Hvalurinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Hvalurinn
    Kort af stjörnumerkinu Hvalnum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Cetus
Bjartasta stjarna: β Ceti
Bayer / Flamsteed stjörnur:
88
Stjörnur bjartari +3,00:
2
Nálægasta stjarna:
Luyten 726-8
(8,7 ljósár)
Messier fyrirbæri:
1
Loftsteinadrífur:
Október Cetítar
Eta Cetítar
Ómíkron Cetítar
Sést frá Íslandi:
Að hluta

Hvalurinn er skammt frá sólbaugnum svo reikistjörnur og smástirni fara annað slagið inn í merkið í skamman tíma. Smástirnið 4 Vesta fannst árið 1807 þegar það var í Hvalnum.

Uppruni

Sagan af stjörnumerkinu Hvalnum tengist einni þekktustu goðsögn grísku goðafræðinnar.

Þegar Kassíópeia, kona Sefeusar Eþíópíukonungs, stærði sig af því að vera fegurri en sjávardísirnar, móðgaðist sjávarguðinn Póseidons svo, að hann sendi skrímsli til að herja á ströndina við ríkidæmi Sefeusar. Skrímlið var sérkennileg blanda kjaftstórs landdýrs með framfætur sem fastir voru á hreistraðan búk sæslöngu.

Sefeus leitaði ráða hjá Ammon-véfréttinni til að losna við óvættina. Véfréttin sagði honum að fórna dóttur sinni Andrómedu sem var svo hlekkjuð við klifið við Joppa, þar sem nú er Tel Aviv, og beið hún þar nöturlegra örlaga sinna.

Andrómeda var skelfingu lostin þegar hún sá skrímslið nálgast hana óðfluga, eins og risavaxið skip. Í sama mund og skrímslið ætlaði að gæða sér á henni, kom hetjan Perseifur aðvífandi og steypti sér eins og örn á bak skrímslisins. Perseifur stakk það aftur og aftur með sverði sínu uns það féll aftur í sjóinn og drapst.

Stjörnur

  • β Ceti er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hvalnum (birtustig 2,0). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K0 í um 96 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er næstum þrisvar sinnum massameiri en sólin, 17 sinnum breiðari og 139 sinnum bjartari. Beta Ceti gengur líka undir nafninu Deneb Kaitos sem þýðir „sporður hvalsins“.

  • α Ceti er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hvalnum (birtustig 2,5). Hún er rauður risi af gerðinni M1.5 í um 249 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er rúmlega tvisvar sinnum massameiri en sólin, 89 sinnum breiðari og 1455 sinnum bjartari. Alfa Ceti gengur líka undir nafninu Menkar sem þýðir „nös“.

Míra, sveiflustjarna, GALEX
Stjarnan Míra og efnishalinn frá henni á útfjólublárri ljósmynd GALEX gervitunglsins. Mynd: NASA
  • Míra eða Omicron Ceti er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hvalnum (birtustig 3,0) og sú frægasta. Hún er tvístirni í um 300 ljósára fjarlægð frá jörðinni sem samanstendur af rauðum risa, Míra A, og hvítum dvergi eða meginraðarstjörnu af K-gerð, Míra B, sem er um 0,7 sólmassar. Míra A er 18% massameiri og allt að 400 sinnum breiðari en sólin. Míra A er ein þekktasta sveiflustjarna himins. Birtubreytingar hennar má rekja til þess að stærð hennar er breytileg. Útfjólubláar rannsóknir á henni með GALEX gervitungli NASA sýndu 13 ljósára langan efnishala frá henni sem myndast hefur á tugþúsundum ára. Nafn stjörnunnar er latneskt og þýðir „sú undraverða“.

  • η Ceti er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hvalnum (birtustig 3,45). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K1 sem er álíka massamikil og sólin en 15 sinnum breiðari og 74 sinnum bjartari. Eta Ceti ber einnig nafnið Deneb Algenubi sem þýðir „suðursporður sjávarskrímslisins“. Hún er í 124 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • γ Ceti er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hvalnum (birtustig 3,5). Hún er tvístirni í um 80 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stærri og bjartari stjarnan er meginraðarstjarna af gerðinni A3 sem er tvisvar sinnum breiðari en sólin. Förunauturinn er meginraðarstjarna af gerðinni F3. Nokkur litamunur er á stjörnunum sem sést vel í gegnum stjörnusjónauka.

