlægð frá Neptúnusi:
  Þykkt (km):
  Nefndur eftir:
  1989 N3R Galle
  41.900 km
  15 km
  Johann Gottfried Galle
  1989 N2R Le Verrier
  53.200 km
  15 km
  Urbain Joseph Le Verrier
  Lassell
  55.400 km
  Óþekkt
  William Lassell
  Arago
  57.600 km
  Óþekkt
  François Arago
  1989 N1R Adams
  57.600 km
  Mismunandi
  John Couch Adams

9. Fylgitungl

Neptúnus, Tríton
Neptúnus og Tríton. Mynd: NASA/JPL

Umhverfis Neptúnus ganga að minnsta kosti fjórtán fylgitungl. Af þeim eru fjögur smalatungl, þau Naíad, Þalassa, Despína og Galatea sem þýðir að þau hringsóla um Neptúnus innan hringakerfisins.

Stærsta tunglið, Tríton, fannst einungis rúmum tveimur vikum eftir að Neptúnus fannst árið 1846. Tríton er langstærst fylgitungla Neptúnusar og inniheldur yfir 99% af heildarmassa tungla- og hringakerfisins reikistjörnunnar. Tríton snýst rangsælis umhverfis Neptúnus, þ.e.a.s í öfuga átt miðað við snúningsátt reikistjörnunnar. Það bendir til þess að Tríton hafi myndast utar í sólkerfinu en komið of nálægt Neptúnusi sem hafi fangað það. Braut Trítons er smám saman að lækka af völdum flóðkrafta. Að lokum mun tunglið tvístrast og mynda hring í kringum Neptúnus. Þegar Voyager flaug framhjá tunglinu árið 1989 mældist yfirborðshitastigið á því -235°C. Tríton er þar af leiðandi meðal köldustu staða sólkerfisins. Þrátt fyrir það reyndist ísilagt yfirborðið óvenju slétt og ungt. Á yfirborðinu fundust kaldir hverir sem spúa ís meira en átta km upp frá yfirborðinu.

Árið 1949 fann bandaríski stjörnufræðingurinn Gerard Kuiper tunglið Nereid umhverfis Neptúnus. Þegar Voyager 2 flaug svo framhjá Neptúnusi fundust sex tungl til viðbótar. Árið 2002 fundust fjögur tungl í viðbót, annað árið 2003 og svo eitt til viðbótar árið 2013. Heildarfjöldi þekktra fylgitungla Neptúnsar er því fjórtán en fleiri leynast án efa á sveimi í kringum reikistjörnuna og bíða þess að finnast.

10. Að skoða Neptúnus

Sýndarbirtustig Neptúnusar er venjulega milli +7,7 og +8,0 sem þýðir að hann sést ekki með berum augum. Galíleótunglin, dvergreikistjarnan Ceres og smástirnin 4 Vesta, 2 Pallas, 7 Iris, 3 Juno og 6 Hebe geta öll verið bjartari en Neptúnus. Eina leiðin til að sjá reikistjörnuna er því að notast við góða handsjónauka (8x42 eða stærri) eða góðan stjörnusjónauka. Í gegnum stóran stjörnusjónauka, 200mm eða stærri (8 tommur), er Neptúnus lítið annað en bláleit skífa, ekki ósvipaður Úranusi að útliti.

Neptúnus er mjög langt frá jörðinni og því er hornstærð hans aðeins milli 2,2 og 2,4 bogasekúndur. Smæð hans á himninum og fjarlægð torvelda allar rannsóknir. Hingað til hafa flestar rannsóknir frá jörðu verið gerðar með Hubblessjónaukanum.

Frá jörðu séð sýnist Neptúnus snúast aftur á bak á um 367 daga fresti en þá eru jörðin í gagnstöðu við Neptúnus. Neptúnus sýnist þá snúa við á himninum og ganga í gagnstæða átt miðað við stjörnurnar í bakgrunni.

Tengt efni

Heimildir

 1. Beatty, J. Kelly; Petersen, Carolyn Collins og Chaikin, Andrew (ritstj.). 1998. The New Solar System. Cambridge University Press, Massachusetts.
 2. Freedman, Roger og Kaufmann, William. 2004. Universe, 7th Edition. W. H. Freeman, New York.
 3. Ferris, Timothy. 2002. Seeing in the Dark: How Backyard Stargazers are Probing Deep Space and Guarding Earth from Interplanetary Peril. Simon & Schuster, New York.
 4. Hoskins, Michael. 1997. Cambridge Illustrated History of Astronomy. Cambridge University Press, Massachusetts.
 5. McFadden, Lucy-Ann; Johnson, Torrence og Weissman, Paul (ritstj.). 2006. Encyclopedia of the Solar System. Academic Press, California.
 6. Pasachoff, Jay. 1998. Astronomy: From the Earth to the Universe, fimmta útgáfa. Saunders College Publishing, Massachusetts.

Hvernig vitna skal í þessa grein

 • Sævar Helgi Bragason (2010). Neptúnus. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornufraedi.is/solkerfid-large/neptunus (sótt: DAGSETNING).