Sólmyrkvi 2015

Að fylgjast með sólmyrkvanum

  • Sólmyrkvahátíð í Háskóla Íslands hefst föstudagsmorguninn 20. mars kl. 08:30
    Sólmyrkvahátíð í Háskóla Íslands hefst föstudagsmorguninn 20. mars kl. 08:30

Til að fylgjast með myrkvanum er mikilvægt að koma sér fyrir þar sem hvorki byggingar né fjöll skyggja á, því sól er lágt á lofti þennan föstudagsmorgun.

Sólmyrkvahátíð í Háskóla Íslands

Boðið verður upp á sólmyrkvahátíð fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands föstudaginn 20. mars. Hátíðin hefst kl. 08:30, rétt áður en myrkvinn byrjar, og stendur til klukkan 11:30. Þangað eru að sjálfsögðu allir velkomnir!

Að hátíðinni standa félagsmenn í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness og Háskóli Íslands. Á staðnum verða nokkrir stjörnusjónaukar útbúnir sérstökum sólarsíum og sérhæfðir sólarsjónaukar. Sólmyrkvagleraugun verða til sölu (ef eitthvað verður enn til!) og bæði áhugafólk og stjörnufræðingar munu fræða gesti. 

Klukkan 17:00 hefjast síðan tveir fyrirlestrar í Hátíðasal Háskóla Íslands í tilefni af Alþjóðlegu ári ljóssins. Þar flytur Babak Tafreshi erindi um ljósmyndun næturhiminsins frá ýmsum stöðum á Jörðinni. Að erindi hans loknu flytur Mark McCaughrean, yfirmaður rannsókna- og geimkönnunar hjá Geimvísindastofnun Evrópu (ESA) fyrirlestur um rannsóknir Rosetta geimfarsins og könnun sólkerfisins. 

  • Sólmyrkvahátíð í Háskóla Íslands (nánari upplýsingar þegar nær dregur)

Hvað ef það verður skýjað?

Myrkvinn stendur yfir í tvær klukkustundir. Til að eitthvað sjáist þarf ekki fullkomlega heiðskírt veður. Eina sem þarf er að sólin láti sjá sig eitthvað, jafnvel í gegnum skýin. Því er mikilvægt að reyna að fylgjast vel með frá upphafi til enda. Ekki gefast upp!

Ef svo illa fer að einhvers staðar sjáist alls ekki neitt er unnið að því að sólmyrkvinn verði í beinni vefútsendingu á Stjörnufræðivefnum.

- Sævar Helgi Bragason