Centaurus A

  • Centaurus A
    Vetrarbrautin furðulega Centaurus A sést á þessari mynd sem tekin var með Wide Field Imager myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Heildarlýsingartíminn nam 50 klukkustundum svo hér er að öllum líkindum um að ræða dýpstu mynd sem til er af þessu skrítna en glæsilega fyrirbæri. Mynd: ESO
Helstu upplýsingar
Tegund: Afbrigðileg sporvöluvetrarbraut
Stjörnulengd:
13klst 25mín 27,6s
Stjörnubreidd:
-43° 01′ 09"
Fjarlægð:
12 milljón ljósár
Sýndarbirtustig:
+6,84
Stjörnumerki: Mannfákurinn
Önnur skráarnöfn:
Arp 153

Skoski stjörnufræðingurinn James Dunlop skrásetti fyrstur manna þessa vetrarbraut þann 4. ágúst árið 1826 þegar hann var við stjörnuathuganir við Parramatta stjörnustöðina í Ástralíu.

Centaurus A er stór útvarpsspörvöluþoka — vetrarbraut sem gefur frá sér sterka útvarpsgeislun — sú bjartasta og nálægasta sinnar tegundar á himninum. Vetrarbrautin hefur þess vegna verið viðfangsefni fjölmargra ólíkra sjónauka. Í björtum kjarna hennar er risasvarthol, 100 milljón sinnum massameira en sólin. Frá því berast stórir strókar sem skaga langt út úr vetrarbrautinni.

Á myndinni hér að ofan sjást tveir hópar rauðra þráða teygja sig frá vetrarbrautinni upp í efra, vinstra horn myndarinnar og eru nokkurn veginn í línu við stóra stróka sem eru áberandi á útvarpsmyndum. Báðir þræðirnir eru stjörnumyndunarský sem geyma heitar, ungar stjörnur. Fyrir ofan rykslæðuna vinstra megin sjáum við innri þræði sem eru í kringum 30.000 ljósár frá kjarnanum. Lengra í burtu, í um 65.000 ljósára fjarlægð frá kjarnanum, við efra vinstra horn myndarinnar, eru ytri þræðirnir sjáanlegir. Í neðra hægra horninu eru svo merki um enn daufari gagnstæðan strók.

Breið, skellótt slæða úr dökku efni, sem hylur miðbik vetrarbrautarinnar, setur sterkan svip á Centaurus A og gerir hana ólíka flestum öðrum sporvöluþokum sem eru fremur sviplausar og samfelldar.

Í dökku slæðunni er feikilegt magn gass, ryks og ungra stjarna. Við efri og neðri brúnir slæðunnar sjást bjartar, ungar stjörnuþyrpingar og rauður bjarmi stjörnumyndunarskýja úr vetnisgasi, auk dökkra rykskýja sem varpa skuggamyndum sínum á stirndan bakgrunninn. Þessi fyrirbæri, sem og öflug útvarpsútgeislun, eru sterkar vísbendingar um að Centaurus A sé afleiðing samruna tveggja vetrarbrauta. Líklega er rykslæðan leifar þyrilþoku sem þyngdarkraftur stóru sporvölunnar tætir sundur.

Centaurus A er í miðju annars af tveimur undirhópum í Centaurus A/M83 vetrarbrautahópnum. Messier 83 er í miðju hins undirhópsins.

Á himinhvolfinu er Centaurus A um það bil fjórar gráður norður af Omega Centauri kúluþyrpingunni. Við einstaklega góðar aðstæður er hægt að koma auga á vetrarbrautina með berum augum, eins og höfundur þessarar greinar hefur sannreynt. Centaurus A er stórfengleg að sjá í gegnum góða stjörnusjónauka.

Myndasafn

Centaurus A

Stórkostleg sýn Hubbles á Centaurus A

Centaurus A, einnig þekkt sem NGC 5128, er fræg fyrir stórbrotnar dökkar og rykugar slæður sem liggja um hana. Athuganir Hubbles eru þær nákvæmustu sem gerðar hafa verið hingað til á vetrarbrautinni en notast var við besta tæki Hubbles, Wide Field Camera 3 (WFC3). Afrakstur athugana Hubbles hefur verið hnoðað saman í eina mynd sem spannar nokkuð stórt bylgjulengdarbil. Myndin afhjúpar smáatriði í rykuga hluta hennar sem hafa ekki sést áður. Ásamt því að sýna einkenni sem eru ljós á sýnilega hluta litrófsins, þá sýnir þessi samsetta mynd útfjólublátt ljós frá ungum stjörnum og nær innrautt ljós, sem sýnir okkur smáatriði sem annars eru hulin í ryki. Sjá frétt á Stjörnufræðivefnum.

Mynd: NASA/ESA

Centaurus A, vetrarbraut, stjörnuþoka, útvarpssporvala

ALMA beinir sjónum sínum að Centaurus A

Þessi mynd samanstendur af mælingum ALMA og nær-innrauðum mælingum annars sjónauka af risaútvarpssporvölunni Centaurus A. Mælingar ALMA eru sýndar í grænum, gulum og appelsínugulum litum en þær sýna staðsetningu og hreyfingu gass í vetrarbrautinni. Þetta eru skörpustu og nákvæmustu mælingar af þessu tagi sem gerðar hafa verið.

ALMA var stillt til að greina merki geislunar með 1,3 millímetra bylgjulengd sem berst frá kolmónoxíðgasi. Snúningur gassins í vetrarbrautinni veldur örlítilli færslu á bylgjulengdinni vegna Dopplerhrifa og sést hún sem litabreyting á myndinni. Grænu gasskýin stefna til okkar en appelsínugulari skýin fjarlægast okkur. Sjá má að gasið vinstra megin við miðju nálgast okkur en hægra megin stefnir það frá okkur. Þannig sést snúningsstefna gassins um vetrarbrautina. Sjá nánar eso1222.

Mynd: ALMA (ESO/NAOJ/NRAO); ESO/Y. Beletsky

Centaurus A, vetrarbraut, stjörnuþoka, útvarpssporvala

Centaurus A í sýnilegu, hálfsmillímetra og röntgengeislun

Þessi samsetta mynd sýnir Centaurus A í sýnilegu ljósi (tekin með WFI á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum), hálfsmillímetera geislun (APEX) og röntgengeislun (Chandra röntgengeimsjónaukanum). Myndin sýnir stróka og sepa sem eiga rætur að rekja til svartholsins í miðju Centaurus A.

Mynd: ESO/WFI (Sýnilegt); MPIfR/ESO/APEX/A.Weiss et al. (Hálfsmillímetra); NASA/CXC/CfA/R.Kraft et al. (Röntgen)

Heimildir

  1. Stórkostleg sýn Hubbles á vetrarbrautina Centaurus A

  2. ALMA beinir sjónum sínum að Centaurus A

  3. Dýpri mynd af Centaurus A

  4. http://en.wikipedia.org/wiki/NGC_5128

  5. Courtney Seligman - NGC 5128

  6. SIMBAD Astronomical Database - NGC 5128