Venus gengur fyrir sólu 5.-6. júní 2012

Misstu ekki af einstökum stjarnfræðiatburði

Sævar Helgi Bragason 24. maí 2012 Fréttir

Að kvöldi 5. júní og aðfaranótt 6. júní 2012 setur ástarstjarnan svartan fegurðarblett á sólina. Þessi sjaldgæfi atburður sést ekki aftur frá Íslandi fyrr en eftir 235 ár!

  • Venus, þverganga

Að kvöldi hins 5. júní og aðfaranótt 6. júní 2012 getur þú orðið vitni að einstökum stjarnfræðilegum atburði þegar Venus gengur fyrir sólina. Þvergangan hefst klukkan 22:04 og tekur rúmar sex klukkustundir en Reykjavík er eina borgin í heiminum þar sem sólin sest og rís aftur á meðan hún stendur yfir. Nú er lag að grípa tækifærið því 235 ár eru þangað til að þessi sjaldgæfi atburður sést aftur, frá upphafi til enda, frá Íslandi.

Þverganga nefnist það þegar reikistjarna gengur þvert fyrir sólina frá jörðu séð. Slíkir atburðir eru frekar sjaldgæfir en þannig gengur Venus fyrir sólina á 105,5 eða 121,5 ára fresti og þá tvisvar með átta ára millibili. Seinast gekk Venus fyrir sólu árið 2004 og sást sú þverganga vel frá Íslandi (sjá hér) [1].

Þriðjudagskvöldið 5. júní og aðfaranótt miðvikudags 6. júní 2012, gengur Venus í síðasta sinn fyrir sólina á 21. öld. Þvergangan hefst þegar Venus snertir vinstri rönd sólar, ofarlega á skífunni, klukkan 22:04 en þá er sólin lágt á norðvesturhimni. Henni lýkur svo klukkan 04:54 þegar sólin er lágt í norðaustri, samkvæmt upplýsingum úr Almanaki Háskóla Íslands. Þar kemur einnig fram að Reykjavík er eina borgin í heiminum þar sem sólin sest og rís aftur á meðan þvergangan stendur yfir.

„Þetta er einn sjaldgæfasti stjarnfræðiviðburðurinn sem þó er hægt að sjá og því ætti engin að láta hann framhjá sér fara“ segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. „Í besta falli, ef maður er heppinn, sér maður hann tvisvar á ævi en enginn núlifandi maður mun sjá hann aftur. Þetta er kannski ekki sama sjónarspil og sól- eða tunglmyrkvar en það er eitthvað heillandi við að sjá ástarstjörnuna setja fegurðarblett á sólina.“

Þvergangan stendur yfir í rúmar 6 klukkustundir frá því að reikistjarnan ber fyrst við skífu sólar og þar til hún er komin út fyrir hana aftur. Á þeim tíma sést Venus sem lítill svartur blettur sem hylur 3% sólskífunnar og færist löturhægt yfir hana. Þvergangan svipar til sólmyrkva en þar sem Venus er miklu lengra frá jörðinni en tunglið, sýnist hún miklu smærri og ferðast mun hægar yfir.

Í byrjun þvergöngunnar sést tvennt sem fólk ætti að veita athygli: Annars vegar daufum ljóma sem umlykur reikistjörnuna þegar brún hennar er enn rétt fyrir utan sólskífuna og hins vegar svonefndum dropaáhrifum [2].

Þvergöngur Venusar eru sögulega mikilvægir atburðir því þá gafst vísindamönnum færi á að mæla fjarlægðina milli jarðar og sólar. Fyrstu tilraunir til þess voru gerðar árin 1761 og 1769 og aftur 1874 og 1882 en í öll skiptin lögðu vísindamenn í langa og dýra rannsóknarleiðangra víða um heim [3].

Í dag er þverganga Venusar fyrst og fremst forvitnilegt sjónarspil. Stjörnufræðingar munu engu að síður fylgjast náið með og gera ýmsar mælingar með gervitunglum og sjónaukum, þar á meðal Hubblessjónaukanum (sjá potw1219). Þvergangan er líka gott sýnidæmi um þá aðferð sem menn nota til að leita að reikistjörnum utan okkar sólkerfis [4].

Hvernig er best að fylgjast með?

