Loftsteinagígar

Árekstragígar

  • Barringergígurinn, loftsteinagígur
    Barringergígurinn í Arizona í Bandaríkjunum. Mynd: Wikimedia Commons

Loftsteinagígar eru algengustu myndanirnar á þeim hnöttum í sólkerfinu sem hafa fast yfirborð og veðrun er lítil og hæg. Á tunglinu, Merkúríusi, Kallistó og Ganýmedesi, svo nokkur dæmi séu tekin, eru margar milljónir gíga en á Jörðinni, Venusi, Mars, Evrópu, Íó og Títan eru gígar mun fátíðari vegna veðrunar og rofs. Yfirborð hnatta sem hafa marga gíga eru mun eldri (hafa lítið sem ekkert breyst í langan tíma) en þar sem gígar eru sjaldgæfari.

Á Jörðinni hafa fundist yfir 160 árekstragígar frá nokkrum metrum upp í um 300 km í þvermál. Elsti gígurinn er rúmlega 2 milljarða ára en sá yngsti frá árinu 2007 (Carancas í Perú). Fyrir 65 milljónum ára myndaðist rúmlega 180 km breiður gígur þar sem nú er Mexíkó þegar 10 km breitt smástirni rakst á Jörðina. Sá árekstur er talinn hafa átt þátt í útdauða risaeðlanna.

Árekstrar voru algengastir snemma í sögu sólkerfisins en hefur farið fækkandi með tímanum. Áætlað er að á Jörðinni verði einn til þrír árekstrar á hverjum milljón árum sem mynda 20 km breiðan gíg.

1. Saga

Eugene Shoemaker
Eugene Shoemaker sannaði að loftsteinagígar væru til á Jörðinni. Mynd: USGS

Árið 1903 keypti verkfræðingurinn og námueigandinn Daniel Moreau Barringer (1860-1929) landskika í eyðimörkinni í Arizona í Bandaríkjunum, skammt frá Diablo gljúfri. Þar var rúmlega 1 km breiður og 200 metra djúpur gígur sem sumir töldu að væri myndaðir við loftsteinaárekstur. Í námunda við gíginn höfðu einnig fundist járnsteinar sem taldir voru loftsteinabrot.

Flestir töldu hins vegar að um eldgíg væri að ræða en Barringer ætlaði sér að sanna loftsteinatilgátuna, bora eftir steininum og verða ríkur af því að selja hann.

Á þessum tíma vissu menn harla lítið um þá miklu orku sem losnar við árekstur; orku sem bæði eyðir loftsteininum og myndar gíg sem er miklu stærri en upprunalegi steinninn.

Þegar stærð- og stjörnufræðingurinn Forest Ray Moulton (1872-1952) reiknaði út orkuna í árektrinum, varð mönnum smám saman ljóst að engan stein gæti verið að finna undir gígnum. Barringer hafði varið 27 árum og miklum fjármunum í að bora nærri 420 metra eftir steininum án árangurs. Hann lést úr hjartáafalli skömmu síðar.

kóesít, coesite, steind, árekstrarmyndbreyting
Kóesítsteind í smásjá. Í miðjunni er vatnað klínópýroxen. Mynd: Wikimedia Commons

Það var ekki fyrr en árið 1960 að tilgáta Barringers var sönnuð. Jarðfræðingurinn Eugene Shoemaker (1928-1997) fann þá steindirnar kóesít og stishovít í gígnum. Báðar steindir hafa sömu efnasamsetningu og kvars (SiO2) en ólíka kristallabyggingu því kísillinn og súrefnisatómin hafa þjappast mun meira saman svo steindirnar eru smærri. Eina leiðin til að þjappa þeim svo mikið saman er beita þær gífurlegum og skyndilegum þrýstingi. Slíkur þrýstingur næst ekki í eldgosum, heldur aðeins (náttúrulega) í árekstrum. Þetta kallast árekstrarmyndbreyting.

Uppgötvun Shoemakers á árekstramyndbreyttu bergi var fyrsta beina sönnunin fyrir tilvist loftsteinagíga á Jörðinni. Síðan hefur árekstramyndbreytt berg fundist í um 160 gígum á Jörðinni. Apollo tunglfararnir fundu samskonar berg á tunglinu sem sannaði að gígarnir þar urðu líka til við árekstra.

