Hvað get ég skoðað með Galíleósjónaukanum?

  • tunglið, Galíleósjónaukinn
    Tunglið í gegnum Galíleósjónaukann. Mynd: Andreas O. Jaunsen

Þegar þú hefur sett saman Galileósjónaukann þá eru hér nokkrar ábendingar sem ættu að gera stjörnuskoðunina ánægjulegri:

  • Prófaðu sjónaukann í dagsbirtu – Besta leiðin til að læra á sjónaukann er að nota hann í dagsbirtu. Í myrkri er erfitt að sjá hvað maður er að gera. Þess vegna er skynsamlegt að prófa sjónaukann innan- eða utandyra þegar bjart er. 


  • Æfðu þig að fókusstilla – Mjög einfalt er að stilla fókusinn á sjónaukanum. Það er gert með því að toga augnglerjapípuna í og út úr sjónpípunni. Passaðu þig á að toga rólega í pípuna. 

Ef það sem þú ert að skoða er of nálægt, t.d. hlutur í skólastofunni, er ekki víst að sjónaukinn nái fókus. Hann er hannaður til að fjarlæg fyrirbæri eins og reikistjörnur og tunglið. Til þess að prófa þig áfram skaltu miða á einhvern hlut (t.d. hús eða ljósastaur) sem er langt í burtu með miðaranum efst á sjónpípunni.

 Í stjörnuskoðun skaltu stilla fókusinn mjúklega. Ef þú hreyfir hann of hratt til er líklegt að fókusinn missi marks. Sjónaukinn er rétt fókusstilltur þegar sjónaukinn sýnir skarpa mynd af tunglinu og stjörnurnar eru litlir og skarpir ljóspunktar. 


  • Skipulegðu stjörnuskoðunina – Gott er að ákveða áður en maður fer út hvaða fyrirbæri ætlunin er að skoða. Ef tunglið er fullt eða því sem næst er erfitt að skoða dauf djúpfyrirbæri og það er þá einnig of bjart fyrir sjónaukann. Best er að tunglið sé vaxandi (sést á kvöldin) eða minnkandi (sést á morgnana). 

Á Stjörnufræðivefnum má nálgast tvær tegundir af stjörnukortum til útprentunar sem sýna himininn í hverjum mánuði á veturna. Hægt er að sjá hvaða daga tunglið er fullt, nýtt o.s.frv. á Stjörnukorti mánaðarins.

    Við viljum benda á greinina Að fara með hóp í stjörnuskoðun með ýmsum gagnlegum ábendingum fyrir þá sem eru að skipuleggja stjörnuskoðun.

  • Notaðu minnstu stækkun – Venjuleg stækkun með Galileósjónaukanum er 25-föld en hægt er að tvöfalda hana með Barlow-linsunni sem fylgdi sjónaukanum. Þegar stækkunin er lítil er sjónsviðið stærra og þá er auðveldara er að finna fyrirbærin. Ef þú tvöfaldar stækkunina minnkar þú líka sjónsviðið um helming. Mundu að nota alltaf minnstu stækkun fyrst, þegar þú leitar að fyrirbærinu. Þegar fyrirbærið er fundið er óhætt að tvöfalda stækkunina, ef þú vilt. Ef þú rekur þig óvart í sjónaukann getur verið að þú þurfir að finna fyrirbærið aftur með minnstu stækkun.


  • Vertu þolinmóð(ur) – Það tekur oftast nokkrar mínútur að finna dauf og fjarlæg fyrirbæri sem eru auk þess oft agnarsmá á himinhvolfinu. Auðveldast og skemmtilegast er að skoða björt og áberandi fyrirbæri eins og tunglið og Júpíter. Stjörnukortin hér á Stjörnufræðivefnum eru mjög góð hjálpargögn og það sama má segja um stjörnufræðiforrit eins og Stellarium og AstroViewer.

Hvað get ég skoðað með Galíleósjónaukanum?

Þú getur skoðað fjölmörg falleg og fróðleg fyrirbæri með Galíleósjónaukanum. Hæst ber að nefna gígótt yfirborð tunglsins, kvartilaskipti Venusar, Galíleótungl Júpíters og jafnvel hringa Satúrnusar. Utan sólkerfisins er Sjöstirnið í Nautinu, Sverðþokan í Óríon og vetrarbrautin Andrómeda öll í seilingarfjarlægð.

