Fljótið

 • stjörnukort, stjörnumerki, Fljótið
  Kort af stjörnumerkinu Fljótinu
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Eridanus
Bjartasta stjarna: α Eridani
Bayer / Flamsteed stjörnur:
87
Stjörnur bjartari +3,00:
4
Nálægasta stjarna:
ε Eridani
(10,5 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Að hluta

Uppruni

Stjörnumerkið Fljótið hefur þekkst lengi. Grikkinn Eratosþenes frá Kýrenu sagði merkið tákna Nílarfljót sem rennur frá suðri til norðurs, þótt merkið sé sýnt renna frá norðri til suðurs. Til að bæta frekar á ruglinginn var merkið síðar tengt við ána Pó, sem rennur frá vestri til austur yfir norður Ítalíu.

Í grískri goðafræði kemur fljótið Eridanos fram í sögunni af Faeþón, syni sólarguðsins Helíosar. Á íslensku útgáfu Wikipediu kemur eftirfarandi fram um Faeþón og Eridanos:

„Er [Faeþós] var frumvaxta, gekk hann fyrir föður sinn í sólarhöllinni og beiddist þess að fá leyfi til að aka sólarvagninum einn dag. En sveininn skorti afl til að stjórna hinum flugólmu gæðingum. Svifu þeir of nærri jörðinni, og lá við sjálft, að hún brynni upp í loga sólar. Til að afstýra frekari ófarnaði laust Seifur Faeþón reiðarslagi, og steyptist hann niður í fljótið Eridanos. Systur hans grétu hann, uns þær urðu að öspum, en tár þeirra að rafi.“

Fljótið er langt stjörnumerki, hið sjötta stærsta á himninum. Upptök þess eru við fót Óríons en það bugðast langt niður á suðurhvel himins og er mynnið við stjörnumerkið Túkaninn.

Fljótið birtist fyrst á því formi sem við þekkjum í dag á hnattlíkani hollensku kortagerðarmannanna Petrusar Plancius og Jodocusar Hondius árið 1598. Merkið bjuggu þeir til út frá athugunum landa sinna Pieter Dirkszoon Keyser og Frederick de Houtmann sem siglt höfðu til Austur Indía í fyrstu leiðangrum Hollendinga þangað.

Stjörnur

 • α Eridani eða Achernar er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Fljótinu (birtustig 0,45) og ein bjartasta stjarna næturhiminsins. Achernar er björt, blá meginraðarstjarna, um það bil sex til átta sólmassar, af gerðinni B6. Samkvæmt hliðrunarmælingum evrópska gervitunglsins Hipparkosar er hún í 139 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Achernar snýst svo ógnarhratt að hún er 56% breiðari við miðbaug en pólana. Hún er því fremur eins og egg í laginu en hnöttur. Vegna lögunarinnar er töluverður hitamunur á breiddargráðum. Við pólana er hitastigið sennilega yfir 20.000°C en við miðbaug er það um 10.000°C. Meðalhiti stjörnunnar er um 15.000°C. Hitastigið við pólana knýr öfluga pólvinda sem varpa rafgasi frá stjörnunni og mynda mikinn hjúp um hana sem kemur fram á innrauðum ljósmyndum. Nafnið Achernar er arabískt og merkir „fljótsmynnið“. Achernar er svo sunnarlega á himinhvolfinu að hún sést ekki frá Íslandi. Hún er meira en 3.000 sinnum bjartari en sólin.

 • β Eridani eða Cursa er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Fljótinu (birtustig 2,8). Stjarnan er við norðausturenda merkisins, við mörk Fljótsins og Óríons. Cursa er í um 89 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er risastjarna af gerðinni A3, um 8.000°C heit, tvöfalt breiðari og massameiri en sólin og 25 sinnum bjartari. Nafnið Cursa merkir „stóll“.

 • γ Eridani eða Zaurak (báturinn) er þriðja bjartasta stjarna Fljótsins (birtustig 2,95). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni M0.5 í um 150 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • δ Eridani eða Rana (froskurinn) er fjórða bjartasta stjarnan í Fljótinu (birtustig 3,5). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni K0 sem þýðir að hún er að þróast yfir í rauðan risa. Stjarnan er í 29 ljósára fjarlægð frá jörðinni og 30% massameiri en sólin, tvisvar sinnum breiðari og þrisvar sinnum bjartari.