1.1 Árekstrar og aldauði lífvera

Setlag, Iridíum, leir, K-P mörkin, K-T mörkin
Ljósa leirlagið inniheldur 1000 sinnum meira magn af frumefninu iridíumi en venjulegt berg á Jörðinni. Mynd: Wikimedia Commons

Skömmu áður en Shoemaker gerði sína uppgötvun hafði reikistjörnufræðingurinn Ralph Baldwin (1912-2010) sett fram þá tilgátu, að risaárekstrar ættu sök á fjöldaútrýmingu dýrategunda sem sæjust í setlögum á Jörðinni.

Sönnunargögn fyrir þessari tilgátu fengust árið 1979 þegar jarðfræðingurinn Walter Alvarez og faðir hans, eðlisfræðingurinn Luis Alvarez, fundu óvenju mikið magn af iridíumi í dökku leirlagi á mótum jarðlaga frá Krítar- og Paleógentímabilunum (áður kallað K-T mörkin).

K-P mörkin eru 65 milljón ára gömul eða frá þeim tíma þegar um 75% af öllum dýrategundum, þar á meðal risaeðlurnar, dóu út. Þetta lag finnst um allan heim þar sem jarðlögin eru nógu gömul.

Iridíum er frumefni sem er mjög sjaldgæft í bergi á Jörðinni. Það er þungt og járnsækið sem þýðir að það er auðleysanlegt í bráðnu járni og sökk því inn að kjarnanum þegar Jörðin lagskiptist.

Chicxulub-gígurinn, loftsteinagígur
Chixculub-gígurinn á Yucatánskaga við Mexíkóflóa varð til við árekstur um 10 km breiðs smástirnis fyrir 65 milljónum ára. Um sama leyti dó um 75% lífs á Jörðinni út. Áreksturinn varð í sjó en síðan hefur gígurinn fyllst af seti. Mynd: NASA/Stjörnufræðivefurinn (ísl. útgáfa)

Iridíum er hins vegar algengt í járnríkum loftsteinum. Í K-P leirlaginu er mörg þúsund sinnum meira af iridíumi en í dæmigerðu bergi á Jörðinni. Það er bein sönnun fyrir árekstri um 10 km breiðs smástirni úr bergi- og járni fyrir 65 milljónum ára. Áreksturinn var 2 milljón sinnum öflugri en öflugasta vetnissprengja sem sprengd hefur verið og ætti að hafa skilið eftir sig 100 til 200 km breiðan gíg.

Árekstramyndbreyttar steindir hafa líka fundist í K-P mörkunum, mest í Norður Ameríku sem bendir til að áreksturinn hafi orðið einhvers staðar þar í kring. Beindist þá athygli manna að Yucatán-skaga í Mexíkó þar sem fundist hafði forn, nærri hringlaga gígur, grafinn í set, sem var um 180 km í þvermál. Í gígnum fannst árekstramyndbreytt berg og leiddu aldursgreiningar í ljós að hann var af réttum aldri, um 65 milljón ára gamall!

Áreksturinn varð í hafi svo risavaxin flóðbylgja æddi af stað yfir Jörðina. Merki um hana sjást í jarðlögum í kring, til dæmis þar sem nú er Texas. Gífurlegt magn af sjó gufaði upp og glóandi berg sem hafði þeyst upp í himinninn rigndi aftur niður á Jörðina, olli sumstaðar fleiri litlum áreksturm og kveikti í skógum. Sót, aska og ryk þyrlaðist upp í lofthjúpinn sem skyggði á sólina í mörg ár á eftir. Regnið varð súrt. Ósonlagið eyddist. Gróðurhúsaáhrif jukust um tíma en í kjölfarið kólnaði aftur og við tók mikið kuldaskeið sem eirði engu nema allra harðgerðustu plöntum og dýrum.

Fleiri sambærilegir gígar hafa fundist víðar á Jörðinni. Þeir sýna að árekstrar af þesus tagi verði á um 100 milljón ára fresti og hafa mikil áhrif á þróun lífs á Jörðinni.

2. Myndun árekstragíga

Arima, gígar, Mars
Gígar á Mars. Gígurinn hægra megin nefnist Arima en sá til vinstri er ónefndur. Báðir eru rétt rúmlega 50 km í þvermál. Í báðum  sjást stallar en pyttirnir í miðjunni tengjast líklega bráðnun vatnsíss sem var undir yfirborðinu. Myndin var tekin með Mars Express geimfari ESA. Mynd: ESA/DLR/FU Berlin/G. Neukum

Árekstragígar myndast þegar halastjörnur eða smástirni, sem eru nógu stór og föst í sér til að komast í gegnum lofthjúp Jarðar án þess að dragi mjög úr hraðanum, rekast á yfirborðið á upphafshraða sínum sem er venjulega milli 11 km/s upp í 72 km/s (40.000 til 250.000 km/klst). Til að svo megi verða þarf fyrirbærið að vera tiltölulega stórt, líklega 20 metrar og stærra í tilviki járnsteins eða 30 metrar og stærra tilviki bergsteins. Meðalhraði áreksturs er yfirleitt í kringum 20 km/s (72.000 km/klst).

