Messier 79

Kúluþyrping í Héranum

  • Messier 79, kúluþyrping, Hérinn
    Kúluþyrpingin Messier 79 í Héranum. Mynd: WIkimedia Commons
Helstu upplýsingar
Tegund: Kúluþyrping
Stjörnulengd:
05klst 24mín 10,59s
Stjörnubreidd:
-24° 31′ 27,3"
Fjarlægð:
41.000 ljósár
Sýndarbirtustig:
+8,56
Stjörnumerki: Hérinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 1904

Franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain uppgötvaði þyrpinguna þann 26. október árið 1780. Hann tilkynnti landa sínum og vini, Charles Messier, um uppgötvunina og færði hann fyrirbærið í skrá sína þann 17. desember sama ár. William Herschel greindi fyrstur manna stjörnur í þyrpingunni árið 1784.

Árið 2003 leiddu menn líkum að því að Messier 79 sé ef til vill ekki upprunalegur hluti af Vetrarbrautinni okkar heldur Stórahunds-dvergvetrarbrautinni. Þrjár aðrar kúluþyrpingar eru taldar hafa borist til Vetrarbrautarinnar með Stórahundsdvergnum: NGC 1581, NGC 2928 og NGC 2808.

Messier 79 er í um 40.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni en 60.000 ljósár frá miðju Vetrarbrautarinnar. Hún er um 118 ljósár í þvermál. Þyrpingin fjarlægist okkur á um 200 km hraða á sekúndu. Í henni hafa aðeins fundist sjö breytistjörnur.

Ljósmælingar á þyrpingunni gera mönnum kleift að draga upp H-R línurit þyrpingarinnar. Það sýnir að flestar stjörnurnar í henni eru rauðir risar.

Á himninum

Messier 79 er of sunnarlega á himinhvolfinu til að hægt sé að sjá hana frá Íslandi. Fara þarf á mun suðlægari slóðir til að sjá þyrpinguna vel og styðjast við stjörnukort af Héranum til að finna hana.

Í gegnum handsjónauka sést þyrpingin sem daufur kúlulaga þokublettur. Með 8 tommu sjónauka er hægt að greina fjölda stjarna í þyrpingunni.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 79, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Messier_79

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 79. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-79 (sótt: DAGSETNING).