Messier 47

Lausþyrping í Skutinum

  • Messier 47, lausþyrping, Skuturinn
    Lausþyrpingin Messier 47 í Skutinum. Mynd: Wikimedia Commons
Helstu upplýsingar
Tegund: Lausþyrping
Stjörnulengd:
07klst 46,6mín 
Stjörnubreidd:
-14° 30′
Fjarlægð:
1.600 ljósár
Sýndarbirtustig:
+4,2
Stjörnumerki: Skuturinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 2422

Ítalski stjörnufræðingurinn Giovanni Batista Hodierna uppgötvaði þyrpinguna fyrir árið 1654. Uppgötvun Hodiernas varð mönnum ekki kunn fyrr en árið 1984 þegar bók hans kom í leitirnar. Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þyrpinguna sjálfur 19. febrúar 1771 og sagði hana bjartari en nágrannaþyrpingin Messier 46.

Messier gaf upp ranga staðsetningu svo þyrpingin týndist. Þrátt fyrir það sá Caroline Herschel hana í tvígang snemma árs 1783 og bróðir hennar William uppgötvaði hana upp á eigin spýtur þann 4. febrúar 1785.

Messier 47 er í um 1.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er um 12 ljósár í þvermál og inniheldur um 50 stjörnur, sú bjartasta með birtustig +5,7. Þyrpingin er áætluð um 78 milljón ára gömul. Þyrpingin er mjög gisin á himninum. Bjartasta stjarnan er í litrófsflokki B2 og með birtustigið +5,7.

Á himninum

Messier 47 sést á íslenska stjörnuhimninum, þótt hún komist ekki mjög hátt á himininn. Best er að skoða hana rétt fyrir og í kringum miðnætti snemma í marsmánuði. Þá er Skuturinn nokkurn veginn á suðurhimni og hæst á lofti. Nota þarf stjörnukort af Skutinum til að finna hana.

Þyrpingin er í norðurhluta stjörnumerkisins, aðeins 1,5 gráðu vestur af Messier 46. Þyrpingarnar sjást báðar í sama sjónsviði handsjónauka. Best er að skoða Messier 47 í gegnum stjörnusjónauka við litla stækkun.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 47, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Messier_47

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 47. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-47 (sótt: DAGSETNING).