Veiðihundarnir

  • stjörnukort, stjörnumerki, Veiðihundarnir
    Kort af stjörnumerkinu Veiðihundunum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Canes Venatici
Bjartasta stjarna: Cor Caroli
Bayer / Flamsteed stjörnur:
21
Stjörnur bjartari +3,00:
1
Nálægasta stjarna:
DG CVn
(26 ljósár)
Messier fyrirbæri:
5
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:

Uppruni

Pólski stjörnufræðingurinn Jóhannes Hevelíus frá Gdansk bjó til stjörnumerkið Veiðihundana árið 1687 úr daufum stjörnum undir skotti Stórabjörns. Veiðihundarnir tákna tvo hunda sem Hjarðmaðurinn heldur í taumi og glefsa þeir í hæla bjarnarins. Syðri hundurinn inniheldur tvær björtustu stjörnur merkisins, Alfa og Beta Canum Venaticorum. Ptólmæos hafði skrásett báðar stjörnur í riti sínu Almagest en ekki sett þær í neitt tiltekið merki.

Stjörnur

Stjörnur Veiðihundanna eru allar fremur daufar. Björtustu stjörnur merkisins eru af þriðja og fjórða birtustigi.

  • Alfa Canum Venaticorum eða Cor Caroli er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Veiðihundunum (birtustig 2,9). Nafnið Cor Caroli merkir „Hjarta Charles“ en það má rekja til enska læknisins og stærðfræðingsins Sir Charles Scarborough. Hann nefndi hana til heiðurs Karli 1. Englandskonungi sem var tekinn af lífi í kjölfar borgarstríðsins sem stóð yfir frá 1642 til 1651. Cor Caroli er tvístirni í um 110 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartari stjarnan er sveiflustjarna af gerðinni A0. Hún er sérkennileg efnafræðilega því hún inniheldur frumefni eins og kísil, kvikasilfur og evrópíum í óvenju miklu magni auk þess sem hún hefur mjög öflugt segulsvið. Daufari stjarnan er meginraðarstjarna af gerðinni F0.

  • Beta Canum Venaticorum er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Veiðihundunum (birtustig 4,26). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni G0, svipuð sólinni okkar: Hún er álíka stór, álíka breið, álíka björt og álíka heit en aðeins eldri. Stjarnan er í aðeins 27,5 ljósára fjarlægð frá jörðinni og þykir þess vegna ein áhugaverðasta stjarnan í nágrenni sólarinnar út frá stjörnulíffræðilegum sjónarmiðum.

  • 24 Canum Venaticorum er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Veiðihundunum (birtustig 4,68). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni A6, tvöfalt massameiri en sólin, í um 191 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • 20 Canum Venaticorum er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Veiðihundunum (birtustig 4,72). Hún er gulhvít risastjarna af gerðinni F3 í um 268 ljósára fjarlægð frá jöðinni.

  • 5 Canum Venaticorum er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Veiðihundunum (birtustig 4,76). Hún er gul risastjarna af gerðinni G6 í um 393 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • Gamma Canum Venaticorum eða La Superba er rauð risastjarna eða kolefnastjarna í stjörnumerkinu Veiðihundunum. Hún er sveiflustjarna sem breytir birtu sinni frá birtustigi 4,8 til 6,3 í 160 daga lotu. La Superba er fræg fyrir að vera ein rauðasta stjarna himins. Hún er þrisvar sinnum massameiri en sólin og 215 sinnum breiðari en ekki nema um 2.500°C heit og því með köldustu stjörnum sem vitað er um. Fyrir vikið er hún næstum ósýnileg því hún gefur að mestu frá sér innrautt ljós. Þegar sú geislun er hins vegar tekin með reikninginn er ljósafl hennar 4.400 sinnum meira en sólar. Væri stjarnan í miðju okkar sólkerfis næði hún út fyrir braut Mars.

Djúpfyrirbæri

Veiðihundarnir geyma nokkur áhugaverð djúpfyribæri, til dæmis glæsilega kúluþyrpingu og nokkrar bjartar og áberandi vetrarbrautir.

  • Messier 3 er kúluþyrping í um 33.900 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Sýndarbirtustig hennar er 6,2 svo hún er á mörkum þess að sjást með berum augum við bestu aðstæður en sést auðveldlega með hjálp handsjónauka eða stjörnusjónauka. Hún er með fallegustu kúluþyrpingum á norðurhveli himins.

  • Messier 51 eða Svelgurinn er þyrilvetrarbraut í um 26 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þyrilarmarnir eru einkar tignarlegir og sjást best í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka, þótt móti fyrir þeim í gegnum litla sjónauka við góðar aðstæður.

  • Messier 63 eða Sólblómið er þyrilvetrarbraut í um 60 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er nokkuð björt vetrarbraut sem best er að skoða í meðalstórum og stórum áhugamannasjónaukum við meðalstækkun.

  • Messier 94 er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 16 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hana er að finna örfáar gráður norður af stjörnunni Cor Caroli. Í gegnum handsjónauka og litla stjörnusjónauka sést hringlaga móðublettur. Vetrarbrautin er kjörin viðfangsefni fyrir byrjendur í stjörnuskoðun.

  • Messier 106 er þyrilvetrarbraut í um 24 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er nokkuð dauf en sést með handsjónauka við bestu aðstæður. Ekki sjást þó mörg smáatriði í vetrarbrautinni önnur en miðja sem dofnar til jaðranna.

  • NGC 4631 eða Hvalsvetrarbrautin er þyrilvetrarbraut á rönd í um 30 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er björt og fremur áberandi og sést vel í gegnum litla stjörnusjónauka.

  • NGC 5371 er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 100 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er fremur dauf og nýtur sín best í gegnum stóra áhugamannasjónauka.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Veiðihundarnir
Stjörnumerkið Veiðihundarnir og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Veiðihundunum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Canes Venatici the hunting dogs

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Canes_Venatici

  3. Jim Kaler's Stars

  4. What's Up Canes Venatici