Hérinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Hérinn
    Kort af stjörnumerkinu Héranum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Lepus
Bjartasta stjarna: α Leporis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
20
Stjörnur bjartari +3,00:
2
Nálægasta stjarna:
Gliese 229
(19 ljósár)
Messier fyrirbæri:
1
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Að hluta

Uppruni

Að sögn Eratosþenesar kom Hermes, sendiboði guðanna, héranum fyrir á himninum vegna þess hve hann var snar í snúningum. Merkið er beint fyrir neðan veiðimanninn Óríon þar sem hérinn flýr undan honum og veiðihundum hans.

Önnur saga af héranum tengist eyjunni Leros. Á Leros voru engir hérar þar til maður nokkur kom þangað með einn ungafullann héra. Fólkið hreifst af héranum og sífellt fleiri vildu eignast slíka. Ekki leið á löngu uns eyjan varð uppfull af þeim. Hérarnir eyðilögðu beitilönd og uppskrerur svo íbúarnir sveltu. Með sameiginlegu átaki tókst þeim að fæla hérana af eyjunni og komu síðan fyrir mynd dýrinu á himninum til að minna sig á að stundum fær maður of mikið af hinu góða.

Stjörnur

  • α Leporis eða Arneb (hérinn) er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Héranum (birtustig 2,6). Hún er reginrisastjarna af gerðinni F0 sem er um 14 sinnum massameiri en sólin, 129 sinnum breiðari og 12.000 sinnum bjartari. Alfa Leporis er í um 2.200 ljósára fjarlægð frá jörðinni og mun enda ævi sína sem sprengistjarna.

  • β Leporis eða Nihal (nafnið merkið „að svala þorstanum“) er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Héranum (birtustig 2,8). Hún er risastjarna af gerðinni G5 sem er rúmlega 3 sinnum massameiri en sólin, 16 sinnum breiðari og 171 sinnum bjartari. Samkvæmt hliðrunarmælingum er Beta Leporis í um 160 ljósára fjarlægð frá sólinni.

  • ε Leporis er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Héranum (birtustig 3,16). Hún er rauð risastjarna af gerðinni K4 sem er tæplega tvisvar sinnum massameiri en sólin, 40 sinnum breiðari og 372 sinnum bjartari. Samkvæmt hliðrunarmælingum er Epsilon Lepoirs í um 213 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • μ Leporis er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Héranum (birtustig 3,26). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni B9 sem hefur klárað vetnisforða sinn og er að þróast yfir í risastjörnu. Hún er rúmlega þrisvar sinnum breiðari en sólin og töluvert heitari eða rúmlega 12.000°C. Samkvæmt hliðrunarmælingum er Mu Leporis í um 186 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • ζ Leporis er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Héranum (birtustig 3,5). Hún er af gerðinni A2 og er 46% massameiri, 50% breiðari og 14 sinnum bjartari en sólin okkar. Stjarnan er auk þess nokkru heitari en sólin eða í kringum 9.500°C heit. Fundist hafa merki um rykskífu eða nokkurs konar smástirnabelti í kringum stjörnuna. Zeta Leporis er í 70 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • γ Leporis er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Héranum (birtustig 3,6). Hún er meginraðarstjarna af F6 sem er 23% massameiri, 33% breiðari og 2,6 sinnum bjartari en sólin.

  • Gliese 229 (GJ 229) er rauður dvergur í um 19 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 8,14). Hún er 59% af massa og 69% af breidd sólar. Árið 1994 sást förunautur á braut um stjörnuna en tilvist hans var staðfest ári síðar. Þessi förunautur, Gliese 229B, er brúnn dvergur, 20 til 50 sinnum massameiri en Júpíter, of stór til að teljast reikistjarna en of lítill til að teljast stjarna.

  • R Leporis eða Djúprauðastjarna Hinds (Hinds Crimson Star) er sveiflustjarna af Mírugerð í stjörnumerkinu Héranum. Hún er kolefnisstjarna sem hefur djúprauðan lit (er með rauðustu stjörnum himins), nefnd eftir breska stjörnufræðingnum John Russell Hind sem uppgötvaði hana árið 1845. Birtustig R Leporis sveiflast milli 5,5 og 11,7 á 427 dögum. Hún er í um 1.300 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

Í Héranum eru nokkrar vetrarbrautir úr NGC skránni, örfáar hringþokur og eitt Messierfyrirbæri.

  • Messier 79 er kúluþyrping í um 41.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er of sunnarlega til að sjást frá Íslandi en sést vel í gegnum áhugamannasjónauka.

  • NGC 1832 er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 50 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er aðeins hálfa gráðu norður af Mu Leporis og sést best í meðalstórum og stórum stjörnusjónaukum í góðu myrkri.

  • NGC 1784 er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 100 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún sést sem þokublettur í meðalstórum og stórum áhugamannasjónaukum.

  • IC 418 er lítil hringþoka í um 2.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Fremur krefjandi er að koma auga á hana í gegnum litla sjónauka.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Hérinn
Stjörnumerkið Hérinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Héranum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Lepus the hare

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Lepus_(constellation)

  3. What's Up Lepus

  4. Small Wonders: Lepus