Messier 15

Kúluþyrping í Pegasusi

  • Messier 15, M15, kúluþyrping, Pegasus
    Kúluþyrpingin Messier 15 í Pegasusi. Mynd: ESA/Hubble og NASA
Helstu upplýsingar
Tegund: Kúluþyrping
Stjörnulengd:
21klst 29mín  58,38s
Stjörnubreidd:
+12° 10′ 00,6"
Fjarlægð:
35.000 ljósár
Sýndarbirtustig:
+6,2
Stjörnumerki: Pegasus
Önnur skráarnöfn:
NGC 7078

Fransk-ítalski stjörnufræðingurinn Jean-Dominique Maraldi uppgötvaði þyrpinguna þann 7. september árið 1746. en hann leitaði þá halastjörnu De Chéseaux sem þá var á himni. Landi hans Charles Messier bætti henni í skrá sína árið 1764. De Chéseaux taldi sig sjá stjörnur í þyrpingunni en hvorki Messier né Þjóðverjinn Johann Elert Bode greindu stjörnur. Það kom því í hlut Williams Herschel að skera úr um álitaefnið. Hann greindi sundur stakar stjörnur í þyrpingunni árið 1783.

Messier 15 er í um 35.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni og er 175 ljósár í þvermál. Heildarljósafl hennar er 360.000 sinnum meira en sólar. Messier 15 er ein þéttasta kúluþyrping sem vitað er um en stærsti hluti massans er í kjarna hennar. Stjarneðlisfræðingar telj að íturvaxnar kúluþyrpingar eins og þessi hafi gengið í gegnum ferli sem nefnist kjarnahrun. Kjarnahrun er afleiðing gagnverkunnar þyngdarkrafta stakra stjarna sem leiðir til þess að þær færast nær kjarnanum. Í kjarnanum gæti leynst svarthol.

Þyrpingin telur rúmlega 100.000 stjörnur. Messier 15 var einnig fyrsta kúluþyrpingin sem í ljós kom að hýsir hringþoku (fannst árið 1928 á ljósmyndaplötum sem teknar voru á Wilsonfjalli árið áður); reyndar er aðeins vitað um fjórar kúluþyrpingar sem hýsa þær. Hringþokan nefnist Pease 1 og sést greinilega á myndinni að ofan sem lítill blár blettur neðarlega til vinstri við kjarnann.

Fundist hafa 9 tifstjörnur í Messier 15, nifteindastjörnur sem eru leifar sprengistjarna frá þeim tíma þegar þyrpingin var ung en hún er talin um 13 milljarða ára.

Á himninum

Sýndarbirtustig Messier 15 er +6,2 svo hún er á mörkum þess að sjást með berum augum við góðar aðstæður. Hún sést leikandi sem kúlulaga þokublettur í gegnum handsjónauka eða lítinn stjörnusjónauka. Höfundur þessarar greinar hefur greint stakar stjörnur í þyrpingunni með 4,5 tommu spegilsjónauka (björtustu stjörnur þyrpingarinnar eru af birtustigi +12,6) en í gegnum stærri sjónauka, yfir 6 tommur, er hún stórkostleg og er þá best að nota meðalstækkun.

Mjög auðvelt er að finna Messier 15 en gott er að styðjast við stjörnukort af Pegasusi. Finna þarf stjörnuna Epsilon Pegasi og Þeta Pegasi suðaustur af henni. Dregin er bein lína frá Þeta yfir Epsilon að Messier 15 sem er 3,5 gráðu vestur og rúmlega 2 gráðum norður af Epsilon.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 15, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Messier_15

  3. Gamlar stjörnur í nýju ljósi. Mynd vikunnar á Stjörnufræðivefnum (14. febrúar 2011)

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 15. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-15 (sótt: DAGSETNING).