Í hverjum mánuði yfir veturinn útbúm við kort af himinhvelfingunni sem sýna stöðu reikistjarnanna á himninum og hvaða stjörnumerki eru á lofti. Þau er að finna undir Stjörnuskoðun í kvöld.

Tunglið

tunglið, Galíleósjónaukinn
Tunglið séð í gegnum Galíleósjónaukann. Með sjónauka sjást gígarnir á tunglinu. Mynd: Andreas O. Jaunsen.

Tunglið er eitt skemmtilegasta fyrirbærið sem hægt er að skoða með sjónauka á næturhimninum. Það er stórt og bjart og auðfundið. Á því er fjölbreytt landslag gíga, hafa og fjalla sem sjást vel með Galíleósjónaukanum.

Margir halda að best sé að skoða tunglið þegar það er fullt. Það er ekki rétt. Hvers vegna? Prófaðu að finna það út sjálf(ur) með því að skoða tunglið handsjónauka eða stjörnusjónauka þegar það er hálft og svo aftur þegar það er fullt.

Kvartilaskipti

Ef þú fylgist með tunglinu á himninum yfir einn mánuð sérðu það vaxa og dvína. Þessar breytingar nefnast kvartilaskipti og er af sama stofni og enska orðið quarter því tunglmánuðinum frá nýju tungli fram að næsta nýja tungli er skipt í fjóra hluta. Fyrsta kvartil er tímabilið frá því að tunglið er nýtt þangað til það er hálft vaxandi, annað kvartil er frá hálfu vaxandi tungli að fullu tungli, þriðja kvartil er frá fullu tungli að hálfu minnkandi tungli og fjórða kvartil er tímabilið frá hálfu minnkandi tungli þangað til tunglið verður aftur nýtt.

Sumir halda að tunglið vaxi og dvíni vegna þess að skuggi jarðar falli á tunglið. Það er ekki rétt. Tunglið vex og dvínar vegna þess að það hringsólar um jörðina. Sólin lýsir upp þann helming tunglsins sem snýr að sólu. Á upplýsta hlutanum er því dagur en á myrkvaða hlutanum er nótt. Þetta er alveg eins og á jörðinni þar sem sólin skín á daghliðina og ekki á næturhliðina. Stundum er dagur á allri hlið tunglsins sem snýr að okkur (fullt tungl) en yfirleitt sjáum við aðeins hluta af daghliðinni sem sólin skín á.

Skuggaskilin

Heppilegasti tíminn til að skoða tunglið er þegar það er vaxandi (á kvöldin) eða minnkandi (á morgnana). Þegar svo ber undir eru skuggaskilin — mörk dags og nætur — það svæði sem skemmtilegast er að skoða. Meðfram skuggaskilunum er auðveldast að greina smáatriði í landslaginu. Fjöll, gígar og dalir verða sérstaklega tilkomumikil vegna þess að sólin er lágt á lofti á þessum stað á tunglinu og varpar þess vegna löngum skuggum. Lengra frá skuggaskilunum er erfiðara að sjá smáatriði því skuggar eru fáir og dagsbirtan afmáir smáatriði. Við þekkjum þetta sjálf hér á jörðinni. Á morgnana og síðdegis er sólin lágt á lofti og við vörpum löngum skugga. En á hádegi er sólin hátt á lofti og skugginn okkar miklu styttri.

Gígar, höf og efnisskvettur

Gígar einkenna yfirborð tunglsins sem er sundurskorið eftir óteljandi loftsteinaárekstra í gegnum tíðina. Sumir eru risavaxnir, aðrir miklu smærri. Stærsti gígurinn á tunglinu er við suðurpólinn og nefnist Suðurpóls Aitken. Hann er mun stærri en Ísland og dýpri en dýpsti hafsbotn á jörðinni. Aðrir gígar eru talsvert minni, sumir á stærð við Vatnajökul, aðrir á stærð við Reykjavík og ótal margir minni gígar því það er enginn lofthjúpur sem dregur úr loftsteinaregninu.

Annað sem einkennir líka yfirborð tunglsins eru dökku svæðin sem nefnd eru höf (til dæmis augun og munnurinn á karlinum í tunglinu). Höfin eru dökkar hraunbreiður ofan í risastórum loftsteinadældum.

Gígarnir á tunglinu urðu til þegar loftsteinar rákust á yfirborðið. Á tunglinu eru nánast engin veðrunarferli – enginn lofthjúpur, enginn vindur, engin rigning, engin eldgos, enginn sjór – til að eyða gígunum. Gígarnir geta því enst í milljarða ára.

