Um 200 loftsteinar rekast á Mars á hverju ári

Sævar Helgi Bragason 15. maí 2013 Fréttir

Vísindamenn hafa áætlað að árlega rekist um það bil 200 loftsteinar á Mars og myndi gíga sem eru tæplega 4 metrar á breidd

  • Mars, gígar

Vísindamenn sem notuðu gögn frá Mars Reconnaissance Orbiter geimfari NASA hafa fundið út að árlega rekist um það bil 200 loftsteinar á Mars og myndi gíga sem eru tæplega 4 metrar á breidd. Uppgötvunin sýnir að Mars er enn mjög virk reikistjarna og gerir mönnum kleift að ákvarða aldur landslags á mun áreiðanlegri hátt en áður.

Síðastliðinn áratug hafa vísindamenn fundið 248 nýja loftsteinagíga á Mars, aðallega á myndum sem teknar hafa verið með HiRISE og CTX myndavélunum í Mars Reonnaissance Orbiter geimfari NASA. Báðar þessar myndavélar hafa tekið myndir af stöðum sem önnur geimför hafa ljósmyndað áður og byggir áætlunin á tíðni loftsteinaárekstra á Mars á gögnum allra þessara geimfara.

Við árekstrana þyrlast upp ryk og koma ummerki þeirra fram sem dökkir blettir á yfirborðinu. Með því að skoða myndir af sömu svæðum fyrir og eftir árekstur má tímasetja nokkurn veginn hvenær gígarnir urðu til. Þetta gerir mönnum kleift að mæla með beinum hætti hve ört loftsteinar rekast á Mars og mynda gíga.

Í sólkerfinu er aldur yfirborða metinn út frá fjölda gíga. Því fleiri sem gígarnir eru, því eldra er yfirborðið. Þessar mælingar leiða þess vegna til áreiðanlegra mats á aldri yfirborðs Mars. Þetta er sérstaklega mikilvægt á stöðum þar sem talið er að breytingar hafi orðið vegna nýlegra loftslagsbreytinga á rauðu reikistjörnunni.

Smástirnin eða brotin úr halastjörnum sem mynda gígana eru alla jafna ekki mikið meira en 1 til 2 metrar að þvermáli. Slíkt geimgrýti er of lítið til að ná til Jarðar en mynda auðveldlega gíga á Mars því lofthjúpurinn er miklu þynnri. Loftsteinninn sem sprakk yfir Chelyabinsk í Rússlandi í febrúar var um það bil tífalt stærri en steinarnir sem mynduðu nýju gígana á Mars.

Vísindamennirnir gátu reiknað út hversu algengt er að nýir gígar, tæplega 4 metrar á breidd, myndist á tilteknum svæðum á Mars. Í ljós kom að gígur af þessari stærð myndast að meðaltali einu sinni á ári á svæði sem samsvarar um það tvöföldu flatarmáli Íslands. Eldri áætlanir, sem byggðu á rannsóknum á gígum á tunglinu, gerðu ráð fyrir að gígamyndun á Mars væri þrisvar til tíu sinnum tíðari.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Sími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Tengdar myndir

  • Mars, gígarMyndin efst til vinstri var tekin 16. ágúst 2010 en sú til hægri 24. maí 2011. Báðar voru teknar með Context myndavélinni og sýna þær svæði sem er um 2,5 km á breidd á norðurhveli Mars. Dökka svæðið á myndinni vinstra megin eru ummerki loftsteinaáreksturs sem varð einhvern tímann á þessu tímabili. Fyrir neðan sést mynd frá HiRISE myndavélinni og sýnir þyrpingu lítilla og nýrra gíga. Kvarðinn er 100 metrar. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS/Univ. of Arizona
  • Mars, gígarÞessi mynd sýnir nokkra af þeim nýlegu loftsteinagígum á Mars em notaðir voru í þessari rannsókn. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS/Univ. of Arizona