Messier 70

Kúluþyrping í Bogmanninum

  • Messier 70, M70, Kúluþyrping, Bogmaðurinn
    Messier 70 er kúluþyrping í um 30.000 ljósára fjarlægð í stjönumerkinu Bogmanninum. Mynd: ESA/Hubble & NASA.
Helstu upplýsingar
Tegund: Kúluþyrping
Stjörnulengd:
18klst 43mín
Stjörnubreidd:
-32° 17"
Fjarlægð:
29.300 ljósár
Sýndarbirtustig:
+9,06
Stjörnumerki: Bogmaðurinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 6681

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þyrpinguna aðfaranótt 31. ágúst árið 1780 og lýsti henni sem þoku án stjarna. Árið 1784 greindi William Herschel sundur stjörnur í þyrpingunni og lýsti henni sem lítilli útgáfu af Messier 3.

Messier 70 er mjög þétt og hefur gengið í gegnum kjarnahrun einhvern tímann í sögu sinni. Hún er mjög þétt, næstum 70 ljósár að þvermáli og fjarlægist okkur á um 200 km hraða á sekúndu. Þyrpingin er í um 29.300 ljósára fjarlægð. Hún er álíka björt og stór og nágranninn Messier 69 en báðar eru fremur nálægt miðju Vetrarbrautarinnar og finna því vel fyrir sterkum flóðkröftum.

Árið 1995 voru þeir Alan Hale og Thomas Bopp að skoða Messier 70 þegar þeir uppgötvuðu halastjörnuna Hale-Bopp.

Myndin af Messier 70 var tekin með Wide Field Camera 3 á Hubblessjónaukanum. Hún var mynd vikunnar á Stjörnufræðivefnum 9. apríl 2012.

Á himninum

Messier 70 er of sunnarlega á himinhvolfinu til að sjást frá Íslandi. Stjörnuáhugafólk á suðlægum breiddargráðum getur notað stjörnukort af Bogmanninum til að finna þyrpinguna. Hún sést sem daufur þokublettur í gegnum handsjónauka en stærri stjörnusjónauka þarf til að greina sundur stjörnur í henni.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 70, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Messier_70

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 70. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-70 (sótt: DAGSETNING).