Kjölurinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Kjölurinn
    Kort af stjörnumerkinu Kilinum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Carina
Bjartasta stjarna: Kanópus
Bayer / Flamsteed stjörnur:
52
Stjörnur bjartari +3,00:
6
Nálægasta stjarna:
LHS 288
(14,6 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Eta Carinítar
Alfa Carinítar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Kjölurinn var upphaflega hluti af forngríska stjörnumerkinu Argó, skipi Argóarfaranna. Í skrá sinni yfir stjörnur á suðurhimninum skipti franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille þessu forna merki í þrennt: Skutinn, Seglið og Kjölinn, sem myndar meginhluta skipsins. Lacaille dvaldi á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku árin 1751-52 þar sem hann kortlagði suðurhimininn.

Stjörnur

Í Kilinum eru margar stórar, bjartar og forvitnilegar stjörnur.

  • Kanópus (alfa Carinae) er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Kilinum og næst bjartasta stjarna næturhiminsins á eftir Síríusi í Stórahundi. Kanópus er reginrisi af gerðinni F, í um 310 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan sést ekki frá Íslandi.

  • Beta Carinae eða Miaplacidus er næst bjartasta stjarna Kjalarins og með björtustu stjörnum næturhiminsins (birtustig 1,68). Nafn hennar, Miaplacidus, merkir „stillt vötn“. Stjarnan er í um 111 ljósára fjarlægð frá jörðinni og fellur í litrófsflokk A2. Hún er næstum sex sinnum breiðari og þrisvar sinnum massameiri en sólin. Beta Carinae er hluti af samstirni nálægt suðurpól himins sem kallast Demantskrossinn.

  • Epsilon Carinae er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Kilinum og jafnframt ein af björtustu stjörnum himins (birtustig 1,86). Epsilon Carinae er í um 600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er tvístrni sem samanstendur af appelsínugulri risastjörnu af gerðinni K0 III (birtustig 2,2) og stjörnu af gerðinni B2 Vp. Stærri stjarnan er níu sinnum massameiri en sólin, en daufari stjarnan er meira en sjö sinnum massameiri en sólin.

  • Jóta Carinae eða Aspidiske er fjórða bjartasta stjarna stjörnumerkisins Kjalarins (birtustig 2,2). Hún er í um 690 ljósára fjarlægð frá jörðinni og flokkast sem A9 Ib stjarna sem þýðir að hún er reginrisi með fremur lítið ljósafl. Jóta Carinae er meira en sjö sinnum massameiri og ríflega 40 sinnum breiðari en sólin okkar. Hún er 4.900 sinnum bjartari en sólin og þó nokkuð heitari eða um 7.500°C.

  • Þeta Carinae er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Kilinum (birtustig 2,74) og hluti af samstirninu Demantskrossinum. Hún er í um 460 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þeta Carinae er stjarna af gerðinni B0.5 Vp sem segir okkur að hún sé blá-hvítglóandi og hafi sérkennileg einkenni í litrófi sínu. Stjarnan er um 15 sinnum massameiri, fimm sinnum breiðari og 25.000 sinnum skærari en sólin og yfir 30.000 gráðu heit.

  • V382 Carinae er gulur ofurrisi af gerðinni G0-4-Ia+ í um 8.900 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 3,93). Hún er 700 sinnum breiðari en sólin okkar og 20 sinnum massameiri en örlítið kaldari. V382 Carinae er meira en 400.000 sinnum bjartari en sólin.

  • Upsilon Carinae er tvístirni í um 1.400 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Kilinum. Hún er sjötta bjartasta stjarna Kjalarins og hluti af samstirninu Demantskrossinum. Bjartari stjarna kerfisins er reginrisi af gerðinni A8 Ib sem hefur klárað vetnisforða sinn og þróast af meginröð þar sem hún var stjarna af gerðinni O9 V. Hún er um 7.500°C heit. Förunauturinn er risastjarna af gerðinni B7 III. Sá er mun heitari eða yfir 20.000°C. Bilið milli stjarnanna er um 2.000 stjarnfræðieiningar og umferðartíminn yfir 19.000 ár.

  • Omega Carinae er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Kilinum (birtustig 3,3). Hún er í 342 ljósára fjarlægð frá jörðinni og hluti af samstirninu Demantskrossinum. Omega Carinae er af gerðinni B8 IIIe sem þýðir að hún er risastjarna, um 13.000°C heit með vetnisljómlínur í litrófi sínu (bókstafurinn e).

  • Eta Carinae er bjartur, blár ofurrisi í um 7.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Kilinum sem er um það bil að enda ævi sína sem sprengistjarna. Eta Carinae er ein massamesta stjarna sem þekkist í vetrarbrautinni okkar. Hún er tvístirni þar sem stærri stjarnan er rúmlega 100 sólmassar en förunauturinn um 30 sólmassar. Eta Carinae er án nokkurs vafa með stórkostlegustu stjörnum himinhvolfsins og í vetrarbrautinni okkar. Árið 1841 varð í henni hviða sem gerði hana að næst björtustu stjörnu himins í nokkur ár. Þá þeytti stjarnan frá sér miklu gasi og ryki og myndaði þoku sem kölluð er Litli maðurinn (e. Homunculus Nebula). Þokan er eins og hneta í laginu og sést vel í gegnum litla stjörnusjónauka frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

Kjalarþokan, Carina nebula, NGC 3372, Eta Carinae
Kjalarþokan í stjörnumerkinu Kilinum. Mynd: NASA/ESA

Vetrarbrautin gengur í gegnum Kjölinn svo í merkinu eru fjölmörg stórglæsileg djúpfyrirbæri.

  • Kjalarþokan er djásnið í Kilinum. Í þessari risavöxnu og glæsilegu ljómþoku, sem er í um það bil 7.500 ljósára fjarlægð og er 300 ljósár á breidd, eru ótal ungar lausþyrpingar og stjörnumyndunarsvæði. Miðsvæði þokunnar er kallað Skráargatið en það er sjó ljósár á breidd. Í því eru tvö stjörnumyndunarsvæði. Í þokunni er einnig stjarnan Eta Carinae.

  • NGC 2808 er kúluþyrping í rúmlega 30.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • NGC 3603 er lausþyrping í um 20.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • NGC 3532 er lausþyrping rúmlega 150 stjarna í um 1.320 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er stundum kölluð Óskabrunnsþyrpingin því í gegnum sjónauka minna stjörnurnar á klink á botni óskabrunns.

  • Demantskrossinn er samstirni fjögurra bjartra stjarna í Kilinum: Beta, Þeta, Upsilon og Omega Carinae. Stjörnurnar fjórar mynda næstum fullkomið demantamynstur á himninum og eru þess vegna kallaðar Demantskrossinn. Krossinn líkist mjög stjörnumerkinu Suðurkrossinn.

Loftsteinadrífur

Eta Carinítar eru lítilsháttar loftsteinadrífa sem sést milli 14. og 27. janúar ár hvert. Þegar drífan nær hámarki í kringum 21. janúar, sjást tveir til þrír loftsteinar á klukkustund. Drífan er nefnd eftir geislapunkti sínum sem er nálægt stjörnunni Eta Carinae.

Alfa Carinítar eru önnur lítilsháttar loftsteinadrífa sem sést milli 24. janúar og 9. febrúar ár hvert. Drífan nær hámarki í kringum 30. janúar og sjást þá jafnan tveir loftseinar á klukkustund.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Kjölurinn
Stjörnumerkið Kjölurinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Kilinum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Carina the Keel

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Carina_(constellation)

  3. Jim Kaler's Stars