Ofninn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Ofninn
    Kort af stjörnumerkinu Ofninum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Fornax
Bjartasta stjarna: α Fornacis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
27
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
LP 944-20
(16,2 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Ofninn er eitt þeirra stjörnumerkja sem franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille bjó til eftir dvöl sína á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku, þar sem hann var við stjörnuathuganir árin 1751-52.

Lacaille nefndi merkið upphaflega le Fourneau á stjörnuskífu sinni frá árinu 1756 en breytti því síðar í Fornax Chemica eða Efnaofninn sem notaður var til að hita upp sýni og til eimingar.

Engar goðsögur tengjast merkinu.

Stjörnur

Í Ofninum eru engar stjörnur bjartari en fjórða birtustig og engar bera formleg nöfn.

  • α Fornacis er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ofninum (birtustig 3,9). Hún er í aðeins 46 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Alfa Fornacis er undirmálsstjarna af gerðinni F8 IV sem er 33% massameiri en sólin, tvisvar sinnum breiðari og næstum fimm sinnum bjartari. Hún er nokkuð heitari en sólin eða um 6.000°C.

  • β Fornacis er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ofninum (birtustig 4,5). Hún er risastjarna af gerðinni G8.5 IIIb, ellefu sinnum breiðari en sólin og í um 169 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

Í Ofninum eru nokkur áhugaverð djúpfyrirbæri.

NGC 1365 er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 56 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er hluti af þyrpingu 58 vetrarbrauta sem kennd er við stjörnumerkið Ofninn (Fornax Cluster eða Ofnþyrpingin). Í þyrpingunni eru einnig NGC 1316, linsulaga vetrarbraut sem einnig er björt útvarpslind og kölluð Fornax A; þyrilvetrarbrautin NGC 1350 og sporvöluvetrarbrautirnar NGC 1399, NGC 1404 og NGC 1427.

Hubble Ultra Deep Field ljósmynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA var tekin af svæði í stjörnumerkinu Ofninum. Á myndinni er UDFj-39546284, ein fjarlægasta vetrarbraut sem sést hefur í alheiminum.

NGC 1049 er kúluþyrping í um 630.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni sem tilheyrir dvergvetrarbraut.  

NGC 1097 er glæsileg bjálkaþyrilvetrarbraut í um 45 milljóna ljósára fjarlægð.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Ofninn
Stjörnukort af Ofninum og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Ofninum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Fornax the furnace

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Fornax