Fiskarnir

 • stjörnukort, stjörnumerki, Fiskarnir
  Kort af stjörnumerkinu Fiskunum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Pisces
Bjartasta stjarna: η Pisces
Bayer / Flamsteed stjörnur:
86
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
Stjarna Van Maanes
(14 ljósár)
Messier fyrirbæri:
1
Loftsteinadrífur:
Piscítar
Sést frá Íslandi:

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Fiskana og teljast þeir því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Sólin er innan marka Fiskanna frá 11. mars til 18. apríl (en ekki frá 19. febrúar til 20. mars eins og segir í stjörnuspám).

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum á næturhimninum og sjást því stundum í Fiskunum.

Í Fiskunum er sá punktur þar sem sólin sker miðbaug himins og gengur til norðurs. Sá punktur markar vorjafndægur.

Þar sem Fiskarnir eru að langmestu leyti fyrir ofan miðbaug himins sjást þeir vel að kvöldlagi stærstan hluta vetrar (frá september fram í febrúar). Þeir eru í suðri klukkan níu að kvöldi í desember.

Fiskarnir liggja rétt fyrir neðan ferhyrninginn í stjörnumerkinu Pegasusi og eru auðfundnir út frá honum.

Uppruni

Fiskarnir eru í hópi „vatnsmerkjanna“ svonefndu ásamt Steingeitinni, Vatnsberanum, Hvalnum, Höfrungnum og Suðurfisknum.

Þeir goðsögulegu atburðir sem tengjast stjörnumerkinu Fiskunum eru sagðir hafa orðið við ána Efrat en það bendir til þess að merkið eigi sér babýlónískan uppruna. Sagan hefst skömmu eftir að guðirnir höfðu sigrað Títanana og Risana í baráttunni um völd í alheiminum. Móðir jörð, Gaia, hafði hins vegar ekki sagt sitt síðasta og átti vingott við Tartarus, neðsta stað Undirheimanna, þar sem Seifur hafði fangelsað Títanana. Úr þessu óvenjulega sambandi spratt Týfon, skelfilegasta skrímsli sögunnar, sem hafði hundrað drekahöfuð, svartar tungur og augu sem eldur logaði í.

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Fiskarnir
Stjörnumerkið Fiskarnir og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Gaia sendi skrímslið ógurlega til að ráðast á guðina. Pan varð þess fyrstur var og lét aðra vita. Sjálfur breytti hann sér í steingeit (táknað af stjörnumerkinu Steingeitinni) og stökk í ána.

Skelfingu lostin földu Afródíta og Eros, sonur hennar, í reyrnum við bakka Efrats en óttaðist um afdrif þeirra. Hún óskaði eftir hjálp frá vatnadísunum og stökk í fljótið með Eros í fanginu. Í annarri útgáfu sögunnar synda tveir fiskar aðeins og flytja mæðginin í öruggt skjól á bakinu. Í enn annarri útgáfu var mæðgininum breytt í fiska.

Önnur saga segir frá eggi sem féll í Efratfljót en var flutt á þurrt land af fiskum tveim. Dúfur sátu á egginu og héldu á því hita en úr því spratt Afródíta, sem í þakklætisskyni kom fiskunum fyrir á himninum.

Stjörnur

Fiskarnir eru tiltölulega dauft stjörnumerki. Um 50 stjörnur sjást með berum augum en einungis þrjár þeirra eru bjartari en 4. birtustig.

 • η Piscium er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Fiskunum (birtustig 3,62). Hún er risastjarna af gerðinni G7 í um 294 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • γ Piscium er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Fiskunum (birtustig 3,7). Hún er risastjarna af gerðinni G9 í um 138 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Gamma Piscium er álíka massamikil og sólin en næstum tíu sinnum breiðari.

 • ω Piscium er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Fiskunum (birtustig 4,04). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni F4 sem er að þróast yfir í risastjörnu. Hún er tuttugu sinnum bjartari en sólin okkar og næstum tvöfalt massameiri. Omega Piscium er í 100 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • ι Piscium er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Fiskunum (birtustig 4,13). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni F7 í um 45 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • Ómíkron Piscium er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Fiskunum (birtustig 4,26). Hún er risastjarna af gerðinni G8 í um 142 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • α Piscium eða Alrescha er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Fiskunum (birtustig 4,33). Hún er tvístirni í um 139 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Nafnið Alrescha er arabískt og merkir „snæri“.

 • ε Piscium er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Fiskunum (birtustig 4,28). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K0 í um 180 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Epsilon Piscium er rúmlega tvisvar sinnum massameiri en sólin en 10 sinnum bjartari.

 • β Piscium er stjarna á meginröð af gerðinni B6 í um 492 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Fiskunum (birtustig 4,53). Hún ber einnig nafnið Fum al Samakah sem þýðir „munnur fisksins“.

 • Stjarna Van Maanens er sú stjarna í Fiskunum sem er næst sólkerfinu okkar í um 14 ljósára fjarlægð. Hún er hvítur dvergur (kjarni útbrunninnar stjörnu) á stærð við jörðina en með massa á við sólin. Stjarna Van Maanes er þriðji nálægasti hvíti dvergurinn við sólina okkar (á eftir Síríusi B og Prókýon B). Stjarnan sker sig samt úr þessum hópi því hún er ekki hluti af tvístirni. Hún er mjög dauf (birtustig 12,4) og sést aðeins í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.

 • 19 Piscium eða TX Piscium er bjartasta kolefnastjarnan á himninum, ein fárra sem sjá má með berum augum, þótt hún sé fremur dauf (birtustig 4,9 til 5,5). Stjarnan er eldrauð og í 760 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

Þótt fiskamerkið sé stórt eru þar fremur fá áhugaverð djúpfyrirbæri, aðallega nokkrar vetrarbrautir.

 • Messier 74 er þyrilvetrarbraut í um 31 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Sýndarbirtustig hennar er +10 en yfirborðsbirtan er lág sem þýðir að hún er í hópi þeirra Messierfyrirbæra sem erfiðast er að greina á himninum. Best er að skoða M74 í stjörnusjónauka við litla stækkun.

 • NGC 60 er þyrilvetrarbraut í um 500 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er mjög dauf og sést aðeins í gegnum stærstu áhugamannasjónauka.

 • NGC 200 er þyrilvetrarbraut, fremur lítil, dauf og ílöng að sjá í gegnum stóra áhugamannasjónauka.

 • NGC 520 er tvær þyrilvetrarbrautir sem eru að renna saman í um 100 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Fyrirbærið er dauft og sést best í stórum áhugamannasjónaukum.

Loftsteinadrífur

Piscítar er lítilsháttar loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 12. ágúst til 7. október. Drífan er í hámarki frá 11. til 20. september og sjást þá í kringum fimm loftsteinar á klukkustund.

Stjörnukort

Stjörnukort af Fiskunum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Pisces the fishes

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Pisces_(constellation)

 3. What's Up Pisces

 4. http://meteorshowersonline.com/showers/piscids.html