  • τ Ceti er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hvalnum (birtustig 3,5). Stjarnan líkist sólinni á margan hátt. Hún er meginraðarstjarna af gerðinni G8,5 sem er næstum 80% af massa og breidd sólar en helmingi daufari, örlítið kaldari og snýst álíka hratt. Tau Ceti er með nálægustu stjörnum við sólkerfið okkar í aðeins 12 ljósára fjarlægð. Vegna nálægðar og líkinda við sólina hefur hún verið vinsælt viðfangsefni stjörnufræðinga í leit að lífi í geimnum, en hingað til hefur ekkert markvert fundist.

  • ι Ceti er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hvalnum (birtustig 3,6). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K1,5 í um 290 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan ber einnig nafnið Deneb Kaitos Shemali sem þýðir „norðursporður sjávarskrímslisins“.

  • θ Ceti er áttunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hvalnum (birtustig 3,6). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K0 í um 115 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • ζ Ceti er níunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hvalnum (birtustig 3,9). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K0 í um 260 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan ber einnig nafnið Baten Kaitos sem þýðir „magi sjávarskrímslisins“.

Djúpfyrirbæri

Hvalurinn er langt frá fleti vetrarbrautarinnar svo merkið inniheldur einkum vetrarbrautir.

  • Messier 77 er bjálkaþyrilþoka í um 60 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er nálægasta og bjartasta Seyfert vetrarbrautin við jörðina sem þýðir að hún hefur bjartan kjarna og sterka útvarpsútgeislun. Í miðju vetrarbrautarinnar er virkt risasvarthol. M77 sést vel frá Íslandi en best er að nota meðalstóra og stóra sjónauka til að skoða hana.

  • NGC 17 er þyrilvetrarbraut í um 250 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni sem er afleiðing samruna tveggja skífuvetrarbrauta. Vetrarbrautin er mjög dauf (birtustig 15,3) svo hún sést best í gegnum stóra áhugamannasjónauka.

  • NGC 246 er nokkuð björt hringþoka í um 1.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er stundum kölluð Höfuðkúpuþokan.

  • NGC 247 er þyrilvetrarbraut í um 11 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni sem tilheyrir Myndhöggvarahópnum.

  • NGC 1073 er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 50 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • NGC 1087 er þyrilvetrarbraut í um 80 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • NGC 4666 er þyrilvetrarbraut í um 80 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í henni á sér stað sérstaklega öflug hrina stjörnumyndunar.

Loftsteinadrífur

Október Cetítar er lítilsháttar loftsteinadrífa sem sést milli 8. september og 30. október. Drífan er í hámarki 5.-6. október og sjást þá tveir til fjórir loftsteinar á klukkustund.

Eta Cetítar er minniháttar loftsteinadrífa sem sést milli 20. september og 2. nóvember. Drífan er í hámarki 1.-5. október. Drifan er alla jafna mjög lítil, nánast ósýnileg en stöku sinnum sjást tilkomumiklir vígahnettir. Þann 9. október árið 1969 sást mjög skær vígahnöttur sem náði birtustigi -20 (bjartari en full tungl) úr þessari drífu og náðist hann á myndir. Þann 8. október árið 1972 sást annar mjög bjartur vígahnöttur úr drífunni frá Flórída sem varð álíka bjartur og fullt tungl.

Ómíkron Cetítar er loftsteinadrífa sem verður að degi til á tímabilinu 7. maí til 9. júní. Drífan er í hámarki 14.-25. maí og greinast þá í kringum 20 loftsteinar á klukkustund með útvarpsmælingum.

Stjörnukort

Stjörnukort af Hvalnum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Cetus the sea monster

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Cetus

  3. What's Up Cetus

  4. http://meteorshowersonline.com/showers/october_cetids.html

  5. http://meteorshowersonline.com/showers/eta_cetids.html

  6. http://meteorshowersonline.com/showers/omicron_cetids.htm