September 2023

  • Hvað sést á stjörnuhimninum í september 2023
    Hvað sést á stjörnuhimninum í september 2023

Í september er loksins orðið nógu dimmt á Íslandi til að skoða stjörnuhiminninn. Á þessum árstíma sést Vetrarbrautin okkar best - horfðu í suðurátt þegar orðið er dimmt. Í september 2023 eru reikistjörnurnar Júpíter og Satúrnus líka áberandi á kvöldhimninum.

HELST Á HIMNI Í SEPTEMBER 2023

4 september: Júpíter er bjarta stjarnan við hlið tunglsins.

23. september:  Haustjafndægur á norðurhveli kl 06:50 en vorjafndægur á suðurhveli.

26 september: Tunglið skammt frá Satúrnusi.

TUNGLIÐ

Tunglið
Dagsetning
Kvartil
Fróðleikur
Tunglid-thridja-kvartil6. september
kl. 22:21
Þriðja kvartil
(minnkandi)
Rís í kringum miðnætti og er í suðri við sólarupprás. Góður tími til að skoða gígana í sjónauka.
Nytt-tungl
15. september
kl. 01:40
Nýtt tungl
Milli Jarðar og sólar og sést því ekki á himni.
Tunglid-fyrsta-kvartil22. september
kl. 19:32
Fyrsta kvartil
(vaxandi)
Rís í kringum hádegi og er á suðurhimni við sólsetur. Góður tími til að skoða gígana í sjónauka.
Fullt-tungl
29. september
kl. 09:54
Fullt tungl
Uppskerumáni - Rís við sólsetur, er hæst á himni um miðnætti, sést alla nóttina
  • Tungl fjærst Jörðu: 12. september - 406.290 km
  • Tungl næst Jörðu: 28. september - 359.913 km

NORÐURLJÓS

Norðurljósin eru að meðaltali tíðust í kringum jafndægur, þ.e. september/október og mars/apríl. Á auroraforecast.is eru bestu upplýsingarnar um geimveðrið og norðurljósavirkni og skýjahuluspá fyrir Ísland.

REIKISTJÖRNUR Á LOFTI

Merkúríus er morgunstjarna í Ljóninu seinni helming mánaðarins. Hann er mjög lágt á lofti og lækkar þegar líður að mánaðarmótum september/október. 

Merkúríus er í vestustu álengd (lengst vestan megin við sólina) 22. september. Þá ætti að vera auðveldast að koma auga á hann í austri, skömmu fyrir sólarupprás, eldsnemma morguns en hafa ber í huga að það er alltaf krefjandi að koma auga á Merkúríus.

Venus er morgunstjarna í Krabbanum í byrjun mánaðarins en færist yfir í Ljónið í lok september. Hún er lang skærasta „stjarna“ himins og sést vel í austri við birtingu. Í byrjun mánaðar sést með sjónauka að Venus er mjó sigð en í lok mánaðar næstum hálf.

Merkurius-venus-22sept2023

Mars er ekki á lofti.

Júpíter er kvöldstjarna í Hrútnum. Hann sést í austri skömmu eftir sólsetur og er í suðri við birtingu. Að kvöldi 4. september verður hálft minnkandi tunglið skammt frá Júpíter og Úranusi.

Jupiter-tunglid-4sept2023

Satúrnus er kvöldstjarna í Vatnsberanum. Að kvöldi 26. september verður gleitt vaxandi tunglið rétt fyrir neðan Satúrnus. Líttu þá í suð-suðaustur. Norðurhvelið snýr að Jörðu svo frá sjónarhóli okkar horfum við ofan á hringana. Litlir stjörnusjónaukar sýna þá vel.

Tunglid-saturnus-26sept2023

Úranus er kvöldstjarna í Nautinu, skammt frá Júpíter. Nota þarf sjónauka til að koma auga á hann.

Neptúnus er kvöldstjarna í Fiskunum. Nota þarf sjónauka til að sjá hann. Neptúnus er í gagnstöðu við Jörð 19. september.

LOFTSTEINADRÍFUR

Í september eru engar meiriháttar loftsteinadrífur.

FYRIRBÆRI MÁNAÐARINS - SUMARÞRÍHYRNINGURINN

Á haustin sést Vetrarbrautin okkar best. Bjartasti hluti hennar er nokkurn veginn í suðri við myrkur og er best að sjá hana þegar tungl er ekki á lofti. Í september 2023 er besti tíminn því um miðjan mánuð í kringum nýtt tungl.

Í vetrarbrautarslæðunni eru þrjár áberandi bjartar stjörnur sem saman mynda Sumarþríhyrninginn svonefnda. Þetta eru Deneb í Svaninum, Vega í Hörpunni og Altair í Erninum. Í vetrarbrautarslæðunni er margt að sjá með litlum áhugamannasjónaukum.

Stjornuskodun-scaledLÆRÐU MEIRA

Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna er leiðarvísir um stjörnuhiminninn yfir Íslandi.

Í bókinni eru kort þar sem merkt eru áhugaverð fyrirbæri að skoða með handsjónaukum eða litlum stjörnusjónaukum.

VANTAR ÞIG STJÖRNUSJÓNAUKA?

VILT ÞÚ KOMAST Í STJÖRNUSKOÐUN?

Á Hótel Rangá er besta aðstaða landsins til stjörnuskoðunar

Í litlu húsi með afrennanlegu þaki eru tveir fyrsta flokks rafdrifnir og tölvustýrðir sjónaukar. Stjörnuskoðunarhúsið er opið öll heiðskír kvöld milli kl. 21 og 22:30. Þangað eru öll velkomin og er aðgangur ókeypis, þótt auðvitað sé skemmtilegast að gera sér glaðan dag og snæða kvöldverð á staðnum. Um eina og hálfa klukkustund tekur að aka frá höfuðborgarsvæðinu á Hótel Rangá.

Ég mæli með að fjölskyldur komi á föstudegi eða laugardegi svo yngsta fólkið sé ekki þreytt í skólanum daginn eftir.

Sævar Helgi Bragason