Pegasus

 • stjörnukort, stjörnumerki, Pegasus
  Kort af stjörnumerkinu Pegasusi
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Pegasus
Bjartasta stjarna: ε Pegasi
Bayer / Flamsteed stjörnur:
88
Stjörnur bjartari +3,00:
5
Nálægasta stjarna:
EQ Pegasi
(20,4 ljósár)
Messier fyrirbæri:
1
Loftsteinadrífur:
Pegasítar
Sést frá Íslandi:

Pegasus er sjöunda stærsta stjörnumerkið á næturhiminnum. Hann er rétt norðan við miðbaug himins og sést best að kvöldlagi frá Íslandi frá ágúst og fram í byrjun febrúar. Hann er í suðri klukkan níu að kvöli í nóvember.

Einfaldast er að finna Pegasus með því að finna fyrst stjörnumerkið Kassíópeiu (myndar „W“ á himninum). Fyrir neðan Kassíópeiu myndar stjörnumerkið Andrómeda bogalínu með fjórum stjörnum. Neðsta stjarnan af þessum fjórum er í efra hægra horni Pegasusar ferhyrningsins svonefnda.

Uppruni

Vængfákurinn Pegasus tengist grísku hetjunni Bellerófons. Móðir fáksins var Gorgóninn Medúsa sem var fræg í æsku fyrir fegurð sína, einkum fagurt hár sitt. Átti hún sér marga vonbiðla en sá sem svipti hana meydómnum var Póseidon, guð hafs og hesta. Flekunin átti sér því miður stað í hofi Aþenu. Gyðjan reidist því að hofið skildi óhreinkað á þennan hátt og breytti Medúsu í skrímsli með hár úr snákum og gat augnaráð hennar breytt mönnum í stein.

Þegar Perseifur hjó höfuðið af Medúsu, spratt Pegasus úr því. Hann breiddi út vængi sína á flaug út úr líkama móður sinna að Helikonfjalli, bústaði Menntagyðjanna. Þar drap hann niður hófa sína svo úr berginu rann vatn, gyðjunum til mikillar ánægju. Sagt var að þeir sem drykkju vatnið öðluðust færni til ljóðlistar.

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Pegasus
Stjörnumerkið Pegasus og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Pegasus varð síðar hestur Bellerófons sem var mesta hetjan fyrir daga Heraklesar. Bellerfón var beðinn um að drepa skrímslið Kímeru og tókst það með hjálp Aþenu og Pegasuar.

Eftir það reyndi hann að fljúga á hestinum til guðanna á Ólympusfjalli en féll af baki og hrapaði til jarðar. Pegasus komst á leiðarenda og notaði Seifur hann til að bera þrumufleyga sína.

Seifur kom síðan Pegasusi fyrir á himninum. Á norðurhimninum liggur hann á hvolfi og aðeins helmingur hans sýndur

Stjörnur

Í Pegasusi eru fimm stjörnur bjartari en birtustig 3. Þrjár þeirra, Alfa, Beta og Gamma Pegasi auk Alfa Andromedae mynda Pegasus ferhyrninginn. Þegar Jóhann Bayer gaf stjörnunum gríska bókstafi snemma á 17. öld merkti hann stjörnuna í efra vinstra horni ferhyrningsins bæði sem Alfa Andromedae og Delta Pegasi. Sú stjarnan tilheyrir nú eingöngu Andrómedu og er þess vegna engin lengur merkt Delta Pegasi.

 • ε Pegasi er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Pegasusi (birtustig 2,38). Hún er appelsínugul reginrisastjarna af gerðinni K2, næstum tólf sinnum massameiri en sólin, 185 sinnum breiðari og 5.000 sinnum bjartari. Þessi risastjarna gengur líka undir nafinu Enif sem þýðir „nös“ og vísar til staðsetningar stjörnunnar í Pegasusi. Samkvæmt hliðrunarmælingum evrópska gervitunglsins Hipparkosar er Enif í um 690 ljósára fjarlægð. Hún mun enda ævi sína sem sprengistjarna eftir fáeinar milljónir ára.

 • β Pegasi er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Pegasusi (birtustig 2,44). Hún er rauð risastjarna af gerðinni M2,3; næstum hundrað sinnum breiðari en sólin og tvisvar sinnum massameiri. Samkvæmt hliðrunarmælingum er Beta Pegasi í um 196 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan gengur undir nöfnunum Scheat, sem þýðir „sköflungur“ og Mankib al Faras sem þýðir „háls hestsins“. Hana er að finna í efra hægra horni Pegasusar ferhyrningsins.

 • α Pegasi eða Markab (söðull fáksins) er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Pegasusi (birtustig 2,49). Hún er risastjarna af gerðinni B9, næstum fimm sinnum breiðari en sólin og 74 sinnum bjartari, í um 133 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjörnuna er að finna í neðra hægra horni Pegasusar ferhyrningsins.

 • γ Pegasi eða Algenib er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Pegasusi (birtustig 2,83). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni B2 sem er að þróast yfir í risastjörnu og er næstum níu sinnum massameiri en sólin og fimm sinnum breiðari.Samkvæmt hliðrunarmælingum er stjarnan í 390 ljósára fjarlægð eða svo. Algenib er að finna í neðra vinstra horni Pegasusar ferhyrningsins.

 • η Pegasi eða Matar (happastjarna regnsins) er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Pegasusi (birtustig 2,93). Hún er tvístirni í um 167 ljósára fjarlægð. Kerfið samanstendur af risastjörnu af gerðinni G2 sem er fjórfalt massameiri en sólin og meginraðarstjörnu af gerðinni F0. Tvíeykið snýst um sameiginlega massamiðju á rúmum 800 dögum.

