Litlirefur

 • stjörnukort, stjörnumerki, Litlirefur
  Kort af stjörnumerkinu Litlarefi
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Vulpecula
Bjartasta stjarna: α Vulpeculae
Bayer / Flamsteed stjörnur:
33
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
Ross 165
(33,5 ljósár)
Messier fyrirbæri:
1
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:

Uppruni

Pólski stjörnufræðingurinn Jóhannes Hevelíus frá Gdansk bjó til stjörnumerkið Litlaref árið 1687. Hevelíus kallaði merkið upphaflega Vulpecula cum ansere (litlirefurinn með gæsina) eða Vulpecula et Anser (litlirefurinn og gæsin) en gæsin er í gini refsins. Í dag er merkið einfaldlega kallað Litlirefur en gæsarinnar er minnst með björtustu stjörnu merkisins sem kölluð er Anser eða Gæsin.

Engar goðasagnir tengjast merkinu.

Stjörnur

Litlirefur er mjög dauft merki og eru flestar stjörnur þess af fjórða og fimmta birtustigi.

 • α Vulpeculae eða Anser (gæsin) er í um 297 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig +4,44). Hún er eina stjarna merkisins sem ber formlegt nafn. Hana er að finna tæplega þrjár gráður suður af Albíreó í Svaninum og sjö gráður frá zeta Sagittae í Örinni. Anser er risastjarna í litrófsflokki M (M0), tiltölulega köld eða aðeins um 3800°C en 390 sinnum bjartari en sólin, 50 sinnum breiðari og örlítið massameiri. Með handsjónauka sést að Anser er sýndartvístirni. Hin stjarnan er af fimmta birtustigi og nefnd 8 Vulpeculae en er miklu lengra í burtu en Anser.

 • PSR B1919+21 er tifstirni í Litlarefi, hið fyrsta sem fannst árið 1967.

 • HD 189733b er fjarreikistjarna á braut um stjörnuna HD 189733A og er heitur gasrisi. Sú er í 60 ljósára fjarlægð frá jörðu. Heitir gasrisar eru reikistjörnur sem liggja nálægt sínum móðurstjörnum. HD 189733b er sérlega nálægt sinni stjörnu, eða í fjarlægð sem nemur einum þrítugasta af fjarlægðinni milli jarðar og sólar, svo hitastig þar mælast yfir 1.000°C og hverfist um móðurstjörnuna á 53 klukkustundum. Hún er um 10% massameiri en Júpíter. Jafnvel Merkúríus, sem er nálægasta reikistjarnan við sólu, er um 10-falt fjær. Lofthjúpurinn er aðallega úr vetni, sem dreifir stuttum bylgjulengdum ljóss, svo hann ætti að virðast blár. Stjarnan HD 189733A vegur um 80% af massa sólarinnar, er um þrír fjórðu af þvermáli hennar, um 800°C kaldari og ögn rauðari að lit. Hún er hluti tvístirnis með HD 189733B (sem ekki má rugla saman við HD 189733b), en þessi meðreiðarstjarna er nokkur þúsund sinnum fjær HD 189733A, og miklu minni en HD 189733A, svo áhrif hennar á reikistjörnuna eru afar lítil. Sjá heic1209.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Litlirefur
Stjörnumerkið Litlirefur. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Vetrarbrautarslæðan liggur í gegnum Litlaref svo þar eru nokkur áhugaverð djúpfyrirbæri.

 • Messier 27 eða Dymbilþokan er þekktasta djúpfyrirbærið í Litlarefi. M27 er hringþoka, leifar deyjandi stjörnu á borð við sólina okkar sem varpað hefur ystu lögum sínum út í geiminn. Frá okkar sjónarhóli á jörðinni er þokan á rönd. Birtustig hennar er +7,4 og stærðin á við hálft sýndarþvermál fulls tungls á himninum. Þokan er því stór og björt og þannig mjög vel sýnileg í gegnum góðan handsjónauka og litla stjörnusjónauka við þokkalegar aðstæður.

 • Herðatréð, sérkennilegt samstirni, er að finna um það bil tvær gráður vestur af Messier 27. Það sést leikandi í gegnum litla stjörnusjónauka.

 • NGC 7052 er þyrilvetrarbraut á rönd í um 214 milljóna ljósára fjarlægð.

Stjörnukort

Stjörnukort af Litlarefi í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Vulpecula the Fox

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Vulpecula

 3. http://stars.astro.illinois.edu/sow/anser.html