Stórihundur

Stórihundur

 • stjörnukort, stjörnumerki, Stórihundur
  Kort af stjörnumerkinu Stórahundi
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Canis Major
Bjartasta stjarna: Síríus
Bayer / Flamsteed stjörnur:
32
Stjörnur bjartari +3,00:
5
Nálægasta stjarna:
Síríus
(8,6 ljósár)
Messier fyrirbæri:
1
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:

Uppruni

Til eru tvær mismunandi skýringar á stjörnumerkinu Stórahundi. Annars vegar er sagt að um sé að ræða varðhund Óríons sem eltir Hérann eða hjálpar honum að berjast við Nautið. Hins vegar er sagt að merkið tákni hundinn Lælaps sem var svo fótfrár að engin gat frá honum sloppið.

Lælaps var hundur sem hafði átt marga eigendur. Einn þeirra var Prókris, dóttir Erekþeifs frá Aþenu og kona Sefalusar. Í einni útgáfu sögunnar segir að Artemis, veiðigyðjan, hafi gefið henni hundinn þótt líklega sé að hann sé sá sem Seifur gaf Evrópu og að Mínos, sonur hennar og konungur Krítar, hafi svo gefið Prókris. Prókis fékk hundinn ásamt spjóti sem aldrei geigaði. Gjöfin reyndist örlagarík því Sefalus drap hana óvart með spjótinu þegar hann var við veiðar.

Sefalus erfði hundinn og tók hann með sér til Þebesar, norður af Aþenus. Þar hafði refur einn, grimmur og svo fótfrár að sagt var að hann yrði aldrei fangaður, ráfað um sveitirnar og gert usla. Lælaps var hins vegar sagður ná hverju sem hann elti. Hann hljóp af stað á eftir refnum og virtist í seilingarfjarlægð frá honum en náði aldrei að glefsa í hann. Vandamálið virtist óleysanlegt svo Seifur brá á það ráð að breyta báðum í stein. Seifur kom hundinum svo fyrir á himninum sem stjörnumerkið Stórihundur.

Stjörnur

Í Stórahundi eru margar bjartar stjörnur, þar á meðal bjartasta stjarna næturhiminsins og þrjár aðrar stjörnur sem eru bjartari en 2. birtustig.

 • α Canis Majoris eða Síríus, einnig þekkt sem Hundastjarnan, er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Stórahundi og bjartasta fastastjarna næturhiminsins (birtustig –1,46). Síríus er ein nálægasta stjarnan við jörðina eða í 8,6 ljósára fjarlægð. Hún er tvístirni sem samanstendur af bjartri, hvítri meginraðarstjörnu af gerðinni A1 (Síríus A) og daufum, hvítum dvergi (Síríus B). Síríus A er tvisvar sinnum massameiri en sólin, 1,71 sinnum breiðari, 25 sinnum bjartari og næstum 10.000°C heit. Í upphafi var Síríus B massameiri stjarna, sennilega blár risi. Fyrir um 120 milljónum ára breyttist hún í rauðan risa sem tók að varpa ystu lögum sínum frá sér svo úr varð hringþoka og eftir sat hvíti dvergurinn. Nafnið Síríus er grískt að uppruna og merkir „glóandi“ eða „brennandi“. Hún er í trýni Stórahunds og hluti af Vetrarþríhyrningnum ásamt Prókýon og Betelgás.

  Á tímum Grikkja reis stjarnan í dögun, rétt á undan sólinni og markaði þá upphaf heitustu daga ársins, tímabil sem síðan hefur verið kallað Hundadagar.

 • ε Canis Majoris er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Stórahundi (birtustig 1,5). Hún er rrisastjarna af gerðinni B2, rúmlega tólf sinnum massameiri en sólin, næstum fjórtán sinnum breiðari og meira en 38.000 sinnum bjartari. Hún er mjög heit eða um 22.000°C. Samkvæmt hliðrunarmælingum evrópska gervitunglsins Hipparkosar er stjarnan í 430 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Epsilon Canis Majoris ber einnig nafnið Adhara.

