Arnarþokan

Messier 16 og Stöplar sköpunarinnar

  • messier16-arnarthokan-eso
    Arnarþokan (Messier 16 eða NGC 6611). Mynd: ESO
Helstu upplýsingar
Tegund: Ljómþoka (rafað vetnisský)
Stjörnulengd:
18klst 18mín 48sek
Stjörnubreidd:
-13° 49′
Fjarlægð:
7000 ljósár
Sýndarbirtustig:
+6,0
Hornstærð:
7 bogamínútur
Stjörnumerki: Höggormurinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 6611, Sharpless 49

Svissneski stjörnufræðingurinn Jean-Philippe Loys de Chéseaux uppgötvaði þokuna í kringum árið 1745. Frakkinn Charles Messier var í leit að halastjörnum þegar hann kom sjálfur auga á þokuna um tuttugu árum síðar og færði hana í fræga skrá sína, þá sautjándu í röðinni, en hann tók eftir daufum bjarma í kringum stjörnurnar.

Arnarþokan er í um 7.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjörnusvermurinn í þokunni er líklega um 5,5 milljón ára gamall en stjörnumyndun á sér enn stað í Arnarþokunni.

Stöplar sköpunarinnar

Arnarþokan varð heimsfræg árið 1995 þegar Hubble geimsjónauki NASA og ESA tók mynd af stöplunum í miðju þokunnar. Stöplarnir líkjast drönglum úr kalkspati sem myndast upp frá gólfum kalksteinshella. Í stöplunum er gasið nógu þétt til að falla saman undan eigin þunga og mynda nýjar stjörnur. Þessir gas- og rykstöplar eru nokkur ljósár að lengd. Þeir mótast, lýsast upp og tortímast allt í senn vegna þeirrar sterku útfjólubláu geislunar sem stórar stjörnur í ungu stjörnuþyrpingunni við hliðina, NGC 6611, gefa frá sér.

Mynd Hubbles af stöplunum er samsett úr 32 myndum sem Wide Field Planetary Camera 2 tók 1. apríl 1995. Litadýrðina má rekja til mismunandi frumefna í skýinu: Grænn litur sýnir vetni, rauður einjónaðan brennistein og blár tvíjónuð súrefnisatóm.

Árið 2001 tók Very Large Telescope (VLT) aðra glæsilega mynd af þokunni í nær-innrauðu ljósi sem gerði stjörnufræðingum kleift að svipta hulunni af stjörnum sem eru að myndast í stöplunum.

Snemma árs 2007 tók Spitzer geimsjónaukinn myndir sem sýndu að hugsanlega hafi stöplarnir tortímst af völdum nálægrar sprengistjörnu fyrir um 6.000 árum. Ljósið sem sýnir nýja lögun þokunnar berst hins vegar ekki til okkar fyrr en eftir um þúsund ár.

Í janúar 2015 var ný ljósmynd Hubble af Stöplum sköpunarinnar birt. Myndin var tekin með Wide Field Camera 3 sem komið var fyrir í Hubble í fimmta og seinasta viðhaldsleiðangrinum árið 2009.

Stólpar sköpunarinnar í Arnarþokunni (Messier 16). Mynd: NASA/ESA og Hubble
Stöplar sköpunarinnar með tíu ára millibili. Mynd: NASA/ESA

Á himninum

Arnarþokan sést frá Íslandi, naumlega þó, og er alltaf mjög lágt á lofti. Með litlum áhugamannasjónaukum sjást stöplarnir í miðjunni ágætlega en eru enn glæsilegri að sjá í gegnum stærri sjónauka (8 tommur eða stærri). Best er að nota litla stækkun og gott er að notast við OIII eða UHC síu ef hægt er. Í gegnum sjónaukann birtast stöplarnir okkur sem skuggamyndir fyrir framan bjarta þokuna í bakgrunni. Lögun þokunnar sjálfrar minnir óljóst á örn og eru stöplarnir klærnar.

Auðvelt er að finna Messier 16 með stjörnukortinu hér.

