Tilkynningar

Fyrirlestur um rannsóknir á norðurljósum á Íslandi

Sævar Helgi Bragason 29. ágú. 2013 Tilkynningar

Miðvikudaginn 4. september 2013 heldur Natsuo Sato, prófessor við Pólrannsóknastofnun Japans, fyrirlestur um rannsóknir japanskra og íslenskra vísindamanna á norðurljósunum síðastliðin þrjátíu ár. Fyrirlesturinn fer fram á ensku í hátíðasal Háskóla Íslands og hefst klukkan 16:00. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

Rannsóknir á norðurljósum á Íslandi í 30 ár

norðurljós, Jökulsárlón
Norðurljós yfir Jökulsárlóni. Mynd: Snævarr Guðmundsson

Prófessor Natsuo Sato
Pólrannsóknastofnun Japans

Ágrip: Undanfarin 30 ár hafa athuganir á norðurljósum verið gerðar frá þremur stöðum á Íslandi í samstarfi japönsku Pólrannsóknastofnunarinnar og Raunvísindastofnunar Háskólans. Rannsóknarstöð Japana í Syowa á Suðurskautslandinu og stöðvarnar á Íslandi þykja kjörnar til rannsókna á gagnstæðum segulljósum.

Gagnstöðupunktar eru staðir sem tilteknar jarðsegulsviðslínur tengja á norður- og suðurhveli. Segulsviðslínur á pólsvæðum jarðar tengjast annað hvort við gagnstætt hvel (lokaðar segulsviðslínur) eða geimsegulsviðið (opnar segulsviðslínur). Hlaðnar agnir frá sólinni ferðast eftir þessum línum og því er stundum talað um að norður- og suðurljósin séu spegilmyndir hvors annars. Þrjátíu ára rannsóknir sýna hins vegar að spegluð norðurljós eru fátíð.

Mælingar á gagnstæðum segulljósum veita einstakt tækifæri til rannsókna á því hvar og hvernig hinar ósýnilegu segulsviðslínur tengja jarðarhvelin; hvaða áhrif sólvindurinn hefur á segulhvolf jarðar og á eðli hröðunarferla norðurljósa.

Mjög fáir heppilegir athugunarstaðir eru á suðurhveli sem takmarkar mjög gagnstöðuathuganir á jörðu niðri. Gera þarf sjónmælingar samtímis frá tveimur gagnstöðupunktum á jörðinni, en til þess þurfa báðar athugunarstöðvarnar að vera í myrkri og veður þarf að vera hagstætt. Þrátt fyrir þessar takmarkanir hafa margir áhugaverðir segulljósaatburðir greinst.

Í erindinu verður fjallað almennt um norðurljós, gagnstæð segulljós og þrjátíu ára sögu norðurljósarannsókna Japana á Íslandi. Að auki verður rætt um fyrirbæri eins og norðurljósaslit, norðurljósaperlur og blikótt norðurljós. Fjöldi mynda og myndskeiða verður sýndur.

Upplýsingar um viðburð

  • Viðburður: Fyrirlestur um norðurljós og rannsóknir á norðurljósum á Íslandi í 30 ár

  • Hvar: Hátíðasalur Háskóla Íslands (Aðalbygging)

  • Hvenær: Miðvikudagur 4. september kl. 16:00

Tenglar