Hægt er að fylgjast með þvergöngu Venusar með sama hætti og sólmyrkvum: Notast verður við viðurkenndar sólarsíur til að koma í veg fyrir varanlegan augnskaða. Þrátt fyrir að sólarsía sé notuð er mikilvægt að fara að öllu með gát og tryggja öryggi sitt í hvívetna. Aldrei skal horft á sólina án viðeigandi hlífðarbúnaðs. Mælt er með sólarsíum sem eru til sölu  hjá Sjónaukar.is (sjá einnig grein um örugga sólskoðun).

Félagsmenn í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness munu fylgjast grannt með og hjálpa öðrum að sjá þvergönguna á öruggan hátt (sjá til1214).

„Við höfum sent tengiliðum okkar víða um land sjónauka og sólarsíur til að auðvelda áhugasömum að fylgjast með“ [5] segir Sverrir Guðmundsson, ritari Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. „Félagið hefur einnig til sölu sérstök sólmyrkvagleraugu sem öruggt er að nota. Við verðum vel útbúin og hlökkum til að skoða nokkuð sem við sjáum aldrei aftur.“

Skýringar

[1] Næsta þverganga verður 10.–11. desember árið 2117 en sú mun ekki sjást frá Íslandi. Næsta þverganga, sem sést frá upphafi til enda frá Íslandi, verður 11. júní árið 2247. Sjá lista yfir þvergöngur hér.

[2] Ljóminn er af völdum ljósbrots í lofthjúpi Venusar en hann hverfur smám saman þegar reikistjarnan færist lengra inn á sólina. Dropaáhrifin má hins vegar rekja til ókyrrðar í lofthjúpi jarðar og ljósbrots í sjónaukum til blands við jaðarhúmun við rönd sólar. Saman valda þessir þættir því að Venus sýnist dreypa af sólröndinni. Áhrifin eru alræmd því þau komu í veg fyrir áreiðanlegar tímamælingar á þvergöngu Venusar hér áður fyrr.

[3] Fræg er sagan af franska stjörnufræðingnum Guillaume Le Gentil sem fór alla leið til Indlands til að fylgjast með þvergöngunni. Vegna stríðsátaka tókst honum ekki að gera tímamælingar á þvergöngunni 1761 en ákvað að halda til við Indlandshaf til að fylgjast með þvergöngunni átta árum síðar. Þegar sá dagur rann upp var skýjað! Ekki gekk þrautalaust að komast heim á ný af ýmsum ástæðum en þegar heim var komið hafði kona hans gifst öðrum manni, eignir hans verið seldar og hann lýstur látinn. Atbeina konungs þurfti til að koma honum á réttan kjöl aftur, ellefu árum eftir að hann fór frá Frakklandi. Lesa má betur um þessa skondnu sorgarsögu hér.

[4] Kepler geimsjónauki NASA, sem dæmi, starir á tugþúsundir stjarna á himninum í von um að áður óþekktar reikistjörnur komi upp um sjálfar sig þegar þær ganga fyrir sínar móðurstjörnur, rétt eins og Venus gerir þann 5. júní. Birta sólar minnkar um aðeins 0,1% þegar Venus er fyrir henni en í ár gætu aðrir stjörnufræðingar í átta ljósára fjarlægð séð þvergönguna sem við fylgdumst með árið 2004. Með því að rannsaka ljósið frá Venusi gætu þeir áttað sig á að hún er lífvana hnöttur með lofthjúp úr koldíoxíði, yfir 400 stiga heitur. Stjörnufræðingar beita samskonar aðferðum í dag í leit að annarri jörð með stærstu sjónaukum jarðar.

[5] Tengiliðir Stjörnuskoðunarfélagsins eru á Þingeyri, Dalvík, Akureyri, Húsavík og í Vestmannaeyjum. Áhugasömum er bent á að setja sig í samband við þá (sjá til1214). Á höfuðborgarsvæðinu verður Stjörnuskoðunarfélagið við Perluna í Reykjavík.

