Messier 59

Sporvöluþoka í Meyjunni

  • Messier 59, sporvöluþoka, Meyjan
    Sporvöluþokan Messier 59 í Meyjunni: Mynd: NOAO/AURA/NSF
Helstu upplýsingar
Tegund: Sporvöluþoka
 Gerð: E5
Stjörnulengd:
12klst 42mín 02,3s
Stjörnubreidd:
+11° 38′ 49"
Fjarlægð:
60 milljón ljósár
Rauðvik:
z = ?
Sjónstefnuhraði:
410 ± 6 km/s
Sýndarbirtustig:
+10,6
Stjörnumerki: Meyjan
Önnur skráarnöfn:
NGC 4621

Þjóðverjinn Jóhann Gottfried Koehler uppgötvaði þokuna 11. apríl árið 1779 og nágrannann Messier 60, þegar hann fylgdist með halastjörnu þess árs. Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier hafði líka verið að fylgjast með halastjörnunni þegar hann fann báðar vetrarbrautirnar fjórum dögum síðar, þann 15. apríl en líka Messier 58 sem Koehler tók ekki eftir.

Messier 59 tilheyrir Meyjarþyrpingunni, safni meira en 1.300 vetrarbrauta. Hún er í yfir 60 milljón ljósára fjarlægð og um 100.000 ljósár í þvermál. Um hana sveima um eða yfir 2.000 kúluþyrpingar. Hún fjarlægist okkur á 410 km hraða á sekúndu.

Á himninum

Messier 59 sést vel frá Íslandi en best er að skoða hana þegar Meyjarmerkið er í suðri að álíðinni nóttu í febrúar, mars og snemma í apríl. Þokan er um fjórar gráður austan við stjörnuna Epsilon en gott er að nota stjörnukort af Meyjunni til að finna hana og nágrannann M60.

Sýndarbirtustig Messier 59 er í kringum +10 svo nota þarf stjörnusjónauka til að skoða hana. Lykilatriði er að vera fjarri allri ljósmengun. Því stærri sem sjónaukinn er, því betra en þar sem um sporvöluþoku er að ræða sést lítið annað en þokumóða með bjartan kjarna sem dofnar til jaðranna.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 59. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-59 (sótt: DAGSETNING).