Í gegnum sjónauka sést að frá sumum gígum geisla ljósleitar rákir. Þetta eru efnisskvettur. Efnisskvetturnar urðu til úr því efni sem skvettist burt þegar gígurinn myndaðist. Þessar skvettur dofna með tímanum. Bjartar efnisskvettur benda því til þess að gígur sé tiltölulega ungur. Skvetturnar sjást best þegar tunglið er fullt.

Venus

Sjá nánar: Að skoða Venus

Venus er alltaf bjartari en björtustu stjörnur himinsins þegar hún sést á himninum. Aðeins sólin og tunglið eru bjartari. Raunar er Venus svo björt að hægt er að koma auga á hana um hábjartan dag, ef þú veist nokkurn veginn á hvaða svæði þú átt að horfa til þess að finna hana.

Stundum er Venus morgunstjarna og stundum kvöldstjarna. Hvers vegna? Venus er nær sólu en jörðin. Þegar Venus er austan megin við sólina – vinstra megin við sólu séð á himninum – er hún áberandi í vestri yfir sjóndeildarhringnum skömmu eftir að sólin sest. Þá er sagt að Venus sé kvöldstjarna. Ef Venus er vestan megin við sólina – hægra megin við sólu séð á himninum – skín hún jafnan skært skömmu fyrir sólarupprás.

Venus er með kvartilaskipti eins og tunglið sem hægt er að skoða í Galíleósjónaukanum.

Júpíter

Sjá nánar: Að skoða Júpíter

Júpíter hefur mest upp á að bjóða fyrir áhugastjörnuskoðara af reikistjörnunum. Með hefðbundnum handsjónauka sjást Galíleótunglin fjögur og ekki þarf nema 25-50x stækkun eins og Galileósjónaukinn býður upp á til að sjá eitt eða tvö skýjabelti.

Satúrnus

Sjá nánar: Satúrnus

Satúrnus er af mörgum álitin fallegasta reikistjarnan. Hringarnir sjást í litlum sjónaukum með 25-50x stækkun. Stærri sjónauka og meiri stækkun þarf þó til til að skynja „dýptina“ í þeim. Sé sæmilega stór sjónauki notaður, virkar Satúrnus þrívíðari en nokkur önnur reikistjarna.

Utan sólkerfisins

Sjöstirnið

Sjöstirnið í Nautinu er sérstaklega falleg stjörnuþyrping sem nýtur sín vel í Galíleósjónaukanum. Með honum sérðu þyrpinguna í heild sinni, ef þú notar minnstu stækkun. Sjöstirnið sést vel með berum augum og lítur út eins og lítil innkaupakerra. Sumir rugla því meira að segja saman við Karlsvagninn eða Litlabjörn. Hér er kort sem hjálpar þér að finna Sjöstirnið.

Sverðþokan í Óríon

Sverðþokan í Óríon er meðal fegurstu fyrirbæra sem stjörnuáhugafólk getur skoðað með litlum stjörnusjónaukum. Þokan sést með berum augum í sverði Óríons, undir beltinu eða Fjósakonunum, svo auðvelt er að staðsetja hana (hér er kort sem hjálpar þér að finna hana). Við litla stækkun (20-30x) blasir lögun þokunar við í stjörnusjónaukanum.

Sverðþokan er ein fárra stjörnuþoka sem sýna lit. Við litla stækkun sést að þokan er grágræn eða fölgræn á litinn. Súrefnissameindirnar í skýinu eiga sök á græna litnum, en það er einmitt sá litur sem augu okkar greina best.

Andrómeduvetrarbrautin

Messier 31 eða Andrómeduvetrarbrautin er næsti nágranni Vetrarbrautarinnar í geimnum, í um 2,5 milljón ljósára fjarlægð. Auðvelt er að koma auga á hana með Galíleósjónaukanum eða í handsjónauka. Hún birtist sem daufur þokublettur með þéttan kjarna. Best er að nota minnstu stækkun Galíleósjónaukans til að skoða vetrarbrautina. Hér er kort sem hjálpar þér að finna hana.

Tengt efni

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sverrir Guðmundsson og Sævar Helgi Bragason (2011). Hvað get ég skoðað með Galíleósjónaukanum? Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/galileosjonaukinn/hvad-get-eg-skodad/ (sótt: DAGSETNING).