 • ζ Pegasi eða Homam er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Pegasusi (birtustig 3,41). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni B8 í um 200 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er fjórum sinnum breiðari en sólin og tvöfalt heitari.

 • μ Pegasi eða Sadalbari (happastjarna þeirrar glæsilegu) er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Pegasusi (birtustig 3,51). Hún er risastjarna af gerðinni G8 í um 106 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • θ Pegasi eða Baham (búfénaðurinn) er áttunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Pegasusi (birtustig 3,52). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni A2 í um 67 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er 2,6 sinnum breiðari en sólin og 25 sinnum bjartari.

 • ι Pegasi er níunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Pegasusi (birtustig 3,84). Hún er tvístirni í um 40 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Kerfið samanstendur af tveimur meginraðarstjörnum af gerðunum F5 (Jóta Pegasi A) og G9 (Jóta Pegasi B). Jóta Pegasi A er örlítið stærri og massameiri en sólin en Jóta Pegasi B er aðeins minni en sólin. Báðar snúast umhverfis sameiginlega massamiðju á aðeins tíu dögum.

 • κ Pegasi er tólfta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Pegasusi (birtustig 4,14). Hún er þrístirni í um 115 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Meginstjörnur kerfisins, Kappa Pegasi A og B, hafa rúmlega ellefu ára umferðartíma en bjartari stjarnan, B, er einnig litrófstvístirni með sex daga umferðartíma.

 • τ Pegasi eða Salm er tuttugasta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Pegasusi (birtustig 4,58). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni A5 og er næstum 30 sinnum bjartari en sólin.

 • 51 Pegasi er stjarna í stjörnumerkinu Pegasusi (birtustig 5,49). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni G5 sem líkist sólinni okkar mjög. Þann 6. október árið 1995 tilkynntu stjörnufræðingar að fundist hefði reikistjarna á braut um 51 Pegasi. Var þetta fyrsta reikistjarnan sem fannst á braut um stjörnu sem líkist sólinni okkar. Reikistjarnan er heitur gasrisi sem lýkur einni umferð um móðurstjörnuna á rúmum fjórum dögum.

 • HD 209458 er stjarna í stjörnumerkinu Pegasusi (birtustig 7,65). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni G0 sem líkist sólinni okkar mjög: Hún er 13% massameiri, 14% breiðari og 61% bjartari en sólin. Árið 1999 fundu stjörnufræðingar reikistjörnu á sveimi um HD 209458. Þessi reikistjarna, sem er heitur gasrisi, gengur fyrir móðurstjörnuna og dregur úr birtu hennar um 2% á 3,5 daga fresti. Þótt stjarnan sjáist ekki með berum augum er auðvelt að koma auga á hana í gegnum handsjónauka eða stjörnusjónauka. Stjarnan er í 154 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

vetrarbrautaþyrping, vetrarbrautahópur, Stephans Quintet
Stephans kvintett er hópur gagnvirkra vetrarbrauta í um 300 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Pegasusi. Bláa vetrarbrautin ofarlega vinstra megin tilheyrir hópnum ekki, heldur er í sömu sjónlínu og er sjö sinnum nær okkur. Mynd: NASA/ESA

Í Pegasusi er ein glæsilegasta kúluþyrping sem sjá má á norðurhveli himins og fáeinar vetrarbrautir.

 • Messier 15 er stór og þétt kúluþyrping í um 34.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún sést með berum augum við bestu aðstæður og sem kúlulaga móðublettur í gegnum handsjónauka eða lítinn stjörnusjónauka. Hún er einstaklega glæsileg að sjá í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.

 • NGC 7331 er þyrilvetrarbraut í um 40 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Henni svipar nokuð til vetrarbrautarinnar okkar hvað stærð og uppbyggingu varðar. NGC 7331 er tiltölulega dauf og sést því best í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.

 • NGC 7742 er þyrilvetrarbraut í um 72 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er harla óvenjuleg því í henni er enginn bjálki heldur hringur utan um kjarnann. Þessi vetrarbraut er mjög dauf og sést aðeins í gegnum stóra áhugamannasjónauka.

 • Stephans kvintett er hópur fimm vetrarbrauta í um 300 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Kvintettinn er nefndur eftir franska stjörnufræðingnum Édouard Stephan sem uppgötvaði hann árið 1877. Raunar er nafnið „kvintett“ rangnefni því ein vetrarbrautanna, NGC 7320 sem sést ofarlega til vinstri á myndinni, er í raun í forgrunni, þ.e. sjö sinnum nær jörðinni en hinn raunverulegi hópur. Allar vetrarbrautirnar í hópnum sjálfum eru gagnvirkar, þ.e.a.s. að renna saman og bera þess glögg merki. Hópurinn er mjög daufur en sést í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.

Loftsteinadrífur

Pegasítar er lítilsháttar loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 7. til 13. júlí. Drífan er í hámarki í kringum 9. júlí og sjást þá um þrír hraðfleygir loftsteinar á klukkustund. Geislapunktur drífunnar er um fimm gráðum vestur af stjörnunni Alfa í Pegasusi. Líklega má rekja Pegasíta til halastjörnunnar C/1979 Y1 (Bradfield).

Stjörnukort

Stjörnukort af Pegasusi í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Pegasus the winged horse

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Pegasus_(constellation)