Messier 58

Bjálkaþyrilþoka í Meyjunni

  • Messier 58, bjálkaþyrilþoka, Meyjan
    Bjálkaþyrilþokan Messier 58 í Meyjunni. Mynd: NOAO/AURA/NSF
Helstu upplýsingar
Tegund: Bjálkaþyrilþoka
 Gerð: SAB(rs)b
Stjörnulengd:
12klst 37mín 43,5s
Stjörnubreidd:
+11° 49′ 05"
Fjarlægð:
68 milljón ljósár
Rauðvik:
z = 0,00506
Sjónstefnuhraði:
1517 ± 1 km/s
Sýndarbirtustig:
+10,5
Stjörnumerki: Meyjan
Önnur skráarnöfn:
NGC 4579

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þokuna 15. apríl 1779 auk sporvalanna M59 og M60 sem eru rétt hjá. M58 birtist á korti sem dregið var upp af halastjörnunni sem sást yfir Evrópu árið 1779. Messier lýsti þokunni sem mjög daufri en síðar, árið 1833, lýsti John Herschel henni sem mjög bjartri, sér í lagi við miðju.

Árið 1850 uppgötvaði Rosse lávarður þyrillögun þokunnar. Þyrilþokur ollu mönnum heilabrotum fram á 20. öld eða þar til Hubble og fleiri áttuðu sig á að þær voru langt fyrir utan okkar eigin vetrarbraut.

Messier 58 er í um 68 milljón ljósára fjarlægð. Hún er með björtustu vetrarbrautum Meyjarþyrpingarinnar, safni meira en 1.300 vetrarbrauta. Hún er bjálkaþyrilþoka eins og vetrarbrautin okkar en með virkan kjarna og telst því til Seyfert vetrarbrauta. Í miðjunni er risasvarthol sem gleypir mikið efni og gefur frá sér öfluga geislun.

Á himninum

Messier 58 sést vel frá Íslandi en best er að skoða hana þegar Meyjarmerkið er í suðri að áliðinni nóttu í febrúar, mars og snemma í apríl. Þokan er um sex gráður austan við stjörnuna Epsilon en gott er að nota stjörnukort af Meyjunni til að finna hana (staðsetja M60 og færa sjónaukann rólega til hægri).

Sýndarbirtustig Messier 58 er +10,5 svo nota þarf góðan stjörnusjónauka til að skoða hana. Lykilatriði er að vera fjarri allri ljósmengun. Því stærri sem sjónaukinn er, því meiri smáatriði sjást.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 58. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-58 (sótt: DAGSETNING).