Áttavitinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Áttavitinn
    Kort af stjörnumerkinu Áttavitanum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Pyxis
Bjartasta stjarna: α Pyxidis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
10
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
Gliese 318
(30,1 ljósár)
Messier fyrirbæri:
Engin
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille bjó til stjörnumerkið Áttavitann þegar hann kortlagði suðurhimininn frá Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku árin 1751-52. Merkið er vitaskuld nefnt eftir tækinu sem sæfarendur og landkönnuðir þess tíma notuðu til að rata um heimshöfin.

Lacaille kallaði merkið upphaflega la Boussole upp á franska vísu en í annarri útgáfu stjörnukorts síns frá árinu 1763 hafði hann latneskað það í Pixis Nautica. Síðar var það stytt í Pyxis. Eðli málsins samkvæmt tengjast engar goðsögur merkinu enda þekktu forngrikkir ekki til áttavita.

Í dvöl sinni í Suður Afríku hafði Lacaille einnig skipt stjörnumerkinu Argo Navis upp í þrennt: Kjölinn, Seglið og Skutinn. Á himinhvelfingunni er Áttavitinn á þeim stað sem mastur fleysins Argo Navis ætti að vera. Árið 1844 lagði enski stjörnufræðingurinn John Herschel því til að Áttavitanum yrði skipt út fyrir nýtt stjörnumerki, Mastrið, en sú tillaga fékk ekki hljómgrunn.

Stjörnur

Allar stjörnur Áttavitans eru daufar. Sýndarbirtustig björtustu stjörnunnar, α Pyxidis, er +3,68 svo í flestum öðrum merkjum væri hún eins og hver önnur dauf stjarna. α Pyxidis er í um 850 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er bláhvitur risi af B1-gerð sem er yfir 20.000°C heitur, 18.000 sinnum bjartari en sólin, 8 sinnum breiðari og líklega 11 sinnum massameiri.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Áttavitinn
Stjörnumerkið Áttavitinn. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Í Áttavitanum er glæsileg hringþoka, NGC 2818.

Stjörnukort

Kort af stjörnumerkinu Áttavitanum í prentvænni útgáfu má nálgast hér.

Heimildir