Svanurinn

 • stjörnukort, stjörnumerki, Svanurinn
  Kort af stjörnumerkinu Svaninum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Cygnus
Bjartasta stjarna: Deneb
Bayer / Flamsteed stjörnur:
84
Stjörnur bjartari +3,00:
4
Nálægasta stjarna:
61 Cygni
(11,4 ljósár)
Messier fyrirbæri:
2
Loftsteinadrífur:
Október Cygnítar
Kappa Cygnítar
Sést frá Íslandi:

Keplerssjónauki NASA starir á stórt svæði í svansmerkinu í leit að fjarreikistjörnum.

Uppruni

Goðsögurnar um Svaninn eru nokkuð á reiki. Sumir segja hann Seif í dulargervi þegar hann dró Ledu, móður Helenu fögru frá Tróju, á tálar og rændi henni frá Spörtu. Aðrir telja hann Orfeus sem var breytt í svan eftir dauða sinn og komið fyrir á himininn nærri hörpunni sinni.

Á himnum flýgur Svanurinn suður eftir vetrarbrautinni.

Stjörnur

Stjörnur Svansins eru allar tiltölulega bjartar, flestar af öðru til fjórða birtustigi.

 • α Cygni eða Deneb er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Svaninum og ein bjartasta stjarna næturhiminsins (birtustig 1,25). Hana er að finna í stéli svansins enda merkir nafn hennar, sem er arabískt, „stél“. Deneb er björt, blá reginrisastjarna af gerðinni A2 í um 1.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er sennilega í kringum 20 sinnum massameiri en sólin og 203 sinnum breiðari. Deneb er ein bjartasta stjarnan í vetrarbrautinni okkar, líklega 196.000 sinnum bjartari en sólin okkar. Stærðar sinnar vegna mun hún enda ævi sína sem sprengistjarna eftir örfáar milljónir ára. Deneb er hluti af Sumarþríhyrningnum ásamt Vegu í Hörpunni og Altair í Erninum. Þess má geta að Deneb er norðurpólstjarna á Mars.

 • γ Cygni er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Svaninum (birtustig 2,23). Hún er björt, gulhvít reginrisastjarna af gerðinni F8 í um 1.800 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er rúmlega tólf sinnum massameiri en sólin, 150 sinnum breiðari og ríflega 33.000 sinnum bjartari. Gamma Cygni er í miðju svansins og ber nafn samkvæmt því, Sadr, sem þýðir „bringa“.

 • ε Cygni er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Svaninum (birtustig 2,48). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K0 í um 73 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Epsilon Cygni er um það bil tvöfalt massameiri en sólin, næstum ellefu sinnum breiðari og 62 sinnum bjartari. Hún er í vesturvæng svansins og ber nafn samkvæmt því, Gienah, sem þýðir „vængur“.

 • δ Cygni er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Svaninum (birtustig 2,87). Hún er þrístirni í um 165 ljósára fjarlægð frá jörðinni sem samanstendur af tveimur stjörnum sem eru þétt saman og einni sem er mun lengra í burtu. Bjartasta stjarna kerfisins er bláhvít risastjarna af gerðinni B9. Nálægt henni er gulhvít meginraðarstjarna af gerðinni F1. Lengra í burtu er þriðja stjarnan sem appelsínugul dvergstjarna af K-gerð. Delta Cygni er í austurvæng svansins en ber merkilegt nokk ekkert formlegt nafn.

 • β Cygni eða Albíreó er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Svaninum (birtustig 3,0). Við fyrstu sýn virðist sem Albíreó sé stök stjarna en við nánari skoðun sést að hún er stórglæsilegt tvístirni, þar sem bjartari stjarnan er gulbrún (birtustig 3,1) en sú daufari blágræn (birtustig 5,1). Albíreó er raunar eitt fallegasta tvístirni himinsins því litamunurinn er augljós svo sumir kalla tvíeykið tópas og safír. Bjartari stjarnan er appelsínugulur risi af gerðinni K3, fimm sinnum massameiri en sólin, 70 sinnum breiðari og 1.200 sinnum skærari. Daufari stjarnan er meginraðarstjarna af gerðinni B8, rúmlega þrisvar sinnum massameiri og breiðari en sólin og 230 sinnum bjartari. Albíreó er í um 380 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Ekki er vitað með vissu hvort stjörnurnar snúist í raun hvor um aðra, eða hvort um sé að ræða sýndartvístirni, þ.e. tvær stjörnur í sömu sjónlínu fyrir tilviljun. Séu um raunverulegt tvístirni að ræða er umferðartíminn að minnsta kosti 100.000 ár. Nafnið Albíreó er í raun hálfgerð mistök. Í 16. aldar útgáfu Almagest, rits Ptólmæosar, var nafnið skrifað „ab ireo“ sem ekki er vitað hvað þýðir. Arabar kölluðu hana „Al Minhar al Dajajah“ sem þýðir „goggur hænunnar“.

 • ζ Cygni er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Svaninum (birtustig 3,26). Hún er tvístirni í um 143 ljósára fjarlægð. Bjartari stjarna kerfisins er risastjarna af gerðinni G8, um þrisvar sinnum massameiri en sólin, 15 sinnum breiðari og 112 sinnum bjartari. Förunauturinn er hvítur dvergur með tæplega 18 ára umferðartíma.

