Grunnt gæti verið á neðanjarðarhafi Enkeladusar

Kjartan Kjartansson 17. mar. 2017 Fréttir

Hiti undir sprungum á suðurpóli Enkeladusar er vísbending um að ísskorpan yfir miklu neðanjarðarhafi sé aðeins nokkurra kílómetra þykk þar.

Hafið sem vísindamenn telja að sé að finna undir ísilögðu yfirborði Enkeladusar, tungls Satúrnusar, gæti verið nær yfirborðinu en talið hefur verið fram að þessu.

Greint er frá því í nýrri rannsókn á ístunglinu sem birt var í Nature Astronomy að suðurpóll þess er hlýrri en önnur svæði aðeins nokkrum metrum undir yfirborðinu. Þetta telja höfundar rannsóknarinnar vísbendingu um að haf úr fljótandi vatni gæti verið aðeins nokkrum kílómetrum undir ísskorpunni á þessu svæði.

Hitinn virðist sérstakleg bundinn með þrjár sprungur í skorpunni. Þær eru sagðar líkjast þeim sem nefndar hafa verið „tígrisrendurnar“ og eru eitt helsta kennileiti Enkeladusar. Það eru virkar sprungur sem skera pólana þar sem ís gýs upp. Sprungurnar sem hitinn sést við nú virðast hins vegar óvirkar þessa stundina.

Þetta er talið benda til þess að Enkeladus gangi í gegnum tímabil jarðvirkni þar sem fljótandi vatnið er í hlutverki hrauns og ísskorpan í hlutverki bergs. Niðurstöðurnar byggjast á athugunum Cassini-geimfarsins frá árinu 2011.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru sagðar í samræmi við mælingar á þykkt ísskorpunnar. Rannsókn sem birt var í fyrra komst að þeirri niðurstöðu að meðalþykkt ísskorpunnar sé 18 til 22 kílómetrar en þykktin sé innan við fimm kílómetrar við pólana, að því er segir í frétt á vef NASA .

„Að finna hitastig undir þessum þremur óvirku sprungum sem er óvænt hærra en utan þeirra eykur á dulúð Enkeladusar. Hvernig er þetta hlýja neðanjarðarhaf raunverulega og gæti líf hafa þróast þar? Þessum spurningum verður svarað með framtíðarleiðöngrum til þessarar hafveraldar,“ segir Linda Spilker, vísindamaður við Cassini-leiðangurinn.

Nánar má lesa um rannsóknina á vef Evrópsku geimstofnunarinnar (ESA) .