Messier 46

Lausþyrping í Skutinum

  • Messier 46, lausþyrping, Skuturinn
    Lausþyrpingin Messier 46 í Skutinum. Mynd: Wikimedia Commons
Helstu upplýsingar
Tegund: Lausþyrping
Stjörnulengd:
07klst 41,8mín 
Stjörnubreidd:
-14° 49′
Fjarlægð:
5.400 ljósár
Sýndarbirtustig:
+6,1
Stjörnumerki: Skuturinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 2437

Messier 46 var fyrsta fyrirbærið sem franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði eftir að hafa gefið út fyrstu útgáfu skráar sinnar (M1-M45). Messier bætti þessari þyrpingu við skrána þann 19. febrúar 1771.

Messier 46 er í um 5.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þyrpingin er nokkuð stór, um 30 ljósár í þvermál. Sýndarþvermál hennar er álíka mikið og fulls tungls á himninum. Í heild telur þyrpingin yfir 500 stjörnur en af þeim eru um 150 með birtustig milli +10 og +13. Björtustu stjörnurnar eru í litrófsflokki A0 og eru 100 sinnum bjartari en sólin okkar. Aldur þyrpingarinnar er áætlaður um 300 milljónir ára.

NGC 2438

Við norðurbrún Messier 46 er lítil hringþoka, NGC 2438. Hana uppgötvaði enski stjörnufræðingurinn William Herschel 19. mars árið 1786. Þokan tilheyrir þyrpingunni ekki heldur er hún meira en 2.000 ljósár fyrir framan þokuna eða í 2.900 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í miðju hennar er hvítur dvergur af 17. birtustigi sem er meira en 70.000°C heit.

Sýndarbirtustig hringþokunnar er +10,8. Hún er því mjög dauf en sést í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.

Á himninum

Messier 46 sést á íslenska stjörnuhimninum, þótt hún komist ekki mjög hátt á himininn. Best er að skoða hana rétt fyrir og í kringum miðnætti snemma í marsmánuði. Þá er Skuturinn nokkurn veginn á suðurhimni og hæst á lofti. Nota þarf stjörnukort af Skutinum til að finna hana.

Þyrpingin er í norðurhluta stjörnumerkisins, aðeins 1,5 gráðu austur af Messier 47. Þyrpingarnar sjást báðar í sama sjónsviði handsjónauka og eru mjög fallegar að sjá í gegnum stjörnusjónauka við litla stækkun.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 46, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Messier_46

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 46. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-46 (sótt: DAGSETNING).