Hálfskuggamyrkvi á tungli 11. febrúar

Sævar Helgi Bragason 05. feb. 2017 Blogg

Aðfaranótt laugardagsins 11. febrúar verður hálfskuggamyrkvi á tungli. Alla jafna sjást hálfskuggamyrkvar illa eða alls ekki en í þetta sinn fer tunglið djúpt inn í hálfskuggann

  • Hálfskuggamyrkvi á tungli aðfaranótt 11. febrúar

Aðfaranótt laugardagsins 11. febrúar verður hálfskuggamyrkvi á tungli.

Alla jafna sjást hálfskuggamyrkvar illa eða alls ekki en í þetta sinn fer tunglið það djúpt inn í hálfskuggann að nokkur munur verður sjáanlegur, sér í lagi við norðurbrún tunglsins sem nánast snertir alskuggann þegar myrkvinn nær hámarki kl. 00:44. Þá skilja aðeins 160 km á milli norðurbrúnar tunglsins og alskuggans.

Tunglið verður í Ljóninu þegar myrkvinn stendur yfir. Hægra megin fyrir ofan tunglið frá okkur séð skín stjarnan Regúlus skært. Um klukkan 01:30 verður Júpíter kominn upp á himinninn í austri.

  • Hálfskuggamyrkvi hefst: 22:35
  • Myrkvi í hámarki: 00:44
  • Hálfskuggamyrkva lýkur: 02:54

Myrkvinn er aðeins sjáanlegur í kringum hámarkið.

Tveimur vikum síðar, hinn 26. febrúar, gengur tunglið fyrir sólina og veldur hringmyrkva sem sést frá Suður Ameríku og suðvestanverðri Afríku.