Smærri fyrirbæri hegða sér á annan hátt. Þau brenna upp og springa hátt í lofthjúpnum. Sé steinninn nógu stór geta brot fallið alla leið til Jarðar en aðeins á nokkur hundruð metra hraða á sekúndu sem dugir þó ekki til að mynda gíga, í mesta lagi pytti sem eru örlítið stærri en steinninn sjálfur sem einnig helst meira og minna óskaddaður. Þetta gerðist til að mynda árið 1947 þegar Sikhote-Alin loftsteinninn féll í Rússlandi og í febrúar 2013 yfir Chelyabinsk í Rússlandi.

Við árekstur á miklum hraða byrjar gígur að myndast um leið og steinninn snertir yfirborðið. Þá berast höggbylgjur í gegnum steinninn og yfirborðið sem bæði þjappast mikið og hratt saman. Þrýstingur eykst gífurlega og verður miklu meiri en bergið þolir svo það aflagast, myndbreytist og springur. Næg orka losnar til að berg hreinlega gufi upp og gígur myndist.

Gígarnir eru hringlaga þar sem þeir eru myndaðir við sprengingu og efni skvettist í allar áttir. Tilraunir sýna að gígar eru venjulega tíu sinnum breiðari en fyrirbærin sem skópu þá en dýptin er 10-20% af breiddinni. Smástirni sem er 1 km í þvermál getur þannig myndað gíg sem er um 10 km breiður og 1-2 km djúpur.

Myndunar- og mótunarferli árekstragíga eru flókin og samfelld en oftast skipt í þrjú stig: (1) Snertingu og samþjöppun, (2) gröft og (3) breytingu.

2.1 Snerting og samþjöppun

loftsteinagígar, árekstragígar,
Snerting og samþjöppun er fyrsta stig myndunar árekstrargígs. Hraðskreiður steinn snertir yfirborðið, þjappar því saman og hrindir af stað höggbylgju sem byrjar að grafa dæld. Mynd: B. M. French/D. A. King / LP I /UA / Stjörnufræðivefurinn (ísl. útgáfa)

Þetta stutta en öfluga stig hefst um leið og steinninn snertir yfirborðið. Snertingin kemur yfirborðinu á hreyfingu og dregur úr hraða steinsins. Steinninn þjappast saman vegna þess að aftasti hluti hans hreyfist enn hraðar en snertipunktur hans. Þrýstingurinn innan í honum eykst gífurlega og verður sambærilegur við þrýstinginn í innviðum reikistjarna eða í kjarnorkusprengingum.

Höggbylgja berst í gegnum steininn og yfirborðið sem þjappar berginu undir saman. Þrýstingurinn er slíkur að feykilegur hiti myndast sem bræðir bergið á yfirborðinu og það gufar jafnvel algerlega upp.

Við höggið umbreytast steindir í berginu fyrir neðan svo árekstramyndbreytt berg verður til. Á þessu stiig kastast fremur lítið efni upp og út úr gígnum sem er að byrja að myndast. Sá hluti steinsins sem gufar upp kemur fram sem gufustrókur en restin blandast við efnið í yfirborðinu.

Hve lengi þetta stig stendur yfir veltur á stærð steinsins og árekstrahraðanum. Í tilviki steins sem er 1 km í þvermál og ferðast á 20 km/s tekur þetta stig aðeins 50 millísekúndur; skemur ef um smærri steina er að ræða en örfáar sekúndur í tilviki stærri steina.

2.2 Gröftur

loftsteinagígar, árekstragígar,
Gröftur er annað stigið í myndun árekstragíga. Mynd: B. M. French/D. A. King / LP I /UA / Stjörnufræðivefurinn (ísl. útgáfa)

Snerti- og samþjöppunarstigið lýkur á örfáum sekúndubrotum en næsta stig á eftir, graftarstigið, stendur mun lengur yfir. Á graftarstiginu byrjar höggbylgjan, sem myndaðist við samþjöppunina, að kasta efni upp og út á við. Botninn þjappast saman, brúnirnar lyftast upp og efni skvettist upp og út fyrir. Þetta útkastsefni kallast slettur (e. ejecta) og er til dæmis mjög áberandi í kringum gíginn Tycho á tunglinu.

