Suðurkrossinn

 • stjörnukort, stjörnumerki, Suðurkrossinn
  Kort af stjörnumerkinu Suðurkrossinum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Crux
Bjartasta stjarna: α Crucis (Acrux)
Bayer / Flamsteed stjörnur:
19
Stjörnur bjartari +3,00:
5
Nálægasta stjarna:
η Crucis
(64 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Alfa Crúsítar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Forngrískir stjörnufræðingar þekktu vel til stjarna Suðurkrossins. Ptólmæos skráir stjörnurnar í riti sínu Almagest á 2. öld e.Kr. en telur þær til afturfóta Mannfáksins. Vegna pólveltu jarðar færðust stjörnurnar smám saman undir sjóndeildarhringinn og hurfu Evrópumönnum sjónun allt þar til þeir hófu siglingar suður á bóginn á 16. öld.

Árið 1501 kortlagði ítalski landkönnuðurinn Amerigo Vespucci stjörnurnar Alfa og Beta í Mannfáknum og stjörnur Suðurkrossins þegar hann sigldi um suðurhöfin. Á 16. öld hófu sæfarendur að nota Suðurkrossinn sem bendil í átt að suðurpól himins.

Suðurkrossinn birtist fyrst á því formi sem við notum í dag á hnattlíkani hollensku kortagerðarmannanna Petrusar Plancius og Jodocusar Hondius árið 1598. Merkið bjuggu þeir til út frá athugunum landa sinna Pieter Dirkszoon Keyser og Frederick de Houtmann sem siglt höfðu til Austur Indía í fyrstu leiðangrum Hollendinga þangað.

Suðurkrossinn prýðir fána nokkurra þjóða: Ástralíu, Brasilíu, Nýja Sjálands, Papúa Nýju Gíneu og Samóaeyja.

Í Mapudungun, tungumáli innfæddra Chilebúa í Patagóníu, kallast Suðurkrossinn Melipal sem þýðir fjórar stjörnur. Einn af sjónaukum Very Large Telescope (VLT) ESO er nefndur Melipal.

Stjörnur

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Suðurkrossinn
Stjörnumerkið Suðurkrossinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Þrjár af fimm björtustu stjörnum Suðurkrossins eru B-stjörnur sem tilheyra Sporðdreka-Mannfáks stjörnufélaginu, nálægasta OB stjörnufélagi við sólina okkar. Þær eru milli 10 og 20 milljóna ára gamlar.

 • α Crucis eða Acrux er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Suðurkrossinum (birtustig 0,77) og tólfta bjartasta stjarna næturhiminsins. Acrux er fjölstirni í um 321 ljósára fjarlægð frá jörðinni en í gegnum sjónauka sjást aðeins tvær stjarnanna (a1 og a2). Báðar eru mjög heitar stjörnur (yfir 26.000°C) af B-gerð, 25.000 og 16.000 sinnum bjartari en sólin. a1 er sjálf litrófstvístirni og eru stjörnurnar tvær 14 og 10 sinnum massameiri en sólin okkar. Í um 90 bogasekúndna fjarlægð frá þessu þríeyki er önnur risastjarna af gerðinni B, Alfa Crucis C. Hugsanlegt er að hún sé þó ekki bundin þríeykinu heldur fyrir tilviljun í sömu sjónlínu. Á þjóðfána Brasilíu táknar Acrux ríkið Sao Paulo.

 • β Crucis (Becrux) eða Mímósa er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Suðurkrossinum (birtustig 1,25) og nítjánda bjartasta stjarna næturhiminsins. Becrux er litrófstvístirni í um 280 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartari stjarnan, Beta Crucis A, er um 16 sinnum massameiri en sólin okkar og af gerðinni B0.5. Hún er 34.000 sinnum bjartari en sólin og í kringum 27.000°C heit. Hin stjarnan, Beta Crucis B, er tíu sinnum massameiri en sólin og af gerðinni B2. Á þjóðfána Brasilíu táknar Becrux ríkið Ríó de Janeiro.

 • γ Crucis eða Gacrux er þriðja bjartasta stjarnan í Suðurkrossinum (birtustig 1,63). Hún er í um 89 ljósára fjarlægð frá jörðinni og flokkast sem rauður risi af gerðinni M3.5 (nálægasti rauði risinn við jörðin). Gacrux er 30% massameiri en sólin, 84 sinnum breiðari og 1.500 sinnum bjartari. Yfirborðshitastig hennar er um 3.500°C. Á þjóðfána Brasilíu táknar Gacrux ríkið Bahia.

 • δ Crucis er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Suðurkrossinum (birtustig 2,79). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni B2 sem er að þróast af meginröð í rauðan risa. Hún er 10.000 sinnum bjartari en sólin okkar og yfir 22.000°C heit. Stjarnan er næstum 9 sinnum massameiri en sólin og 8 sinnum breiðari. Á þjóðfána Brasilíu táknar Delta Crucis ríkið Minas Gerais.

 • ε Crucis er fimmta bjartasta stjarnan í Suðurkrossinum (birtustig 3,56). Hún er appelsínugulur risi af gerðinni K3 í um 228 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Epsilon Crucis er 40% massameiri en sólin og 33 sinnum breiðari. Á þjóðfána Brasilíu táknar Epsilon Crucis ríkið Espírito Santo.

Djúpfyrirbæri

Kolapokinn, Suðurkrossinn
Skuggaþokan Kolapokinn og stjörnumerkið Suðurkrossinn. Mynd: ESO/S. Brunier

Þótt ekki séu mörg djúpfyrirbæri í Suðurkrossinum eru þar tvö sérstaklega tilkomumikil.

 • Kolapokinn er skuggaþoka, sú mest áberandi á himninum enda sést hún leikandi með berum augum. Hún er um 30 ljósár í þvermál og er í um 600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í stjörnufræði innfæddra Ástrala er Kolapokinn höfuðið á emúa á himninum en meðal Inkanna í Suður Ameríku er sama ský á himninum höfuðið á lamadýrinu. Í báðum tilvikum er stjarnan Alfa Centauri auga fuglsins.

 • Skartgripaskrínið eða NGC 4755 er lausþyrping í um 6.400 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þessi glæsilega þyrping er sem demantar á himninum. Í henni er ein áberandi rauðleit stjarna, Kappa Crucis, innan um fjölmargar fagurbláar.

Loftsteinadrífur

Alfa Krúsítar eru minniháttar loftsteinadrífa sem sést milli 6. og 28. janúar ár hvert en er í hámarki í kringum 15. þess mánaðar. Við hámarkið sjást innan við fimm loftsteinar á klukkustund.

Stjörnukort

Stjörnukort af Suðurkrossinum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Crux the southern cross

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Crux