Tilkynningar

Fyrirlestur um nýjustu rannsóknir í öreindafræði

Sævar Helgi Bragason 06. sep. 2013 Tilkynningar

Þriðjudaginn 10. september 2013 flytur David Gross, prófessor í eðlisfræði við Kavli-stofnunina í Kaliforníuháskóla í Santa Barbara og handhafi Nóbelsverðlauna í eðlisfræði árið 2004, fyrirlestur um nýjustu rannsóknir í öreindafræði og strengjafræði. Fyrirlesturinn fer fram á ensku í hátíðasal Háskóla Íslands og hefst klukkan 15:30. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

Grundvallareðlisfræði framtíðarinnar

Ágrip: Öreindafræðin fjallar um innstu gerð efnisheimsins og víxlverkanir milli efnisagna. Farið verður almennt yfir stöðu þekkingar í öreindafræði og helstu spurningar sem þar er leitað svara við. Fjallað verður um uppgötvanir sem tengjast Large Hadron Collider hraðlinum í Cern og rætt um stöðu strengjafræðinnar, sem er metnaðarfull kenning þar sem staðallíkan öreindafræðinnar og þyngdarfræði almennu afstæðiskenningarinnar eru fléttaðar saman og hinar ýmsu öreindir og kraftsvið náttúrunnar svara til mismunandi tóna sem slegnir eru á örsmáa strengi. Kenningin er hinsvegar langt því frá að vera fullmótuð og mörgum grundvallarspurningum er ósvarað. Fjölmargir strengjafræðingar hallast að því að umbylta þurfi hugmyndum um eðli tíma og rúms áður en strengjafræðin tekur á sig endanlega mynd.

Um fyrirlesarann

David J. Gross, Nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði árið 2004. Mynd: Nobelprize.org
David J. Gross, Nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði árið 2004. Mynd: Nobelprize.org

David J. Gross er fæddur 19. febrúar árið 1941 í Washington DC í Bandaríkjunum. Hann er prófessor við í kennilegri eðlisfræði við Kavli-stofnunina í Kaliforníuháskóla í Santa Barbara í Bandaríkjunum. Árið 2004 hlaut hann Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði ásamt H. David Politzer og Frank Wilczek fyrir framlag til fræðilegrar eðlisfræði, sem leiddi til aukins skilnings á sterku víxlverkuninni meðal kjarna og öreinda.

Sterka víxlverkunin er ráðandi inni í atómkjörnum. Hún verkar á milli kvarka í kjarneindum (róteindum og nifteindum) og áhrifa hennar gætir á milli kjarneindanna þannig að þær loða saman í kjarnanum. Þremenningarnir sýndu fram á að innbyrðis áhrif á milli kvarka verða því veikari eftir því sem þeir eru nær hver öðrum, öfugt við það sem búist var við. Þetta er kallað aðfellufrelsi (e. asymptotic freedom) og kemur fram í því að kvarkar sem eru mjög nærri hver öðrum hegða sér nánast eins og frjálsar agnir. Á hinn bóginn aukast áhrif sterku víxlverkunarinnar eftir því sem kvarkarnir færast sundur og koma í veg fyrir að hægt sé að einangra einstaka kvarka í tilraunum.

Uppgötvun þremenninganna, sem kom fram árið 1973, renndi stoðum undir nýja kenningu um sterku víxlverkunina, svonefnda skammtalitfræði (e. quantum chromodynamics), sem er enn í fullu gildi. Skammtalitfræði ásamt skammtarafsegulfræði (sem lýsir hegðun rafhlaðinna agna og ljóss) og skammtafræði veiku víxlverkunarinnar (sem lýsir meðal annars beta-geislavirkni og ferlum sem gegna mikilvægu hlutverki í orkubúskap stjarna eins og sólarinnar) mynda saman staðallíkan öreindafræðinnar, sem nær yfir allar þekktar öreindir og víxlverkanir á milli þeirra, fyrir utan þyndgaraflið. Strengjafræði er ætlað að ná yfir bæði staðallíkanið og skammtafræði þyngdaraflsins en eins og áður sagði er hún engan veginn fullmótuð kenning og óvíst hverning hún mun þróast í framtíðinni.

Upplýsingar um viðburð

  • Viðburður: Fyrirlestur um öreindafræði og strengjafræði

  • Hvar: Hátíðasalur Háskóla Íslands (Aðalbygging)

  • Hvenær: Þriðjudagur 10. september 2013 kl. 15:30

Tengiliður

Lárus Thorlacius
Prófessor í eðlisfræði
Forstöðumaður NORDITA í Stokkhólmi
Sími: 616-6784
E-mail: lth [hjá] hi.is

Tenglar