Stærstur hluti slettanna lendir í kringum gíginn og myndar slettubreiðu (e. ejecta blanket). Efnið sem ferðast hægast lendir næst gígnum en hraðfleygasta efnið fjærst. Í tilviki stærstu árekstranna getur hraðinn á slettunum orðið slíkur að berg kastast út í geiminn. Þannig hafa loftsteinar borist frá tunglinu og Mars til Jarðar.

Þetta stig stendur yfir nokkrar sekúndur upp í örfáar mínútur eftir stærð gígsins, hraða hans og þyngdarkrafti hnattarins sem verður fyrir árekstrinum. Því lýkur þegar efni hættir að rigna niður. Á Jörðinni getur 200 km breiður gígur myndast á innan við 90 sekúndum. Útreikningar benda einnig til að Barringer gígurinn í Arizona, sem er einn kílómetri í þvermál og um 200 metra djúpur, hafi myndast á aðeins 6 sekúndum.

2.3 Breyting

loftsteinagígar, árekstragígar,
Breyting er þriðja og síðasta stigið í myndun árekstragíga. Eftir það er gígurinn fullmyndaður. Mynd: B. M. French/D. A. King / LP I /UA / Stjörnufræðivefurinn (ísl. útgáfa)

Graftarstiginu lýkur þegar gígurinn hefur náð hámarksstærð sinni. Strax í kjölfarið hefst breytistigið. Höggbylgjurnar hafa þá að mestu dáið út og leika ekki frekara hlutverk í mótun gígsins. Þess í stað tekur gígurinn að breytast vegna þyngdarkraftsins og bergsins í honum. Laust efni í gígveggjunum skríður niður að botninum og myndar stundum skriðusvuntur og hjalla.

Ólíkt fyrri tveimur stigunum hefur breytistigið engan augljósan endi því veðrunar- og roföfl hvers hnattar heldur áfram að móta gíginn. Hve mikið gígarnir mótast veltur á stærð og eiginleikum bergsins.

Litlir gígar breytast alla jafna fremur lítið en meiri breytingar verða á stærri gígum. Botninn getur lyfst og hrun orðið í kringum barminn.

Að lokum geta þrjár mismunandi gerðir af árekstramyndunum hafa myndast: Einfaldir gígar, flóknir gígar og fjölhringjadældir.

3. Einfaldir gígar og flóknir gígar

Tycho, Tunglið, Þverganga, Venus
Gígurinn Tycho á tunglnu er hefur fjall í miðjunni og telst því flókinn. Mynd: NASA/ESA og Hubble

Gígar sem eru minna en nokkrir kílómetrar í þvermál og skálarlaga með slétta veggi eru kallaðir einfaldir gígar. Dýpt þeirra er oft um 20% af þvermálinu. Á breytistiginu getur allt að helmingur af upphaflegri dýpt fyllst af slettum sem falla aftur ofan í gíginn og úr gígveggjunum. Þetta uppfyllingarefni á botninum er kallað breksíulinsa og er blanda úr bergbrotum, bæði þeim sem orðið hafa fyrir höggi og ekki, auk brota úr efni sem bráðnaði við áreksturinn. Með tímanum grefst breksíulinsan undir seti.

Stærri gígar geta verið gerólíki litlu, einföldu gígunum. Stórir gígar einkennast af upphleyptri myndun (fjalli eða fjallahring) í miðju breiðrar sléttu, grunnum gígbotnum og stöllum í gígveggjunum. Þetta eru allt flóknar jarðmyndanir og því eru gígar af þessu tagi kallaðir flóknir gígar Á Jörðinni verða gígar sem eru stærri en 2-4 km (háð gerð berggrunnsins) að flóknum gígum en á tunglinu, þar sem þyngdarkrafturinn er einn-sjötti af þyngdarkrafti Jarðar, þurfa gígarnir að vera stærri en 15 til 20 km.

Fjöll í miðju gíga myndast sennilega þegar bergið reynir að komast aftur í flotjafnvægi. Því má líkja við nibbuna sem stendur upp úr vatni þegar dropi fellur í vatnið. Í tilviki stórra gíga á Jörðinni (100-200 km) getur berggrunnurinn undir lyfst upp um 10-20 km við árekstur. Útreikningar og jarðfræðilegar athuganir benda ennfremur til þess að upplyftingin myndist á aðeins nokkrum mínútum. Í miðju Vredefort-gígsins í Suður Afríku, sem er um 300 km í þvermál, myndaðist fjallið í miðju gígsins á innan við 15 mínútum.