 • τ Cygni er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Svaninum (birtustig 3,8). Hún er tvístirni sem samanstendur af gulhvítri undirmálsstjörnu af gerðinni F2 og gulri meginraðarstjörnu af gerðinni G0. Sú síðarnefnda líkist sólinni okkar að stærð, yfirborðshitastig og birtu. Tá Cygni er í um 69 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • π Cygni er björt, blá risastjarna af gerðinni B3 í stjörnumerkinu Svaninum (birtustig 4,23). Hún er í rúmlega 1.100 ljósára fjarlægð frá jörðinni og um 2.200 sinnum bjartari en sólin. Pí Cygni ber einnig nafnið Pennae Caudalis sem þýðir „Stélfjaðrirnar“.

 • χ Cygni er breytistjarna af Mírugerð í um 345 ljósára fjarlægð frá jörðinni stjörnumerkinu Svaninum. Birtusveiflur hennar eru með þeim mestu sem þekkjast en hún getur náð birtustigi 3,3 og dofnað svo niður í birtustig 14,2 á rúmum 400 dögum. Chi Cygni er risastjarna, 316 sinnum breiðari en sólin og meira en 7000 sinnum bjartari.

 • KY Cygni er rauður reginrisi af gerðinni M3,5 í um 5.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni stjörnumerkinu Svaninum (birtustig 10,77). Stjarnan er með stærstu stjörnum sem vitað er um, um 1420 sinnum breiðari en sólin en líka ein sú bjartasta, að minnsta kosti 300.000 sinnum bjartari en sólin.

 • Cygnus X1 er fræg röntgenlind í rúmlega 6.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Svaninum. Röntgenlindin uppgötvaðist árið 1964 og má rekja til svarthols sem er næstum 15 sinnum massameira en sólin, við bláa reginrisastjörnu (HDE 226868) af gerðinni O9,7. Aðeins 0,2 stjarnfræðieiningar skilja svartholið og stjörnuna að en þau snúast um sameiginlega massamiðju á aðeins 5,6 dögum. Risastjarnan er 14-16 sinnum massameiri en sólin, ríflega 20 sinnum breiðari og 300.000 sinnum bjartari. Svartholið myndaðist líklega þegar stærri stjarnan í þessu kerfi sprakk fyrir nokkrum milljónum ára. Svartholið sýgur til sín efni frá risastjörnunni svo úr verður aðsópskringla í kringum svartholið. Efnið í henni snýst ógnarhratt og hitnar upp í nokkrar milljónir gráða og gefur þá frá sér röntgengeislun.

 • Kepler-22 er meginraðarstjarna af gerðinni G5 í stjörnumerkinu Svaninum (birtustig 11,7). Hún er örlítið minni og kaldari en sólin okkar og er í um 620 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í desember árið 2011 tilkynntu stjörnufræðingar að Kepler geimsjónaukinn hefði fundið fjarreikistjörnu, Kepler-22b, í lífbelti stjörnunnar sem líklega er bergreikistjarna.

Djúpfyrirbæri

Norður Ameríkuþokan, NGC 7000, ljómþoka
Norður Ameríkuþokan í stjörnumerkinu Svaninum. Mynd: Digitized Sky Survey/Davide De Martin

Vetrarbrautarslæðan liggur í gegnum Svaninn svo þar eru fjölmörg áhugaverð djúpfyrirbæri.

 • Messier 29 er lausþyrping í um 6.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún sést leikandi með handsjónauka en nýtur sín best í stjörnusjónaukum við litla stækkun.

 • Messier 39 er lausþyrping í um 800 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún sést með berum augum en nýtur sín betur í gegnum handsjónauka eða stjörnusjónauka við litla stækkun, vegna þess hve gisin hún er.

 • NGC 6826 er hringþoka í um 2.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er nokkuð björt og sést í gegnum litla áhugamannasjónauka.

 • NGC 6888 er ljómþoka í um 5.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í miðju þokunnar er Wolf-Rayet stjarna sem hefur varpað miklu magni efnis frá sér í gegnum tíðina og myndað þokuna.

 • Slörþokan er sprengistjörnuleif í um 1.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þokan er víðfeðm og bera mismunandi hlutar hennar mismunandi skráarheiti. Slörþokan sést í gegnum alla áhugamannasjónauka en best er að nota sjónauka með vítt sjónsvið og litla stækkun.

 • NGC 7000 eða Norður Ameríkuþokan er ljómþoka í um 1.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þokan er skammt frá Deneb, björtustu stjörnu merkisins í stéli svansins. Þokan dregur nafn sitt af því, að hún líkist meginlandi Norður Ameríku.

 • NGC 7027 er hringþoka í um 3.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er fremur lítil og nokkuð dauf en sést ágætlega í gegnum litla stjörnusjónauka.

Loftsteinadrífur

Október Cygnítar er lítilsháttar loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 22. september til 11. október. Drífan er í hámarki milli 4. til 9. október. Október Cygnítar eru daufir og koma helst fram á ljósmyndum og við útvarpsmælingar.

Kappa Cygnítar er minniháttar loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 26. júlí til 1. september. Drífan er í hámarki í kringum 18. ágúst og sjást þá hér um bil sex loftsteinar á klukkustund. Drífan dregur nafn sitt af því, að geislapunktur hennar er nálægt stjörnunni Kappa í Svaninum.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Svanurinn
Stjörnumerkið Svanurinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Svaninum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Cygnus the swan

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Cygnus_(constellation)

 3. http://meteorshowersonline.com/showers/october_cygnids.html

 4. http://meteorshowersonline.com/showers/kappa_cygnids.html