Geimsjónaukar skoða halastjörnuna ISON

Sævar Helgi Bragason 25. júl. 2013 Fréttir

Stjörnuáhugafólk bíður spennt eftir að halastjarnan ISON prýði himinninn í lok ársins. Þangað til fylgjast stjörnufræðingar grannt með ferðalagi halastjörnunnar

  • halastjarna, ISON

Um allan heim bíður stjörnuáhugafólk spennt eftir að halastjarnan ISON þjóti framhjá sólinni í lok nóvember. Stjörnufræðingar fylgjast grannt með halastjörnunni á leið hennar inn í innra sólkerfið og beindu nýlega bæði Spitzer og Hubble geimsjónaukunum að henni. Athuganirnar sýna að halastjarnan léttist um mörg þúsund tonn dag hvern og myndar um leið hala sem er álíka langur og vegalengdin milli Jarðar og tunglsins.

Þann 30. apríl síðastliðinn var Hubble geimsjónauka NASA og ESA beint að halastjörnunni ISON. Á myndinni sem tekin var sést halastjarnan fyrir framan aragrúa stjarna í Vetrarbrautinni okkar og fjölda fjarlægari vetrarbrauta. Halastjarnan minnir einna helst á marglyttu á sundi í hafsjó stjarnfræðilegra fyrirbæra.

Rúmum tveimur mánuðum seinna, þann 13. júní 2013, beindu stjörnufræðingar innrauðum myndavélum Spitzer geimsjónauka NASA að halastjörnunni. ISON var þá í um 502 milljón km fjarlægð frá sólinni, ríflegra þrisvar sinnum lengra frá sólu en Jörðin.

Mælingar stjörnufræðinga sýna að halastjarnan glatar rúmlega 1.000 tonnum af frosnu koldíoxíði og tæplega 60.000 tonnum af ryki á hverjum degi.

Við massatapið myndast gas- og rykhalinn sem er rúmlega 300.000 km langur. Til samanburðar er meðalfjarlægðin milli Jarðar og tunglsins 384.000 km. Í lok ársins verður halinn miklu lengri.

Mælingar sýna einnig að ISON er innan við 5 km í þvermál (á stærð við lítið fjall) og vegur einhvers staðar frá 3,5 milljónum upp í um 3,5 milljarða tonna.

Halastjarnan er enn svo fjarlæg að ekki hefur reynst mögulegt að mæla stærð hennar og massa nákvæmlega.

ISON er skítugur snjóbolti eins og allar aðra halastjörnur, úr ryki (kolefni) og frosnu vatni, koldíoxíði, ammóníaki og metani. Hún er að öllum líkindum ættuð úr Oortsskýinu, gríðarstóru safni halastjarna sem nær allt að eitt ljósár út frá sólinni.

Þeir Vitali Nevski og Artyom Novichonok við International Scientific Optical Network (ISON) í Kislovodsk í Rússlandi fundu halastjörnuna þann 21. september 2012.

ISON er talin vera í sinni fyrstu ferð og hugsanlega einu ferð inn í sólkerfið, sem hófst fyrir um 10.000 árum, eftir að hafa dvalið í Oortsskýinu í rúmlega 4.500 milljón ár.

Þann 28. nóvember sleikir halastjarnan sólina þegar hún þýtur framhjá henni í rétt rúmlega milljón km hæð.

Í kjölfarið færist hún upp norðurhiminninn og liggur því sérstaklega vel við athugun frá Íslandi um nokkurra vikna skeið. Rætist bjartsýnustu spár manna gæti halastjarnan ISON orðið með glæsilegustu halastjörnum sem prýtt hafa himinninn um aldir.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Farsími: 896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Tengdar myndir

  • halastjarna, ISONHalastjarnan ISON á mynd Hubble geimsjónaukans sem tekin var 30. apríl 2013. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)
  • halastjarna, ISONInnrauðar ljósmynd Spitzer geimsjónauka NASA af halastjörnunni ISON þann 13. júní 2013. Gögn Spitzer sýna að halastjarnan missir mörg þúsund tonn af efni út í geiminn á hverjum degi. Mynd: NASA/JPL-Caltech/JHUAPL/UCF