Messier 35

Messier 35 og NGC 2158

Lausþyrpingar í Tvíburunum

  • Messier 35, NGC 2158, lausþyrping, Tvíburarnir
    Lausþyrpingarnar Messier 35 og NGC 2158 í Tvíburunum. Mynd: N. A. Sharp (NOAO), AURA, NSF
Helstu upplýsingar
Tegund: Lausþyrping
Stjörnulengd:
06klst 01mín
Stjörnubreidd:
+24° 21′
Fjarlægð:
2.800 ljósár
Sýndarbirtustig:
+5,3
Stjörnumerki: Tvíburarnir
Önnur skráarnöfn:
NGC 2168

Frakkinn Phlippe Loys de Chéseaux John Bevis uppgötvuðu þyrpinguna hvor í sínu lagi milli 1745 og 1750. Charles Messier færði hana í skrá sína 30. ágúst 1764 og segir hana uppgötvun Bevis.

Messier 35 er í um 2.800 ljósára fjarlægð. Hún inniheldur nokkur hundruð stjörnur sem í heild eru milli 1.600 og 3.200 sólmassar. Talið er að aldur hennar sé um og yfir 100 milljónir ára.

Á himninum

Sýndarbirtustig Messier 35 er +5,3. Um 120 stjörnur í þyrpingunni eru bjartari en 13. birtustig. Hún sést með berum augum við fætur annars tvíburans þar sem ljósmengunar gætir ekki (sjá stjörnukort af Tvíburunum). Þyrpingin er álíka stór og tungl í fyllingu og með handsjónauka má sjá björtustu stjörnur hennar. Í stjörnusjónauka er best að nota litla stækkun (langt augngler) svo þyrpingin njóti sín sem best.

NGC 2158

Í stórum sjónauka við litla stækkun (vítt sjónsvið) má sjá aðra lausþyrpingu, NGC 2158, í 15 bogamínútna fjarlægð frá M35 (tunglið er 30 bogamínútur). Hana uppgötvaði William Herschel þann 16. nóvember árið 1784.

NGC 2158 er mun minni um sig á himninum (5 bogasekúndur) og er með birtustigið +8,6. Hún inniheldur mun fleiri stjörnur en M35, er um 10 sinnum eldri og meira en fimm sinnum fjarlægari, í 16.000 ljósára fjarlægð. Sökum aldurs eru bláar og hvítar stjörnur löngu búnar að gefa upp öndina og því var eitt sinn talið að NGC 2158 gæti verið kúluþyrping.

Í 50 bogamínútna fjarlægð vestur af M35 er lausþyrpingin IC 2157. Birtustig hennar er +8,4 og er álíka stór og NGC 2158 en miklu gisnari. Í löngu og víðu augngleri (lítil stækkun) má sjá allar þyrpingarnar í einu í meðalstórum sjónauka.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sverrir Guðmundsson og Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 35 og NGC 2158. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-35 (sótt: DAGSETNING).