Myndasafn

messier16-arnarthokan-eso

Arnarþokan á mynd Wide Field Imager

Þessi mynd af Arnarþokunni er sett saman úr myndum sem teknar voru með Wide Field Imager myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í stjörnustöðinni í La Silla í Chile. Í miðjunni stjást „Stöplar sköpunarinnar“ sem urðu heimsfrægir á mynd Hubblesjónaukans árið 1995. Fyrir ofan stöplana hægra megin sést lausþyrpingin NGC 6611 sem geymir heitar og massamiklar stjörnur sem lýsa upp stöplana. Sjá eso0926.

Mynd: ESO

Messier 16, Arnarþokan, stöplar sköpunarinnar  

„Stöplar sköpunarinnar“

Þrír stöplar sem líkjast helst drönglum sem myndast upp af gólfi kalksteinshella. Stöplarnir eru úr köldu gasi og ryki og eru myndunarstaðir nýrra stjarna.

Mynd: Jeff Hester og Paul Scowen (Arizona State University), NASA og ESA

Messier 16, Arnarþokan, stöplar, innrautt, VLT

Arnarþokan í innrauðu ljósi á mynd Very Large Telescope

Innrauð ljósmynd ISAAC mælitækisins á 8,2 metra VLT Antu sjónaukanum í Paranal stjörnustöðinni í Chile. Björtus stjörnurnar efst til hægri eru heitar, ungar stjörnur í lausþyrpingunni NGC 6611. Einnig sjást nokkrar mjög rauðar stjörnur sem eru (sumar hverjar) ungar stjörnur sem enn eru umluktar gasi og ryki. Sjá má stjörnur mótun í stöplunum.

Mynd: ESO/M. McCaughrean & M. Andersen (AIP)

Messier 16, Arnarþokan, stöpull  

„Kirkjuturninn“ í Arnarþokunni

Hér sést stöpull úr gasi og ryki í Arnarþokunni sem rís eins og 90 trilljón km (9,5 ljósára) hár turn á dómkirkju í gottneskum stíl. Í stöplinum eru stjörnur að myndast úr köldu vetnisgasi. Skýin sem líkjast fingrum og skaga út úr stöplinum eru stjörnumyndunarsvæði.

Í stöplum Arnarþokunnar er gasið nógu þétt til að falla saman undan eigin þunga og mynda nýjar stjörnur. Þeir mótast, lýsast upp og tortímast allt í senn vegna þeirrar sterku útfjólubláu geislunar sem stórar stjörnur í kring gefa frá sér. Eftir nokkrar milljónir ára — augnablik á stjarnfræðilegan mælikvarða — verða þeir horfnir að eilífu.

Litirnir á myndinni eru af völdum jónaðs gass. Blái liturinn er frá glóandi súrefni en rauði liturinn frá glóandi vetni.

Þessi mynd var tekin með Advanced Camera for Surveys í Hubblegeimsjónauka NASA og ESA í nóvember 2004.

Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team STScI/AURA

Messier 16, NGC 6611, Arnarþokan, Höggormurinn  

Öflugar stjörnur í Arnarþokunni

Hér sjást ungar og öflugar stjörnur í lausþyrpingunni NGC 6611 í Arnarþokunni. Dökku skýin eru þétt gas- og ryksvæði sem hindra að sýnilegt ljós berist út úr þeim. Líklega eru þetta staðir þar sem fyrstu skref stjörnumyndunar eiga sér stað. Myndin var tekin með Advanced Camera for Surveys í Hubblessjónauka NASA og ESA. Sjá nánar mynd vikunnar á Stjörnufræðivefnum potw1101a.

Mynd: NASA/ESA

Arnarþokan, Messier 16, Herschel geimsjónaukinn  

Arnarþokan með augum Herschels

Hér sést Arnarþokan í fjar-innrauðu ljósi sem kalt efni (frá -260°C (rautt) upp í -220°C (blátt)) í þokunni gefur frá sér. Myndin var tekin með PACS og SPIRE myndavélum Herschel geimsjónauka Geimvísindastofnunar Evrópu, ESA.

Mynd: ESA/Herschel/PACS/SPIRE/Hill, Motte, HOBYS Key Programme Consortium

Tengt efni

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2011). Arnarþokan. Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/arnarthokan sótt (DAGSETNING)