4. Fjölhringjadældir

Suðurpóls-Aitken, árekstradæld
Hæðarkort af Suðurpóls-Aitken dældinni á tunglinu sem sennilega stærsta árekstradæld sólkerfisins. Mynd: NASA/Goddard

Gígar sem eru stærri en 300 km í þvermál eru kallaðir árekstradældir. Árekstradældir verða til við mestu hamfarirnar í sólkerfinu, þegar stór smástirni, nokkrir tugir til nokkur hundruð kílómetrar að þvermáli, rákust á reikistjörnur og tungl. Allar urðu þær til snemma í sögu sólkerfisins, fyrir um og yfir 3,9 milljörðum ára, þegar svo stór fyrirbæri voru mun algengari en í dag og árekstrar tíðari.

Árekstradældir eru þess vegna mest áberandi á elstu yfirborðum sólkerfisins — á tunglinu, Merkúríusi og Mars og Júpíterstunglunum Ganýmedesi og Kallistó, Stærsta þekkta árekstradældin í sólkerfinu er Suðurpóls-Aitken dældin á tunglinu. Hún er um 2.500 km í þvermál og 13 km djúp. Af fleiri þekktum árekstradældum má nefna Calorisdældina á Merkúríusi (1.550 km í þvermál) og Hellas-dældina á Mars (2.100 km í þvermál).

Við myndun árekstradælda verða stundum til miklir fjallahringir innan gíganna og í kringum þá. Slíkar árekstramyndanir eru kallaðar fjölhringjadældir. Mare Orientale (Austurhafið) á tunglinu er eitt þekktasta dæmið um fjölhringjadæld. Hún er yfir 300 km í þvermál en hringamyndunin er um 950 km breið. Á ístunglinu Kallistó er enn stærri fjölhringjadæld, Vallardældin sem er um 600 km í þvermál en hringamyndunin er um 4.000 km breið.

Tunglið, Mare Orientale, Austurhafið, fjölhringjadæld
Mare Orientale fjölhringjadældin á tunglinu. Mynd: NASA/S. Walker (myndvinnsla)

Deilt er um hvort myndun fjölhringjadælda tengist stærð árekstursins sjálfs eða sérstökum aðstæðum innan í hnöttunum. Á Jörðinni eru fáar fjölhringjadældir — líklega eru aðeins Vredefort-gígurinn í Suður Afríku og Chixculub-gígurinn í Mexíkó dæmi um slíkar myndanir.

5. Gígatalningar

Með því að telja gíga, mæla stærð þeirra og kanna hve veðraðir þeir eru, má fá grófa mynd af aldri og sögu tiltekins yfirborðs. Árekstrar voru mun tíðari snemma í sögu sólkerfins svo reglan er að því fleiri sem gígar eru á yfirborði, því eldra er það.

Tunglið og Merkúríus eru þakin árekstragígum. Yfirborð þeirra hefur því breyst sáralítið síðustu fjóra milljarða ára. Á Venusi eru mjög fáir gígar svo við getum ályktað að yfirborðið sé ungt. Á Jörðinni eru sárafáir gígar enda endurnýjast yfirborðið vegna flekahreyfinga, rofs og eldgosa.

Um það bil 80% af yfirborði Jarðar er innan við 200 milljón ára á meðan 99% af yfirborði tunglsins er meira en 3 milljarða ára.

6. Árekstragígar á Jörðinni

Yfir 160 loftsteinagígar hafa fundist á Jörðinni. Sá elsti er yfir 2 milljarða ára en sá yngsti varð til árið 2007. Hér undir eru fimm stærstu árekstragígarnir á Jörðinni.

 Vredefort gígurinn, gígur  

Vredefort-gígurinn í Suður Afríku

Vredefort-gígurinn í Suður Afríku er stærsti árekstragígurinn á Jörðinni. Hann er nefndur eftir samnefndum bæ sem er í miðju gígsins. Gígurinn er um 300 km breiður og rétt rúmlega 2 milljarða ára gamall og því sá elsti sem vitað er um á Jörðinni. Hann er þar af leiðandi talsvert rofinn. Árið 2005 var honum bætt við heimsminjaskrá UNESCO.

