Einhyrningurinn

 • einhyrningurinn, monoceros, stjörnumerki
  Stjörnumerkið Einhyrningurinn. Mynd: IAU, S&T og Stjörnufræðivefurinn
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Monoceros
Bjartasta stjarna: β Monocerotis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
32
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
Ross 614
(13,3 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:

Uppruni

Stjörnumerkið Einhyrningurinn birtist fyrst á hnattlíkani hollenska kortagerðamannsins Petrus Plancius árið 1612. Plancius var guðfræðingur að mennt og virðist hafa búið merkið til vegna þess að einhyrningar birtast oft í Gamla Testamenti Biblíunnar.

Engar goðsagnir tengjast Einhyrningnum.

Stjörnur

Einhyrningurinn fyllir upp í allstórt svæði milli Vatnaskrímslisins og Óríons þar sem ekkert grískt stjörnumerki var áður. Merkið er hins vegar ekki mjög áberandi enda eru björtustu stjörnur þess af fjórða birtustigi.

 • α Monocerotis er næst bjartasta stjarna Einhyrningsins (birtustig +3,93). Stjarnan fellur í litrófsflokk G og er í um 144 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er tvisvar sinnum massameiri en sólin en tíu sinnum breiðari og örlítið kaldari.

 • β Monocerotis er bjartasta stjarna Einhyrningsins (birtustig +3,92). Hún er í um 690 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er þrístirni og eru allar þrjár mjög heitar bláhvítar stjörnur í litrófsflokki B, miklu stærri, bjartari og heitari en sólin okkar.

 • V838 Monocerotis er breytileg rauð risastjarna í um 20.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þann 6. janúar 2002 hófst í henni hviða sem hafði aukið birtu hennar tíu þúsundfalt mánuði síðar. Eftir hviðuna var Hubblessjónaukanum beint að stjörnunni og sá hann bergmál ljóssins sm lýsti upp ryk í kringum stjörnuna.

 • Stjarna Plasketts (HR 2422) er litrófstvístirni í um 6.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Einhyrningnum (birtustig 6,05). Heildarmassi kerfisins er um 100 sólmassar og því er hér um að ræða eitt allra massamesta tvístirnakerfi sem vitað er um. Báðar stjörnur kerfsins eru risastjörnur af O-gerð, yfir 30.000°C heitar og meira en 50 sinnum massameiri en sólin. Þær snúast um sameiginlega massamiðju á rétt rúmum 14 dögum. Kerfið er nefnt eftir kanadíska stjörnufræðingnum John Stanley Plaskett sem uppgötvaði það árið 1922.

 • Ross 614 er rauður dvergur í aðeins 13,3 ljósára fjarlægð. Stjarnan er ein sú nálægasta við sólina okkar.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, Einhyrningurinn
Stjörnumerkið Einhyrningurinn. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Einhyrningurinn er í vetrarbrautarslæðunni og geymir því mörg forvitnileg djúpfyrirbæri.

 • Messier 50 er lausþyrping í um 3.200 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún nýtur sín best í gegnum stjörnusjónauka við litla stækkun en hægt er að sjá hana með handsjónauka. Við bestu aðstæður er hún sjáanleg með berum augum.

 • Rósettuþokan er stór ljómþoka með lausþyrpingu í miðjunni í um 5.200 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er víðfeðm og sést ekki vel í gegnum stjörnusjónauka.

 • NGC 2261 er endurskinsþoka í um 2.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er líka kölluð Breytiþoka Hubbles.

 • NGC 2264 er ljómþoka í um 2.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er stór og eru mismunandi hlutar hennar kallaðir Keiluþokan, sem er ljóm- og skuggaþoka, og Jólatrésþyrpingin sem er lausþyrping um það bil 40 stjarna.

 • NGC 2346 er hringþoka í um 2.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er stundum kölluð Fiðrildaþokan.

 • Monoceros R2 er stjörnumyndunarsvæði í um 2.700 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Stjörnukort

Stjörnukort af Einhyrningnum í prentvænni útgáfu má nálgast hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Monoceros the Unicorn

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Monoceros

 3. VISTA kannar leyndardóm Einhyrningsins

 4. http://stars.astro.illinois.edu/sow/alphamon.html

 5. http://stars.astro.illinois.edu/sow/betamon.html