Tunglið hylur tarfsaugað aðfaranótt gamlársdags 2017

Sævar Helgi Bragason 30. des. 2017 Blogg

Klukkan 00:35 aðfaranótt 31. desember 2017 verður stjörnumyrkvi þegar tunglið gengur fyrir stjörnuna Aldebaran eða í Nautinu. Stjörnumyrkvinn stendur yfir í rétt rúma klukkustund.

  • Tunglið hylur Aldebaran aðfaranótt gamlársdags 2017

Klukkan 00:35 aðfaranótt 31. desember 2017 verður stjörnumyrkvi (e. occultation). Þá gengur tunglið fyrir og hylur stjörnuna Aldebaran eða tarfsaugað í Nautinu. Stjörnumyrkvinn stendur yfir í rétt rúma klukkustund en honum lýkur kl. 01:39 þegar auga nautsins birtist aftur.

Tunglið er mjög nálægt því að vera fullt þetta kvöld, aðeins örmjó óupplýst sigð á eftir að fyllast, svo það gæti reynst snúið að koma auga á Aldebaran í tunglsljósinu. Því er ráðlagt að nota handsjónauka.

Útsýnið í gegnum handsjónauka er glæsilegt því Aldebaran er rétt hjá stjörnuþyrpingu sem kallast Regnstirnið og myndar höfuð nautsins. Aldebaran er reyndar ekki hluti af Regnstirninu. Hún er rauð risastjarna í um 60 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Á himninum virkar Aldebaran rauðgul, ekki ósvipuð Betelgás í Óríon sem er skammt fyrir neðan.

Horfðu til himins!

851x315_Saevar