Mynd: NASA

Sudbury, gígur,  

Sudbury dældin í Kanada

Sudbury dældin í Ontario í Kanada er næst stærsti árekstragígurinn á Jörðinni. Hann er um 250 km í þvermál og um 1,8 milljarða ára gamall.

Mynd: NASA

Chicxulub-gígurinn, loftsteinagígur  

Chicxulub gígurinn við Mexíkóflóa

Þyngdarsviðskort af Chicxulub gígnum við Mexíkóflóa. Hann er þriðji stærsti árekstrargígurinn á Jörðinni, 180-200 km í þvermál og um 65 milljón ára gamall.

Mynd: Virgil L. Sharpton / University of Alaska, Fairbanks / Lunar and Planetary Institute

Kara gígurinn, gígur  

Kara gígurinn í Rússlandi

Kara gígurinn á Yugorsky-skaga í Rússlandi er fjórði stærsti árekstragígurinn á Jörðinni. Hann er um 120 km í þvermál en er mikið rofinn svo hann sést ekki af yfirborðinu. Kara gigurinn myndaðist fyrir um 70 milljón árum.

Mynd: NASA

Manicouagan, gígur  

Manicouagan gígurinn í Kanada

Manicouagan gígurinn í Quebec í Kanada er fimmti stærsti árekstragígurinn á Jörðinni. Hann er um 100 km í þvermál en í miðju hans er eyja umlukin vatni. Manicouagan gígurinn varð líklega til fyrir um 215 milljónum ára.

Mynd: NASA/GSFC/LaRC/JPL, MISR Team

7. Stærstu árekstragígar sólkerfisins

Hér undir er listi yfir stærstu árekstragíga sólkerfisins í röð eftir stærð.

 Tunglið, fjærhlið, dökka hlið tunglsins, hálendi, Suðurpóls-Aitken  

Suðurpóls-Aitken dældin á tunglinu

Suðurpóls-Aitken er stærsta, elsta og dýpsta árekstrardældin á tunglinu (um 13 km djúp) og jafnframt sú stærsta í sólkerfinu, um 2.500 km í þvermál. Dældin er á fjærhlið tunglsins og fannst því ekki fyrr en á ljósmyndum sem ómönnuð geimför tóku um miðjan sjöunda áratuginn. Dældin er stóra dökka svæðið á suðurhvelinu.

Mynd: NASA/JPL/USGS

Mars, Hellas Planitia  

Hellas Planitia á Mars

Hellas Planitia á suðurhveli Mars er næst stærsta árekstrardældin í sólkerfinu, um 2.300 km í þvermál. Hún er rúmlega 7 km djúp.

Mynd: NASA

Strom01  

Caloris dældin á Merkúríusi

Caloris dældin á Merkúríusi er þriðja stærsta árekstradældin í sólkerfinu, um 1.550 km í þvermál.

Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Carnegie Institution of Washington/Brown University.

Regnhafið, Mare Imbrium  

Regnhafið (Mare Imbrium) á tunglinu

Regnhafið (Mare Imbrium) á norðurhveli tunglsins er fjórða stærsta árekstradældin í sólkerfinu, um 1.145 km í þvermál. Apollo 15 lenti við suðausturströnd Regnhafsins, í Apennínafjöllum.

Mynd: Wikimedia Commons

Isidis Planitia, gígur, Mars  

Isidis Planitia á Mars

Isidis Planitia á norðurhveli Mars er fimmta stærsta árekstradældin í sólkerfinu, um 1.100 km í þvermál.

Mynd: NASA/JPL-Caltech

Tengt efni

Fréttir tengdar loftsteinagígum

Heimildir

  1. Bradley Carroll og Dale Ostlie. 2006. An Introduction to Modern Astrophysics, 2. útgáfa. Benjamin Cummings, New York.

  2. French, B.M. (1998). Traces of Catastrophe: A Handbook of Shock-Metamorphic Effects in Terrestrial Meteorite Impact Structures. Formation of Impact Craters. Smithsonian Institution, Washington DC, bls. 17-30.

  3. Impact Cratering. Lunar and Planetary Institute (sótt: 5. júlí 2013)

  4. Impact Cratering Lab. Part I: Impact Cratering Mechanics & Crater Morphology. Lunar and Planetary Institute (sótt: 5. júlí 2013)

  5. Impact crater. Wikipedia: The Free Encyclopedia (sótt: 5. júlí 2013)

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2013). Loftsteinagígar. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornufraedi.is/solkerfid-large/loftsteinagigar (sótt: DAGSETNING).