Skuturinn

 • stjörnukort, stjörnumerki, Skuturinn
  Kort af stjörnumerkinu Skutnum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Puppis
Bjartasta stjarna: ζ Puppis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
76
Stjörnur bjartari +3,00:
2
Nálægasta stjarna:
LHS 1989
(19,7 ljósár)
Messier fyrirbæri:
3
Loftsteinadrífur:
Pí Puppítar
Zeta Puppítar
Puppít-Velítar
Sést frá Íslandi:
Að hluta

Uppruni

Skuturinn var upphaflega hluti af forngríska stjörnumerkinu Argó, skipi Argóarfaranna. Í skrá sinni yfir stjörnur á suðurhimninum skipti franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille þessu forna merki í þrennt: Skutinn, Seglið og Kjölinn, sem myndar meginhluta skipsins. Lacaille dvaldi á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku árin 1751-52 þar sem hann kortlagði suðurhimininn.

Stjörnur

Lacaille skipti ekki aðeins stjörnumerkinu Argó í þrennt heldur merkti hann stjörnurnar upp á nýtt en notaði til þess aðeins eitt grískt stafróf fyrir öll merkin þrjú. Þess vegna eru engar Alfa eða Beta stjörnur í Skutnum því tvær björtustu stjörnum Kjalarins fengu þá bókstafi.

 • ζ Puppis er bjartasta stjarna Skutsins (birtustig 2,21). Hún er í um 1.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er stundum kölluð Naos eftir gríska orðinu yfir skip. Zeta Puppis er blár reginrisi af gerðinni O4If. Hún er gríðarheit og ein fárra stjarna af O-gerð sem sjást með berum augum. Yfirborðshitastig hennar er líklega yfir 35.000°C. Stjarnan er 360.000 sinnum bjartari en sólin okkar en gefur að mestu frá sér útfjólublátt ljós svo að á sýnilega sviðinu er hún 20.000 sinnum bjartari. Hún er 60 sinnum massameiri en sólin og 17 sinnum breiðari. Eftir fáeinar milljónir ára breytist Zeta Puppis í rauðan reginrisa sem endar ævi sína sem sprengistjarna. Þegar hún springur verður hún bjartari en fullt tungl. Í leiðinni gæti hún myndað svarthol.

 • π Puppis er næst bjartasta stjarnan í Skutinum (birtustig 2,73). Hún er í um 810 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Pí Puppis er flokkuð sem reginrisi af gerðinni K3 Ib sem er búin með vetnisforða sinn og brennir nú helíumi í kjarna sínum. Hún hefur þess vegna þanist út og er nú 290 sinnum breiðari en sólin. Hitastig hennar hefur að sama skapi lækkað og er nú um 4.000°C sem gefur henni appelsínugulan lit. Pí Puppis er 19.000 sinnum bjartari en sólin og næstum 12 sinnum massameiri.

 • ν Puppis er fimmta bjartasta stjarna Skutsins (birtustig 3,17). Hún er í um 423 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Ny Puppis er risastjarna af gerðinni B8 sem er um 12.000°C heit og skín 1.340 sinnum skærar en sólin. Hún er 8,5 sinnum breiðari en sólin og fimm sinnum massameiri. Yfirborð hennar er að kólna enda er hún að þróast yfir í rauðan risa.

 • ξ Puppis er sjöunda bjartasta stjarnan í Skutinum (birtustig 3,35). Hún er í um 1.350 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Xí Puppis er reginrisi af gerðinni G6 sem er nokkur hundruð gráðum kaldari en sólin okkar en 8.300 sinnum bjartari. Hún er 120 sinnum breiðari en sólin og um átta sinnum massameiri. Xí Puppis er einnig þekkt sem Asmidiske.

Djúpfyrirbæri

Vetrarbrautarslæðan liggur í gegnum Skutinn svo í merkinu eru mörg áhugaverð djúpfyrirbæri, þar á meðal þrjú Messierfyrirbæri, allt lausþyrpingar.

 • Messier 46 er lausþyrping í um 5.400 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún sést frá Íslandi þótt hún komist ekki mjög hátt á himininn.

 • Messier 47 er lausþyrping í um 1.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún sést frá Íslandi en kemst aldrei mjög hátt á loft.

 • Messier 93 er lausþyrping í um 3.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þyrpingin rétt gægist upp yfir sjóndeildarhringinn frá Íslandi.

 • NGC 2451 er lausþyrping í um 850 ljósára fjarlægð. Þyrpingin er björt (birtustig 2,8) og sést með berum augum. Hún inniheldur um 40 stjörnur og er guli risinn c Puppis þeirra stærst. Talið er að þyrpingin sé um 36 milljóna ára gömul.

 • NGC 2477 er lausþyrping í um 3.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 5,8). Hún inniheldur um 300 stjörnur og er talin um 700 milljóna ára gömul.

 • Collinder 135 eða Pí Puppis þyrpingin er lausþyrping í um 840 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í henni eru fjórar stjörnur sem sjást allar með berum augum en Pí Puppis er þeirra björtust.

Loftsteinadrífur

Pí Puppítar eru loftsteinadrífa sem rekja má til halastjörnunnar 26P/Grigg-Skjellerup. Drífan sést aðeins á þeim árum þegar halastjarnan er í sólnánd á um það bil fimm ára fresti. Þá stendur hún yfir frá 18. til 25. apríl og er í hámarki í kringum 23. til 24. apríl. Þegar best lætur sést á fjórða tug loftsteina á klukkustund.

Zeta Puppítar og Puppítar-Velítar eru aðrar mun veikari loftsteinadrífur sem hafa geislapunkta í Skutinum.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Skuturinn
Stjörnumerkið Skuturinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Skutnum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Puppis the stern

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Puppis

 3. http://stars.astro.illinois.edu/sow/naos.html

 4. http://stars.astro.illinois.edu/sow/nupup.html

 5. http://stars.astro.illinois.edu/sow/asmidiske.html

 6. http://meteorshowersonline.com/showers/pi_puppids.html