Venus skín skærast 16. febrúar

Sævar Helgi Bragason 11. feb. 2017 Blogg

Fimmtudaginn 16. febrúar verður flatarmál Venusar á himninum mest frá Jörðu séð og Venus þá eins skær og hún getur orðið.

  • Venus 16. febrúar 2017

Reikistjarnan Venus hefur ekki farið framhjá neinum á kvöldhimninum undanfarnar vikur. Fimmtudagskvöldið 16. febrúar verður flatarmál Venusar á himninum mest frá Jörðu séð og Venus þá eins skær og hún getur orðið.

Með sjónauka sést að Venus er sigðarlaga, að þriðjungi upplýst. Þótt Venus sé skærust þetta kvöld er enginn munur sjáanlegur kvöldin í kring. Skammt frá er Mars , mun daufari.

Næstu daga byrjar Venus að dofna þegar hún nálgast sólina. Hinn 25. mars næstkomandi verður Venus á milli Jarðar og sólar. Þá er sagt að reikistjarnan sé í innri samstöðu við Jörð. Í þetta sinn gengur Venus þó ekki fullkomlega á milli Jarðar og sólar eins og gerðist seinast í júní 2012 þegar Venus gekk fyrir sólina .

Hinn 25. mars verður Venus átta gráður norðan við sólina. Því er mögulegt að sjá Venus bæði á kvöld- og morgunhimninum um það leyti þótt það gæti orðið nokkuð snúið.

Í vor færst Venus hægra megin við sólina frá Jörðu séð (vestan við sól) og birtist þar af leiðandi á morgunhimninum, rétt fyrir sólarupprás. Hinn 3. júní verður Venus í vestustu álengd frá sólinni, þ.e. eins langt vestan við sólina og hún kemst frá Jörðu séð.

Venus verður því sjáanleg aftur á morgunhimninum yfir Íslandi í lok júlí og ágúst (þegar nægilega dimmt er), september, október og í byrjun nóvember.

Brautir Venusar og Jarðar