Ný tungl fundin um Úranus og Neptúnus

Sævar Helgi Bragason 26. feb. 2024 Fréttir

28 tungl nú þekkt um Úranus en 16 um Neptúnus

  • Víðmynd af Úranusi frá Webb sjónaukanum

Stjörnufræðingar hafa fundið nýtt tungl umhverfis Úranus og tvö ný um Neptúnus. Öll tunglin eru lítil og langt í burtu frá móðurhnöttunum.

Hamfarir - Vísindalæsi

„Tunglin þrjú eru þau daufustu sem fundist hafa á sveimi um ísrisana tvo með sjónaukum á jörðu niðri. Sérstaka myndvinnsluaðferð þurfti til að draga svo dauf fyrirbæri fram,“ sagði Scott Shepard hjá Carnegie Science sem uppgötvaði tunglin.

Tunglin fundust eftir djúpa og kerfisbundna leit með hjálp Magellan-sjónaukans í Las Campanas stjörnustöð Carnegie Science í Chile.

Úranusartunglið hefur fengið tímabundna skráarheitið S/2023 U1 en fær á endanum nafn persónu úr leikritum William Shakespeare eins og nafnahefðin gerir ráð fyrir. Það er aðeins 8 km að stærð og hefur 680 daga umferðartíma. Í dag eru þá þekkt 28 fylgitungl um Úranus.

Nytt-tungl-uranusar

Uppgötvun á Úranusartunglinu S/2023 U1 á mynd Magellan-sjónaukans þann 4. nóvember 2023. Mynd: Scott Shepard

Neptúnusartunglin tvö eru stærri. Það bjartara hefur skráarheitið S/2002 N5, er um 23 km að stærð og gengur um Neptúnus á næstum níu árum. 

Daufara tunglið kallast S/2021 N1 og er aðeins minna eða 14 km að stærð en hefur næstum 27 ára umferðartíma. Í dag eru þá þekkt 16 fylgitungl um Neptúnus.

Bæði tunglin verða á enfanum nefnd eftir Nereidunum, einhverjum hinna fimmtíu dætra Nereifs sjávarguðs og hirðmeyjum Póseidons.

Öll tunglin eru óralangt frá reikistjörnunum sínum. Sporbrautirnar eru mjög sporöskjulaga (miðskakkar) og hallandi sem bendir til þess að öll hafi þau orðið föst á braut um reikistjörnurnar skömmu eftir myndun þeirra. 

Frétt frá Carnegie Science