 • δ Canis Majoris er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Stórahundi (birtustig 1,83). Hún er gulhvítur reginrisi af gerðinni F8 sem er næstum fimmtán sinnum massameiri en sólin, 215 sinnum breiðari og 51.300 sinnum bjartari. Þessi risavaxna stjarna er aðeins um 10 milljón ára gömul en þegar búin að klára vetnisforða sinn og því byrjuð að þenjast út og kólna. Hún er smám saman að breytast í rauðan risa sem mun að endingu springa. Delta Canis Majoris ber einnig nafnið Wezen sem þýðir „þyngd“ og á vel við. Væri stjarnan í sömu fjarlægð frá okkur og Síríus, væri hún álíka björt og hálft tungl.

 • β Canis Majoris er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Stórahundi (birtustig 1,99). Hún er risastjarna af gerðinni B1 sem er rúmlega þrettán sinnum massameiri en sólin, sjö sinnum breiðari og 25.000 sinnum bjartari. Hún er rúmlega 23.000°C heit sem gefur henni bláhvítan blæ. Beta Canis Majoris ber líka nafnið Mirzam sem þýðir „boðberinn“ enda boðar hún komu Síríusar á himininn, þ.e.a.s. rís á undan henni. Hún er í um 500 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • η Canis Majoris er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Stórahundi (birtustig 2,45). Hún er bláhvítur reginrisi af gerðinni B5 sem er næstum 20 sinnum bjartari en sólin, 56 sinnum breiðari og 105.000 sinnum bjartari. Stærðar sinnar vegna mun hún enda ævi sína sem sprengistjarna. Eta Canis Majoris ber einnig nafnið Aludra sem merkir „meyjan“. Hún er í um 2.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • ζ Canis Majoris er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Stórahundi (birtustig 3,02). Hún er litrófstvístirni í um 362 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stærri og bjartari stjarnan er næstum fjórum sinnum breiðari en sólin, átta sinnum massameiri og 3600 sinnum bjartari. Hún er 18.000°C heit sem gefur henni bláhvítan blæ. Lítið sem ekkert er vitað um förunautinn.

 • Ómíkron2 Canis Majoris er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Stórahundi (birtustig 3,04). Hún er reginrisi af gerðinni B3, rúmlega 20 sinnum massameiri en sólin, 65 sinnum breiðari og 220.000 sinnum bjartari. Yfirborðshitastig hennar er um 15.000°C sem gefur henni bláhvítan blæ. Stjarnan er líklega í um 2.800 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún mun enda ævi sína sem sprengistjarna.

 • γ Canis Majoris er fjórtánda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Stórahundi (birtustig 4,11). Hún er bláhvít risastjarna af gerðinni B8, rúmlega sex sinnum breiðari en sólin okkar og yfir 13.000°C heit. Gamma Canis Majoris er einnig kölluð Muliphein. Hún er í um 400 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Á þjóðfána Brasilíu táknar stjarnan ríkið Rondonia.

 • VY Canis Majoris er rauður ofurrisi í um 4.900 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Stórahundi (birtustig 6,5 til 9,6). Hún er stærsta stjarna sem vitað er um eða í kringum 2000 sinnum breiðari en sólin okkar og 500.000 sinnum bjartari en hún. Þrátt fyrir það sést hún ekki með berum augum á næturhimninum því hún er umlukin miklu rykskýi.

Djúpfyrirbæri

Í Stórahundi eru fremur fá markverð djúpfyrirbæri fyrir stjörnuáhugafólk að skoða.

 • Messier 41 er lausþyrping um 100 stjarna í um 2.350 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hana er að finna fjórar gráður suður af Síríusi. Með berum augum glittir í þokublett en handsjónauki nýtist vel til að skoða hana.

 • NGC 2207 og IC 2163 eru gagnvirkar þyrilvetrarbrautir í um 80 til 114 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Best er að nota meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka til að skoða þær.

 • NGC 2362 er lítil en þétt og massamikil lausþyrping í 3.000 til 5.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartasta stjarnan í henni er Tá Canis Majoris, blár reginrisi af O-gerð en þyrpingin er stundum nefnd eftir henni.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Stórihundur
Stjörnumerkið Stórihundur og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Stórahundi í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Canis Major the greater dog

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Canis_Major