Mannfákurinn

 • stjörnukort, stjörnumerki, Mannfákurinn
  Kort af stjörnumerkinu Mannfáknum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Centaurus
Bjartasta stjarna: α Centauri
Bayer / Flamsteed stjörnur:
69
Stjörnur bjartari +3,00:
10
Nálægasta stjarna:
Proxima Centauri
(4,22 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Alfa Kentárítar
Ómíkron Kentárítar
Þeta Kentárítar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Í grískri goðafræði voru Kentárar eða Mannfákar skepnur sem voru menn niður að nafla en hestar að öðru leyti. Þeir voru ósiðlátir og ofbeldishneigðir, einkum ef áfengi var við hönd. Fremstur mannfákanna var læknirinn og kennarinn Keiron. Keiron átti aðra foreldra en hinir mannfákarnir. Hann var sonur Krónosar og sjávargyðjunnar Filýru. Þegar Rhea, kona Krónosar, kom upp um framhjáhaldið, breytti Krónos sér í hest og hljóp burt á meðan Filýra sat eftir og bar blending undir belti.

Keiron varð kennari góður og kenndi mörgum ungum prinsum í helli sínum á Pelíonfjalli. Svo dýrkaður og dáður var hann, að hann var gerður að fósturföður Jasonar og Akkílesar. Besti nemandi hans var Asklepíus, sonur Apollós, sem varð fremstur allra lækna og er minnst með stjörnumerkinu Naðurvalda.

Slysaleg örlög Keirons má rekja til heimsóknar Heraklesar til kentársins Fólosar hins gestrisna og vitra. Fólos bauð Heraklesi upp á mat og guðaveigar sem kentárarnir áttu. Þegar þeir komust á snoðir um það, reiddust þeir og þustu til Fólosar, vopnaðir steinum og trjám. Herakles náði að halda aftur af þeim með örvum sínum og földu þeir sig á bak við hinn saklaus Keiron. Svo fór að ein af örvum Heraklesar stakkst fyrir slysni í hné Keirons. Miður sín dró Herakles örina úr Keironi og baðst innilegrar afsökunar en vissi sem var að Keiron var dauðadæmdur. Jafnvel besta lyf Keirons ynni ekki á eitrinu úr blóði Vatnaskrímslisins sem Herakles hafði dýft örvum sínum í.

Keiron leið vítiskvalir en gat ekki dáið enda ódauðlegur sonur Krónosar. Í stað þess að láta hann kveljast endalaust samþykkti Seifur að Keiron skyldi framselja ódauðleika sinn til Prómeþeifs. Dó þá loks Keiron og var svo komið fyrir meðal stjarnanna. Þar er hann sýndur um það bil að fórna Héranum á Altarinu.

Stjörnur

Alfa Centauri, Beta Centauri, Proxima Centauri, Mannfákurinn, stjörnur
Stjörnurnar Alfa (vinstri) og Beta (hægri) Centauri í Mannfáknum. Rauði hringurinn er utan um Proxima Centauri. Mynd: Wikimedia Commons

Í Mannfáknum eru margar bjartar stjörnur sem og nálægustu fastastjörnurnar við sólkerfið okkar.

 • α Centauri eða Rígil Kentár er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Mannfáknum (birtustig –0,01) og fjórða bjartasta stjarnan á næturhimninum. Alfa Centauri er nálægasta fastastjarnan við sólkerfið okkar í aðeins 4,36 ljósára fjarlægð. Hún er þrístirni en bjartari förunautur hennar, Alfa Centauri B, er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu (birtustig 1,35). Þriðja stjarnan í kerfinu er rauði dvergurinn Proxima Centauri.

  Alfa Centauri A er meginraðarstjarna af gerðinni G2, eins og sólin. Hún er þó ögn stærri en sólin, um það bil 10% massameiri, 23% stærri og 52% bjartari. Alfa Centauri B er ögn smærri. Hún flokkast sem meginraðarstjarna af gerðinni K1, svo hún er nokkuð appelsíngulari en Alfa Centauri A. Alfa Centauri B er um 90% af massa sólar og 87% af breidd hennar en líka helmingi daufari.

 • β Centauri er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Mannfáknum (birtustig 0,61) og tíunda bjartasta stjarna næturhiminsins. Hún er litrófstvístirni, kerfi tveggja áþekkra stjarna risastjarna af B1 gerð sem eru rúmlega tíu sinnum massameiri en sólin og yfir 40.000 sinnum bjartari. Bilið milli stjarnanna er talið aðeins fjórar stjarnfræðieiningar og umferðartíminn 357 dagar. Beta Centauri er einnig kölluð Hadar sem er arabíska fyrir jarðveg og Agena sem er latneska orðið fyrir hné. Samkvæmt hliðrunarmælingum evrópska gervitunglsins Hipparkosar er Beta Centauri í um 350 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • θ Centauri er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Mannfáknum (birtustig 2,1). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K0 sem er rúmlega tíu sinnum breiðari en sólin og 60 sinnum bjartari. Samkvæmt hliðrunarmælingum er hún í um 59 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þeta Centauri er einnig kölluð Menket sem er arabíska fyrir öxl.

