Harpan

 • stjörnukort, stjörnumerki, Harpan
  Kort af stjörnumerkinu Hörpunni
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Lyra
Bjartasta stjarna: Vega (α Lyrae)
Bayer / Flamsteed stjörnur:
25
Stjörnur bjartari +3,00:
1
Nálægasta stjarna:
2MASS J1835+3259 (18,5 ljósár)
Messier fyrirbæri:
2
Sést frá Íslandi:

Á haustin er hún hátt á lofti á kvöldin en um og eftir áramót ber lítið á henni á kvöldin (lágt á himni í norðurátt). Harpan sést svo aftur ágætlega eftir miðnætti þegar líður fram á vorið (mars/apríl). Í Hörpumerkinu eru 26 stjörnur sem sjást með berum augum. Bjartasta stjarnan heitir Vega en hún myndar ásamt Deneb í Svaninum og Altair í Erninum hinn svonefnda Sumarþríhyrning. Harpan er pólhverft stjörnumerki sem þýðir að það sest aldrei frá Íslandi séð en er rétt fyrir ofan sjóndeildarhringinn í norðri yfir háveturinn.

Uppruni

Hörpumerkið hefur þekkst frá forni fari en áður en hljóðfærið var fundið upp var því gjarnan lýst sem hræfugli sem Herkúles elti ásamt Svaninum og Erninum. Í grískri goðafræði fann sendiboði guðanna Hermes upp hörpuna og gaf hana tónlistarguðnum Apolló en þeir voru hálfbræður. Apolló gaf syni sínum Orfeusi hörpuna þegar Orfeus var barn og kenndu listagyðjurnar honum að leika á hana. Sagt er að jafnvel náttúran sjálf hafi staldrað við til að hlýða á dáleiðandi tóna hörpuleiksins.

Þegar Evrídís kona Orfeusar dó af völdum snákabits var hún færð til Hadesar í undirheimunum. Uppfullur af sorg elti Orfeus hana í von um að fá hana aftur til jarðar í einn dag. Við komuna í undirheima lék Orfeus fyrir Hades og sannfærði hann um að sleppa konu sinni. Hades setti þó það skilyrði að Orfeus skyldi ekki líta aftur á konu sína á heimleiðinni. Í þann mund sem hann sá aftur til sólar sneri hann sér við og leit á konu sína sem þá hvarf ásjónu hans að eilífu.

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Harpan
Stjörnumerkið Harpan og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Nokkrar útgáfur eru til um dauða Orfeusar en í þeirri algengustu réðust kvenkyns fylgjendur Díónýsusar á Orfeus þar sem hann sat og söng undir tré við heimili sitt í Þrak. Þær rifu Orfeus í sundur og vörpuðu höfði hans í Hebrus-fljót þar sem það flaut syngjandi alla leið til eynnar Lesbos.

Hörpunni var líka varpað í fljótið og flaut sömuleiðis til Lesbos þar sem hún strandaði nærri hofi Apollós. Apolló sannfærði þá himnaguðinn Seif um að hljóðfærið skuli gert að stjörnumerki. Seifur samþykkti það og kom hörpu Orfeusar fyrir milli Herkúlesar og Svansins.

Stjörnur Hörpunnar

 • Vega (α Lyrae) er áberandi blá, björt og fögur svo auðvelt er að koma auga á hana á himninum. Hún er fimmta fimmta bjartasta stjarna næturhiminsins á norðurhveli á eftir Arktúrusi í Hjarðmanninum. Vega sést hvar sem fyrir ofan 51 gráðu suðlægrar breiddar sem þýðir að hún er meðal annars sýnileg frá Nýja-Sjálandi.

  Vega hefur stundum verið kölluð litla skjaldbakan líklega vegna þess að hörpur voru gjarnan gerðar úr skeljum skjaldbaka. Hún hefur ennfremur oft verið nefnd Hörpustjarnan og í Grikklandi var hún stundum nefnd Cithae. Arabar kölluðu hana Nablon en það var fönísk harpa. Egiptar þekktu Vegu sem Hrægammastjörnuna en á Íslandi var hún oft kölluð Blástjarnan. Forníslenskt nafn á Blástjörnunni er Suðurstjarnan. Nafnið Vega, sem upprunalega var Wega, er úr arabísku og merkir „örn á eftir bráð“. Hinn frægi arabíski stjörnufræðingur Al-Sufi kallaði stjörnuna Al Iwazz sem þýðir gæsin.

  Rómverjar notuðu Vegu til almanaksútreikninga en þegar hana bar við á morgunhimninum var vor á næsta leyti. Mun fyrr eða fyrir um 14.000 árum var Vega pólstjarnan á norðurpól himins og verður það aftur eftir um 12.000 ár. Þetta gerist vegna pólveltunnar.

