Seglið

 • stjörnukort, stjörnumerki, Seglið
  Kort af stjörnumerkinu Seglinu
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Vela
Bjartasta stjarna: γ Velorum
Bayer / Flamsteed stjörnur:
50
Stjörnur bjartari +3,00:
5
Nálægasta stjarna:
Gliese 367
(32 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Delta Velítar
Gamma Velítar
Puppít-Velítar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Seglið var upphaflega hluti af forngríska stjörnumerkinu Argó, skipi Argóarfaranna. Í skrá sinni yfir stjörnur á suðurhimninum skipti franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille þessu forna merki í þrennt: Skutinn, Seglið og Kjölinn, sem myndar meginhluta skipsins. Lacaille dvaldi á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku árin 1751-52 þar sem hann kortlagði suðurhimininn.

Stjörnur

Lacaille skipti ekki aðeins stjörnumerkinu Argó í þrennt heldur merkti hann stjörnurnar upp á nýtt en notaði til þess aðeins eitt grískt stafróf fyrir öll merkin þrjú. Þess vegna eru engar Alfa eða Beta stjörnur í Seglinu því tvær björtustu stjörnum Kjalarins fengu þá bókstafi.

 • γ Velorum er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Seglinu og ein bjartasta stjarna næturhimnsins (birtustig 1,7). Hún er líklega fjölstirni (sex stjörnur) í um 1.100 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartasta stjarnan, Gamma Velorum A, er litrófstvístirni sem samanstendur af bláum reginrisa af gerðinni O9 sem er 30 sólmassar og stórri Wolf-Rayet stjörnu sem er um 10 sólmassar. Umferðartími parsins er 78,5 dagar og bilið milli þeirra ein stjarnfræðieining.

 • δ Velorum er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Seglinu (birtustig 1,96). Hún er þrístirni í um það bil 81 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartasta stjarna þríeykisins er af gerðinni A1 og er 2,6 sinnum stærri en sólin að massa, 2,5 sinnum breiðari og 56 sinnum bjartari.

 • λ Velorum er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Seglinu (birtustig 2,21) í um 545 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er flokkuð sem stjarna af gerðinni K4.5 Ib-II sem þýðir að hún er mitt á milli þess að vera bjartur risi og reginrisi. Vetnisforði stjörnunnar er uppurinn og framleiðir hún orku sína með helíumsamruna. Hún er 8,5 sinnum massameiri en sólin, 207 sinnum breiðari og 10.000 sinnum bjartari.

 • κ Velorum er litrófstvístirni í um 572 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Seglinu (birtustig 2,48). Tvíeykið samanstendur líklega af tveimur risastjörnum af gerðinni B með 116 daga umferðartíma.

Djúpfyrirbæri

Í Seglinu eru nokkur forvitnileg djúpfyrirbæri.

 • NGC 3132 eða Átta-blossa þokan er hringþoka í um 2.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • Sprengistjörnuleifin í Seglinu (e. Vela Supernova Remnant) leifar stjörnu sem sprakk fyrir um 12.000 árum í um 800 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í leifinni er tifstjarna sem ástralskir stjörnufræðingar uppgötvuðu árið 1968 og kennd er við stjörnumerkið (gengur líka undir skráarheitinu PSR B0833-45). Með uppgötvun hennar fékkst staðfesting að nifteindastjörnur verða til í sprengistjörnum. NGC 2736 eða Blýantsþokan er hluti af þessari sprengistjörnuleif.

 • Gumþokan (Gum 12) er mjög stór ljómþoka sem er í á bilinu 450 til 1.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þokan er nefnd eftir ástralska stjörnufræðingnum Colin Stanley Gum (1924-1960) sem gaf út skrá sína yfir daufar geimþokur árið 1955.

 • Falski krossinn er samstirni sem svo er nefnt vegna þess að því er gjarnan ruglað saman við stjörnumerkið Suðurkrossinn. Stjörnurnar delta Velorum, kappa Velorum, jóta Carinae og epsilon Carinae mynda Falska krossinn.

Loftsteinadrífur

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Seglið
Stjörnumerkið Seglið og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Þrjár loftsteinadrífur draga nafn sitt af stjörnumerkinu Seglinu: Gamma Velítar, Delta Velítar og Puppít-Velítar. Allt eru þetta minniháttar drífur þar sem aðeins sjást tveir til fjórir loftsteinar á klukkustund. Gamma Velítar sjást milli 1. til 15. janúar ár hvert og eru í hámarki 5. janúar. Delta Velítar sjást milli 22. til 21. febrúar ár hvert og ná hámarki 5. febrúar. Puppít-Velítar er „öflugasta“ drífan. Þeir sjást milli 2. og 16. desember og ná hámarki 12. desember ár hvert.

Stjörnukort

Stjörnukort af Seglinu í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Vela the sails

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Vela_(constellation)

 3. JIm Kaler's Stars