 • γ Centauri er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Mannfáknum (birtustig 2,2). Hún er tvístirni í um 130 ljósára fjarlægð frá jörðinni, kerfi tveggja undirmálsstjarnastjarna af A1 sem eru að þróast yfir í risastjörnur. Stjörnurnar eru sennilega álíka massamiklar eða tæplega þrefalt massameiri en sólin. Þær snúast um sameiginlega massamiðju á um 85 árum.

 • ε Centauri er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Mannfáknum (birtustig 2,3). Hún er risastjarna af gerðinni B1 í um 430 ljósára fjarlægð frá jörðinni, rúmlega 11 sinnum massameiri en sólin og yfir 15.000 sinnum bjartari. Yfirborðshitastig hennar er um 24.000°C.

 • η Centauri er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Mannfáknum (birtustig 2,33). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni B1,5 í um 306 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er 12 sinnum massameiri en sólin, 5-6 sinnum breiðari en 8.700 sinnum bjartari og rúmlega 25.000°C heit.

 • ζ Centauri er áttunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Mannfáknum (birtustig 2,55). Hún er litrófstvístirni í um 382 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stærri stjarnan er undirmálsstjarna af gerðinni B2,5 sem er um 8 sinnum massameiri en sólin og næstum 6 sinnum breiðari.

 • δ Centauri er níunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Mannfáknum (birtustig 2,6). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni B2 sem þýðir að hún er að breytast í risastjörnu. Stjarnan er næstum 6 sinnum breiðari og rúmlega 8 sinnum massameiri en sólin og 5.000 sinnum bjartari. Hún er auk þess rúmlega 22.000°C heit. Samkvæmt hliðrunarmælingum er delta Centauri í um 410 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • ι Centauri er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Mannfáknum (birtustig 2,75). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni A2 sem er rúmlega tvisvar sinnum massameiri en sólin og 26 sinnum bjartari. Samkvæmt hliðrunarmælingum er jóta Centauri í 59 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • Proxima Centauri er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Mannfáknum (birtustig 11,5). Hún er nálægasta fastastjarnan við jörðina í aðeins 4,22 ljósára fjarlægð en er þrátt fyrir það svo dauf, að hún sést ekki nema með sjónaukum. Proxima Centauri er rauður dvergur; meginraðarstjarna af gerðinni M5,5, sem er 12,3% af massa sólar (eða 129 Júpítermassar) og 14% af breidd hennar. Stjarnan geislar aðeins frá sér 0,0017% af birtu sólar, mestmegnis innrauðu ljósi. Nafnið Proxima merkir „nálægust“ eða „næst“.

Djúpfyrirbæri

Í Mannfáknum er stærsta og bjartasta kúluþyrping himins og nokkrar bjartar og áberandi vetrarbrautir.

 • Omega Centauri er stærsta og bjartasta kúluþyrpingin við vetrarbrautina okkar. Hún er í um 17.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni og um 150 ljósár í þvermál. Þyrpingin sést með berum augum sem skýrir hvers vegna hún var skráð sem „stjarnan omega“. Omega Centauri er stórglæsileg að sjá í gegnum sjónauka en hún sést því miður ekki frá Íslandi.

 • Centaurus A er afbrigðileg sporvöluvetrarbraut í um 12 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er björt útvarpslind sem rekja má til þess að í kjarna hennar er virkt risasvarthol. Á himinhvolfinu er Centaurus A um það bil fjórar gráður norður af Omega Centauri. Við einstaklega góðar aðstæður er hægt að koma auga á vetrarbrautina með berum augum en hún er stórfengleg að sjá í gegnum góða stjörnusjónauka.

 • NGC 3918 er björt hringþoka í um 4.900 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er stundum kölluð Bláa hringþokan.

 • NGC 4603 er þyrilvetrarbraut í um 108 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • NGC 4622 er þyrilvetrarbraut í um 111 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún hefur óvenjulega þyrilarma sem virðast snúast í öfuga átt miðað við það sem búast mætti við, eins og ef vetrarbrautin væri að afvinda sig.

 • NGC 4945 er þyrilvetrarbraut í um 12 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Loftsteinadrífur

Alfa Kentárítar er minniháttar loftsteinadrífa sem sést milli 2.-25. febrúar. Drífan er í hámarki í kringum 8. febrúar en þá sjást í kringum þrír tiltölulega bjartir loftsteinar á klukkustund.

Ómíkron Kentárítar er minniháttar loftsteinadrífa sem sést seint í janúar og fram í lok febrúar. Drífan er sú veikasta af þeim þremur sem verða í Mannfáknum. Drífan nær hámarki í kringum 14. febrúar og sjást þá í kringum tveir loftsteinar á klukkustund.

Þeta Kentárítar er minniháttar loftsteinadrífa sem sést frá 23. janúar til 12. mars. Drífan nær hámarki í kringum 14. febrúar og sjást þá í kringum fjórir loftsteinar á klukkustund.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Mannfákurinn
Stjörnumerkið Mannfákurinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Mannfáknum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Centaurus the centaur

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Centaurus

 3. What's Up Centaurus

 4. http://meteorshowersonline.com/showers/alpha-beta_centaurids.html

 5. http://www.imo.net/node/924