Skriða afhjúpar innviði halastjörnu

Kjartan Kjartansson 24. mar. 2017 Fréttir

Rosetta-geimfarið náði myndum af klettavegg sem virðist hafa hrunið á 67P/Churyumov-Gerasimenko. Vísindamenn tengja skriður af þessu tagi við það þegar ryk og gas gýs upp frá yfirborði halastjörnunnar.

Stjörnufræðingar hafa í fyrsta skipti komið auga á skriðu á halastjörnu á myndum evrópska Rosetta-geimfarsins af halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko. Skriðan afhjúpaði vatnsís sem er alla jafna hulinn þykku lagi dökks lífræns efnis.

Gos ryks og gass eru reglulegir viðburðir á halastjörnunni en vísindamenn hafa ekki verið á einu máli um hvað veldur þeim. Ný rannsókn sem birtist í Nature Astronomy tengir gos af þessu tagi í fyrsta skipti við skriðu úr klettavegg á halastjörnunni.

Myndir Rosettu af halastjörnunni frá september 2014 sýndu 70 metra langa og eins metra breiða sprungu í klettavegg sem fékk nafnið Aswan. Þegar halastjarnan nálgaðist sólina á næstu mánuðunum á eftir jókst virkni hennar og gas og ryk streymdi frá henni í gusum, að því er kemur fram í frétt á vef Evrópsku geimstofnunarinnar (ESA) .

Næst þegar mynd náðist af Aswan-klettaveggnum í júlí 2015 var þar komið skært svæði sem sprungan var áður og fjöldi hnullunga lá við rætur klettsins. Nokkrum dögum áður hafði Rosetta séð gos koma frá svæðinu þar sem Aswan er að finna. Vísindamennirnir telja þetta vísbendingar um að skriða hafi fallið úr klettinum.

Skriðan á þó lítið skylt við skriður á jörðinni. Þyngdarafl halastjörnunnar er óverulegt og því gaus efnið úr klettinum í formi skýs úr ryki og gasi í stað þess að hrynja beint niður hallann. Áætlað er að 99% þeirra 10.000 tonna efnis í skriðunni hafi endað við rætur klettaveggsins en 1% efnisins hafi glatast út í geim.

Orsök skriðunnar telja vísindamennirnir vera sólarljós. Enginn lofthjúpur umlykur halastjörnuna og því verður gríðarlegur hitamunur á milli þeirra svæða þar sem að sólin skín og þeirra sem eru í skugga. Sólarljós sem féll á hluta klettaveggsins og hitaði hann hafi þannig veikt hann og valdið skriðunni.

Atburðurinn var tækifæri fyrir vísindamenn til að rannsaka hvernig vatnísinn sem skriðan afhjúpaði þróaðist. Næstu mánuðina á eftir gufaði vatnsísinn nær allur upp og sárið í klettaveggnum varð aftur eins dökkt og umhverfi þess.