 • ε Eridani er tíunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Fljótinu (birtustig 3,73). Hún er í aðeins 10,5 ljósára fjarlægð frá jörðinni og því ein nálægasta fastastjarnan á himinhvolfinu. Epsilon Eridani er meginraðarstjarna af gerðinni K2. Hún er 83% af massa sólar, 74% af breiddinni en aðeins 32% af birtunni og nokkur hundruð gráðum kaldari eða um 5.000°C. Fundist hafa merki um tvö smástirnabelti í kringum stjörnuna og hugsanlega tvær reikistjörnur, önnur gasrisi á stærð við Júpíter en hin töluvert minni. Vegna nálægðar og líkinda við sólina hafa stjörnufræðingar reynt að hlusta eftir lífi við Epsilon Eridani en án árangurs.

 • η Eridani eða Azha er stjarna í stjörnumerkinu Fljótinu (birtustig 4,1). Hún er af gerðinni K0 og er í um 121 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • θ Eridani eða Acamar er stjarna við enda stjörnumerkisins Fljótsins (birtustig 3,2). Hún er tvístirni í um 120 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartari stjarnan, þeta1 Eri, er af gerðinni A4, um 2,6 sinnum massameiri, 16 sinnum breiðari og 96 sinnum bjartari en sólin. Daufari stjarnan, þeta1 Eri, er af gerðinni A1, um tvisvar sinnum massameiri og 36 sinnum bjartari en sólin.

 • Omicron1 Eridani eða Beid er stjarna í stjörnumerkinu Fljótinu (birtustig 4,04). Hún er risastjarna af gerðinni F2 í um 125 ljósára fjarlægð frá sólinni.

 • Omicron2 Eridani eða Keid (einnig þekkt sem 40 Eridani) er þrístirni í um 16 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Fljótinu (birtustig 4,4). Bjartasta stjarna þríeykisins, 40 Eridani A, er appelsínugul meginraðarstjarna af gerðinni K1. Fylgistjörnur hennar, 40 Eridani B og 40 Eridani C, eru annars vegar hvítur dvergur af 9. birtustigi og hins vegar rauður dvergur af 11. birtustigi. 40 Eridani A er 84% af massa sólar, 81% af breidd hennar og 46% af ljósaflinu. Hún er um 5.000°C heit.

 • τ2 Eridani eða Angetenar (sveigja fljótsins) er stjarna í stjörnumerkinu Fljótinu (birtustig 4,75). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K0 í um 182 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • υ2 Eridani er eða Theemim stjarna í stjörnumerkinu Fljótinu (birtustig 3,8). Hún er risastjarna af gerðinni G8 í um 209 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er 38% massameiri og 11 sinnum breiðari en sólin.

 • 53 Eridani er stjarna í stjörnumerkinu Fljótinu (birtustig 3,9). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K2 í um 109 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan ber einnig nafnið Sceptrum sem þýðir veldissprotinn enda var hún ein bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sceptrum Brandenburgicum sem ekki er til lengur.

Djúpfyrirbæri

IC 2118, nornahöfuðið, geimþoka
Nornahöfuðþokan IC 2118. Mynd: NASA/STScI Digitized Sky Survey/Noel Carboni

Þótt Fljótið sé með stærstu stjörnumerkjum himins eru þar ekki ýkja mörg markverð djúpfyrirbæri. Fljótsþyrpingin, þyrping hér um bil 200 vetrarbrauta í um 75 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni, dregur nafn sitt af stjörnumerkinu. Í henni eru meðal annars NGC 1232, þyrilvetrarbraut í um 60 milljóna ljósára fjarlægð og NGC 1300 sem er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 61 milljóna ljósára fjarlægð.

 • NGC 1309 er þyrilvetrarbraut í um 120 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er örlítið minni en vetrarbrautin okkar.

 • NGC 1535 er hringþoka sem líkist mjög Eskimóaþokunni. Hún er í um 1.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • IC 2118 eða Nornahöfuðþokan er dauf endurskinsþoka sem talin er leifar sprengistjörnu sem reginrisastjarnan Rígel í Óríon lýsir upp. Þokan er í um 900 ljósára fjarlægð frá jörðinni og sést best á ljósmyndum.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Fljótið
Stjörnumerkið Fljótið og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Fljótinu í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Eridanus the river

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Eridanus_(constellation)