Messier 56

Kúluþyrping í Hörpunni

  • kúluþyrping, Messier 56
    Kúluþyrpingin Messier 56 í Hörpunni. Mynd: NASA/ESA
Helstu upplýsingar
Tegund: Kúluþyrping
Stjörnulengd:
19klst 16mín 35,55sek
Stjörnubreidd:
+30° 11′ 04,2″
Fjarlægð:
32.900 ljósár
Sýndarbirtustig:
+8,3
Stjörnumerki: Harpan
Önnur skráarnöfn:
NGC 6779

Þyrpinguna uppgötvaði franski stjörnufræðingurinn Charles Messier þann 23. janúar árið 1779 þegar hann leitaði halastjarna. Hann lýsti henni sem „þoku án stjarna“ líkt og flestum kúluþyrpingum. Á tímum Móðuharðindanna tókst William Herschel fyrstur manna að greina sundur stjörnur í þyrpingunni.

Messier 56 er í um 32.900 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er 8,8 bogamínútur á breidd sem samsvarar 85 ljósárum. Þyrpingin fellur í þéttleikaflokk X. Sjónstefnuhraði hennar er 145 km á sekúndu í átt að okkur.

Björtustu stjörnur Messier 56 eru af 13. birtustigi og í litrófsflokki F. Í þyrpingunni eru nokkrar breytistjörnur, til dæmis RV Tarfsstjarna og Sefíti.

Messier 56 er hálfa vegu milli Beta Cygni (Albíreó) og Gamma Lyrae. Sýndarbirtustig hennar er +8,3 svo hún er með daufustu kúluþyrpingum Messierskrárinnar og skartar ekki sama bjarta kjarna og flestar aðrar kúluþyrpingar. Þrátt fyrir það er fremur auðvelt að greina sundur stakar stjörnur í þyrpingunni, jafnvel þótt hún sé fremur fjarlæg.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 16. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-16 (sótt: DAGSETNING).