  Vega er í um 25 ljósára fjarlægð frá sólinni og er því nálægasta stjarnan af fyrsta birtustigi. Hún er dæmigerð meginraðarstjarna af litrófsgerðinni A0. Vega er yfir 9000 gráðu heit og því miklu heitari en sólin okkar. Hún er einnig þrisvar sinnum massameiri og mun stærri að þvermáli. Ljósafl hennar er ríflega fimmtugfalt meira en sólarinnar.

  Vega kom mikið við sögu í bókinni og síðar kvikmyndinni Contact eftir Carl Sagan. Sagan valdi stjörnuna ekki af tilviljun því árið 1984 fannst gas- og rykský umhverfis hana þar sem fjarreikistjörnur gætu verið að myndast.

 • Shelíak (β Lyrae) er í suðvesturhorni Hörpunnar. Nafnið er arabískt og á við stjörnumerkið í heild, himinhörpuna sjálfa. Stjarnan er í um 900 ljósára fjarlægð og um 2000 sinnum bjartari en sólin okkar. Þegar grannt er skoðað sést að stjarnan er í raun tvístirni. Önnur stjarnan er blá og þrettán þúsund gráðu heit á meðan hin er hvít og um átta þúsund gráðu heit. Á þrettán daga fresti fer önnur stjarnan fyrir hina og breytist ljósaflið því um 30-50% á 6,5 daga fresti. Auðvelt er að greina þessar breytingar með berum augum ef stjarnan er borin saman við aðrar nálægar stjörnur.

 • Súlafat (γ Lyrae) er í suðvesturhorni merkisins og því fjærst Vegu af þeim stjörnum sem mynda útlínur Hörpunnar. Nafnið er arabískt og þýðir skjaldbaka en á þó ekki við dýrið sjálft heldur skel þess sem myndar búk hljóðfærisins. Þótt stjörnufræðingurinn Johann Bayer hafi úthlutað Súlafat γ sem kemur á eftir β í gríska stafrófinu þá er hún samt örlítið bjartari en Shelíak. Stjarnan er í 630 ljósára fjarlægð og 2100 sinnum bjartari en sólin og næstum fimm þúsund gráðum heitari. Fyrir um 150 þúsund árum hætti stjarnan að nýta vetnisforða sinn og eftir um 200 þúsund ár verður hún orðin að appelsínugulum risa. Að lokum endar stjarnan ævi sína sem hvítur dvergur.

  Auðvelt er að nota Súlafat til þess að finna hringþokuna frægu í Hörpunni (M57). Sé sjónauka beint milli Shelíaks og Súlafats liggur hringþokan nánast mitt á milli þeirra. Hringþokan er ágætur minnisvarði um örlög Súlafats því eftir tæplega 25 milljón ár mun stjarnan hafa myndað samskonar þoku. Sömu örlög bíða sólarinnar okkar eftir um 5 milljarða ára.

 • δ Lyrae er í norðausturhorni Hörpunnar. Delta ber ekkert eiginlegt nafn en með berum augum sést að um tvær stjörnur er að ræða sem kallast einfaldlega Delta-1 og Delta-2 Lyrae. Stjörnurnar mynda svokallað sýndartvístirni, þ.e. þær eru alls ótengdar og tilviljun sem ræður því að þær eru nánast í sömu sjónlínu. Delta-2 er björt risastjarna í um 900 ljósára fjarlægð en Delta-1 er dvergur í næstum 1100 ljósára fjarlægð.

 • ε Lyrae er norðaustan við Vegu og með handsjónauka má sjá að hún er í raun tvístirni með tveimur keimlíkum stjörnum mjög nærri hvorri annarri. Vestari stjarnan er kölluð Eps-1 en hin Eps-2. Með stjörnusjónauka sést að báðar þessar stjörnur hafa fylgistjörnur svo hér er um fjórstirni að ræða í um 160 ljósára fjarlægð. Frá vestri til austurs eru þær fjórar merktar frá A til D sem Eps-1 A, Eps-1 B, Eps-2 C og Eps-2 D.

 • ζ Lyrae er mjög nálægt Vegu, Epsilon Lyrae og Shelíak. Með sjónauka sést að um fallegt tvístirni er að ræða þar sem báðar stjörnurnar eru hvítar. Stjörnurnar eru í um 152 ljósára fjarlægð.

 • η Lyrae er undirmálsstjarna af gerðinni B2,5 í um 1.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Hörpunni (birtustig 4,39). Hún ber einnig nafnið Aladfar sem þýðir „klær (arnarins)“ og deilir hún því með stjörnunni Mu Lyrae.

