Örninn

 • stjörnukort, stjörnumerki, Örninn
  Kort af stjörnumerkinu Erninum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Aquila
Bjartasta stjarna: Altair
Bayer / Flamsteed stjörnur:
65
Stjörnur bjartari +3,00:
3
Nálægasta stjarna:
Altair
(16,7 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Júní Akvilítar
Epsil Akvilítar
Sést frá Íslandi:

Í hágöngu:
September

Uppruni

Í grískri og rómverskri goðafræði var örninn sagður örn Seifs (Júpíter) sem bar og sótti þrumufleygana sem guðinn laust að óvinum sínum. Örninn tengist þó ekki aðeins stríði, heldur líka ást.

Ein sagan segir að örninn hafi hrifið með sér Ganýmedes hinn fagra Trójuprins og flogið með hann á Ólympusfjall þar sem hann átti að þjóna Seifi. Sumir segja að Seifur sjálfur hafi breytt sér í örn en aðrir að Seifur hafi einfaldlega sent örninn. Sjálfur Ganýmedes er svo táknaður af nágrannamerkinu Vatnsberanum og á stjörnukortum sést örninn steypa sér í átt að honum. Einnig er sagt að örninn gæti örva ástarguðsins Erosar (stjörnumerkið Örin) sem gerðu Seif ástfanginn.

Stjörnumerkin Örninn og Svanurinn tengjast líka sögunni af því, þegar Seifur varð ástfanginn af gyðjunni Nemesis sem féll þó ekki fyrir honum. Seifur brá því á það ráð að breyta sér í svan og sannfærði Afródítu til að þykjast elta hann sem örn. Nemesis veitti svaninum skjól en lenti þá í örmum Seifs. Til að minnast þessa kom Seifur svaninum og erninum fyrir á himninum.

Stjörnur

Í Erninum eru alls 47 stjörnur bjartari en birtustig 5,5 en aðeins þrjár bjartari en birtustig +3.

 • α Aquilae eða Altair (örninn fljúgandi) er bjartasta stjarna Arnarins og tólfta bjartasta stjarna himins á eftir Kapellu í Ökumanninum og Aldebaran í Nautinu. Sýndarbirtustig hennar er +0,77. Hún sést vel frá Íslandi mestan hluta ársins en stingur sér undir sjóndeildarhringinn yfir háveturinn. Altair myndar suðurhorn Sumarþríhyrningsins ásamt Vegu í Hörpunni og Deneb í Svaninum en er nálægust þeirra þriggja eða í 16,7 ljósára fjarlægð. Altair er stjarna í litrófsflokki A7, talsvert heitari en sólin okkar eða um 7.500°C. Hún er næstum tvisvar sinnum massameiri en sólina og tífalt skærari.

 • β Aquilae eða Alshain (förufálkinn) er þriðja bjartasta stjarna Arnarins en ber þrátt fyrir það annan bókstaf gríska stafrófsins. Alshain er í um 45 ljósára fjarlægð frá jörðnni og hefur fylgistjörnu af tólfa birtustigi. Sýndarbirtustig Alshain er +3,7. Hún er 1,3 sólmassar og sex sinnum bjartari en sólin okkar.

 • γ Aquilae eða Tarazed er risastjarna í litrófsflokki K3. Hún er næst bjartasta stjarna Arnarins en fékk engu að síður gríska bókstafinn gamma þegar Bayer skrásetti stjörnur Arnarins. Tarazed er í um 460 ljósára fjarlægð frá jörðinni og næstum þrjú þúsund sinnum bjartari.

 • ζ Aquilae eða Deneb el Okab (stél arnarins) er tvístirni í um 83 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er í litrófsflokki A0, um 9.000°C heit og næstum fjörutíu sinnum bjartari en sólin okkar. Massi hennar er rúmlega tvöfaldur á við sólar og breiddin sömuleiðis tvisvar sinnum meiri.
 • ε Aquilae er appelsínugul risastjarna af gerðinni K1 í um 155 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Erninum. Hún er litrófstvístirni með 3,5 ára umferðartíma. Risastjarnan er meira en tvisvar sinnum massameiri en sólin og tífalt breiðari. Hún er 54 sinnum bjartari en nokkuð kaldari eða um 4.500°C. Epsilon Aquilae ber einnig nafnið Deneb el Okab sem þýðir „stél arnarins“ og deilir raunar því nafni með Zeta Aquilae sem er aðeins sunnar á himinhvelfingunni.

 • η Aquilae er reginrisi í litrófsflokki F í um 1.200 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er sefíti með rétt rúmlega sjö daga sveiflutíma.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, Örninn
Stjönumerkið Örninn. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Þótt Örninn sé við jaðar vetrarbrautarslæðunnar á himninum, eru þar engu að síður tiltölulega fá djúpfyrirbæri sem auðvelt er að skoða. Í merkinu eru nokkrar áhugaverðar hringþokur, lausþyrpingar og kúluþyrpingar úr NGC-skránni:

 • NGC 6709 er lausþyrping um 40 til 60 stjarna í um 3.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni, um fimm gráður suðvestan zeta Aquilae. Hún er talin um 315 milljóna ára gömul. Í gegnum góðan stjörnusjónauka sést að þrjár björtustu stjörnurnar mynda þríhyrning. Sýndarbirtustig þyrpingarinnar er +6,7 og hornstærðin 13 bogamínútur svo best er að nota tiltölulega litla stækkun til að skoða hana (50x t.d. eða minna, eftir brennihlutfalli sjónaukans).

 • NGC 6741 er hringþoka

 • NGC 6749 er lausþyrping 

 • NGC 6751 er hringþoka í um 6.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Á ljósmyndum líkist þokan auga og er því oft kölluð augað glóandi. Þokan er tæpt ljósár í þvermál og hefur sýndarbirtustigið +12,5. Hana er því best að skoða á tunglskinslausum himni í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka við nokkuð mikla stækkun. Þokan kemst aldrei hátt á íslenska stjörnuhimininn. NGC 6760 er kúluþyrping sem er nokkuð dauf vegna ryks í vetrarbrautinni.

 • NGC 6755 er lausþyrping 

 • NGC 6772 er hringþoka 

 • NGC 6778 er hringþoka

 • NGC 6781 er hringþoka 

 • NGC 6804 er hringþoka

Loftsteinadrífur

Tvær mjög litlar loftsteinadrífur tengjast stjörnumerkinu Erninum: Júní Akvilítar og Epsilon Akvilítar.

 • Júní Akvilítar uppgötvuðust um miðjan júnímánuð árið 1961 með ratsjármælingum en engir loftsteinar úr þessari drífu hafa sést með berum augum svo vitað sé.

 • Epsilon Akvilítar uppgötvuðust í maí árið 1960 og náðu hámarki þann sautjánda þess mánaðar. Þeir virðast ekki sjást nema með hjálp sjóntækja svo hröpin eru mjög dauf.

Stjörnukort

Stjörnukort af Erninum í prentvænni útgáfu má nálgast hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales – Aquila the Eagle

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Aquila_(constellation)

 3. http://stars.astro.illinois.edu/sow/altair.html

 4. http://meteorshowersonline.com/showers/june_aquilids.html

 5. http://meteorshowersonline.com/showers/epsilon_aquilids.html