Jörð næst sólu 4. janúar

Sævar Helgi Bragason 02. jan. 2017 Blogg

Jörðin verður næst sólu á þessu ári klukkan 14:18 miðvikudaginn 4. janúar.

  • Jörðin

Jörðin verður næst sólu á þessu ári klukkan 14:18 miðvikudaginn 4. janúar. Stjarnan okkar er þá rétt rúmlega 147 milljón km í burtu. Meðalfjarlægðin á milli Jarð og sólar er kölluð ein stjarnfræðieining (1 AU eða astronomical unit).

Eftir daginn í dag fjarlægist Jörðin sólina á ný og verður fjærst henni í sumar, hinn 3. júlí næstkomandi, þá 152 milljón km í burtu.

Árstíðirnar eru ekki af völdum breytilegrar fjarlægðar á milli Jarðar og sólar, heldur möndulhalla Jaðrar. Sporöskjulögun jarðbrautarinnar hefur þó áhrif á lengd árstíðanna.

Í sólnánd ferðast Jörðin hraðar í kringum sólina en við sólfirrð. Munurinn á brautarhraðanum er aðeins 1 km/s. Það veldur því að veturinn á norðurhvelinu er stysta árstíðin. Sumarið á norðurhvelinu (tíminn frá sumarsólstöðum til haustjafndægra) er fimm dögum lengri en veturinn.