Frekari upplýsingar

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness er elsta og stærsta félag áhugamanna um stjörnufræði og stjörnuskoðun á Íslandi. Félagið var stofnað árið 1976 í kringum stærsta stjörnusjónauka landsins sem er á þaki Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Félagið er öllum opið og eru félagsfundir haldnir mánaðarlega yfir vetrartímann. Ár hvert stendur félagið fyrir margvíslegum uppákomum og ber þar helst að nefna námskeið í stjörnuskoðun, útgáfu fréttabréfa, sólskoðun og stjörnuskoðun fyrir almenning og þátttöku í Vísindavöku Rannís auk annarra viðburða. Heimasíða félagsins er www.astro.is.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is) er alfræðivefur um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Vefnum er ætlað að efla áhuga og auðvelda aðgengi almennings að vönduðu efni um stjarnvísindi og stjörnuskoðun. Á vefnum eru mikill fjöldi greina um allt frá sjónaukum og reikistjörnum til svarthola og vangaveltna um líf í alheimi. Í viku hverri birtast á vefnum fréttir af nýjustu niðurstöðum rannsókna í stjarnvísindum. Mynd vikunnar er á sínum stað og í hverjum vetrarmánuði er gefið út Stjörnukort mánaðarins.

Árið 2011 hlutu Stjörnuskoðunarfélagið og Stjörnufræðivefurinn tvær viðurkenningar fyrir framúrskarandi vísindamiðlun frá Rannís annars vegar og Siðmennt hins vegar.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
E-mail: [email protected]
Sími: 896-1984

Sverrir Guðmundsson
Ritari Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
E-mail: [email protected]
Sími: 896-1984

Akureyri
Þórir Sigurðsson
Formaður Stjörnu-Odda félagsins
E-mail: [email protected]
Sími:

Dalvík og Fjallabyggð
Ottó Elíasson
E-mail: [email protected]
Sími: 663-6867

Húsavík
Örlygur Hnefill Örlygsson
E-mail: [email protected]
Sími: 848-7600

Þingeyri
Jón Sigurðsson
E-mail: [email protected]
Sími: 846-6397

Vestamannaeyjar
Karl Gauti Hjaltason
Formaður Stjörnufræðifélags Vestmannaeyja
E-mail: [email protected] Sími:

Þetta er fréttatilkynning frá Stjörnufræðivefnum stj1209

Tengdar myndir

  • þverganga VenusarÞvergöngur Venusar verða aðeins fjórum sinnum á hverjum 243 árum, á 105,5 og 121,5 ára fresti og þá tvisvar með átta ára millibili. Seinast gekk Venus fyrir sólu 8. júní 2004 og sást sú þverganga vel frá Íslandi. Mynd: Ágúst H. Bjarnason
  • þverganga Venusar, kortÞvergangan sést frá rúmum helmingi jarðarinnar, best frá vestanverðu Kyrrahafi og í austanverðri Asíu og Ástralíu. Íslendingar eru ágætlega staðsettir en landið er hið eina í heiminum þar sem sólin sest og rís aftur á meðan þvergangan stendur yfri. Mynd: Fred Espenak/NASA Goddard Space Flight Center/Stjörnufræðivefurinn
  • þverganga VenusarVenus snertir fyrst skífu sólar klukkan 22:04 að íslenskum tíma. Þvergangan stendur yfir í rúmar 6 klukkustundir og lýkur klukkan 04:54 þegar sólin er lágt á norðausturhimni. Venus mun þekja um 3% af skifu sólar og draga úr birtu hennar um 0,1%. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Hermann Hafsteinsson
  • þverganga VenusarÞvergöngur Venusar eru sjaldgæfar vegna þess að reikistjarnan verður að vera í beinni línu milli sólar og jarðar. Braut Venusar hallar 3,4 gráður miðað við brautarflöt jarðar svo yfirleitt fer Venus undir eða yfir sólina frá jörðu séð. Brautarfletir jarðar og Venusar skerast á svonefndum hnútpunktum, tvisvar á ári í kringum 7. júní og 8. desember. Þverganga getur aðeins orðið þegar Venus og jörðin eru í beinni línu í kringum þessar dagsetningar. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Hermann Hafsteinsson
  • þverganga VenusarHægt er að fylgjast með þvergöngu Venusar með sama hætti og sólmyrkvum: Notast verður við viðurkenndar sólarsíur til að koma í veg fyrir varanlegan augnskaða. Þrátt fyrir að sólarsía sé notuð er mikilvægt að fara að öllu með gát og tryggja öryggi sitt í hvívetna. Hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness er hægt að kaupa sérstök sólmyrkvagleraugu. Mynd: Stjörnufræðivefurinn

Krakkavæn útgáfa