 • μ Lyrae er undirmálsstjarna af gerðinni A3 í stjörnumerkinu Hörpunni (birtustig 5,12). Hún ber einnig nafnið Alathfar sem þýðir „klær (arnarins)“ og deilir hún því með stjörnunni Eta Lyrae.

 • R Lyrae er fyrsta breytistjarnan sem fannst í stjörnumerkinu og hlaut því stafinn R (næsta breytistjarna heitir þar af leiðandi S Lyrae). Stjarnan er einnig þekkt undir Flamsteed númeri sínu 13 Lyrae. Hún er í um 350 ljósára fjarlægð og breytir birtu sinni milli 3,9 og 5,0 á 46 daga tímabili.

Djúpfyrirbæri í Hörpunni

Í Hörpunni eru ekki mörg áhugaverð djúphiminsfyrirbæri sem skoða má með sjónauka. Þar eru þó tvö Messier fyrirbæri og eitt NGC fyrirbæri.

 • M56 er kúluþyrping sem franski stjörnufræðingurinn Charles Messier fann árið 1779. Hún liggur hálfa vegu milli Albíreó í Svaninum (β-beta Cygni) og γ (gamma) Lyrae. M56 er ein daufasta kúluþyrpingin í Messier skránni og skortir sérstaklega bjartan kjarnann sem flestar kúluþyrpingar hafa. Engu að síður er ekki mjög erfitt að greina hana, jafnvel þótt hún sé í um 32.900 ljósára fjarlægð. Þyrpingin nálgast okkur með um 145 km/sek.

  Messier sá þyrpinguna fyrst hinn 23. janúar 1779 og lýsti henni sem þoku án stjarna líkt og flestum kúluþyrpingum. William Herschel var síðan fyrstur til að sjá stakar stjörnur í henni í kringum 1784.

 • M57 er hin fræga hringþoka í Hörpunni nokkurn veginn mitt á milli Súlafat og Shelíak í 2300 ljósára fjarlægð. Franski stjörnufræðingurinn Antoine Darquier de Pellepoix uppgötvaði hana í janúar árið 1779 með aðeins þriggja tommu sjónauka og lýsti henni sem skífu á stærð við Júpíter, daufa og litlausa. Skömmu síðar sá landi hans Charles Messier þokuna og bætti henni í skrána sína sem M57. Sjónauki Messiers var ekki nógu öflugur til að draga upp sanna mynd af þokunni, líkt og sjónauki Pellepoix, og taldi hann sig sjá hóp stjarna.

  Þokan á uppruna sinn að rekja til stjörnu, sem undir lok ævi sinnar, þeytt miklu magni af gasi frá sér út í geiminn. Gasskelin sem við sjáum í dag sem hringþoku þenst út enn í dag og í miðju hennar sést smá en mjög heit stjarna (um 120 þúsund gráður), hvítur dvergur, sem aðeins er kjarninn úr upprunalegu stjörnunni. Þótt þokan líti út fyrir að vera hringlaga er talið líklegra að hún sé í laginu eins og tunna sem við horfum ofan í frá okkar sjónarhorni.

  Á næturhimninum er hringþokan af birtustigi 8,8 og þar af leiðandi of dauf til að sjást með berum augum. Með góðum handsjónauka við góðar aðstæður er hægt að koma auga á hana þótt erfitt sé, eins og höfundur þessarar greinar hefur sannreynt. Hringlögunin er augljósari þegar notast er við góðan stjörnusjónauka en þá er hægt að sjá daufa kleinuhringslögun.

  Stjarnan í miðju þokunnar er næstum 4000 sinnum daufari en daufustu stjörnur sem sjást með berum augum eða af birtustigi 15. Hún sést því ekki nema sjónaukinn hafi að minnsta kosti 30 sentímetra ljósop (12 tommur eða meira). Þá skiptir gott myrkur og góðar aðstæður líka öllu máli.

 • NGC 6791 er þétt og dauf lausþyrping, ein sú elsta og stærsta sem þekkist. Þyrpingin inniheldur þúsundir stjarna sem taldar eru vera um átta milljarða ára gamlar. Stjörnusjónauki er nauðsynlegur til að sjá hana.

Loftsteinadrífur

Loftsteinadrífan Lýrítar er kennd við Hörpuna. Lýrítar eiga rætur að rekja til halastjörnunnar Thatcher sem uppgötvaðist árið 1861. Drífan sést venjulega milli 19. og 25. apríl ár hvert en hún nær hámarki hinn 22. apríl.

Kort

Stjörnukort af Hörpunni í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.

 2. Stephen James O'Meara. 1998. Deep Sky Companions: The Messier Objects. Sky Publishing Corporation, Cambridge, Massachusetts.

 3. Vefsíða stjörnufræðingsins James Kaler um stjörnur.

 4. Vefsíða Seds.org um djúpfyrirbæri