Carl Sagan

  • Carl_Sagan
    Carl Sagan
Helstu upplýsingar
Fæddur: 9. nóvember 1934 í Brooklyn í New York
Dáinn:
20. desember 1996 í Seattle í Washingtonríki (62 ára)
Háskólar:
Chicagoháskóli (doktorspróf)
Harvardháskóli
Cornellháskóli (prófessor)

Sagan sýndi snemma hæfileika í vísindum. Hann heillaðist fljótt af stjörnunum og sagði að í kringum átta ára aldur hafi hugmyndin um líf á öðrum reikistjörnum heillað hann. „Ég tók ekki ákvörðun um að stunda stjörnufræði,“ sagði hann. „Öllu heldur greip hún mig og ég hugsaði ekki um að sleppa frá henni.“ Í bók sinni Cosmos, minnist hann þess þegar hann fær fyrsta bókasafnsskírteinið sitt:

„Um leið og ég hafði aldur til, gáfu foreldrar mínir mér fyrsta bókasafnsskírteinið mitt. Ég held að bókasafnið hafi verið á 85. stræti, á óþekktu svæði. Um leið bað ég bókasafnsvörðinn um eitthvað um stjörnurnar. Hún færði mér myndabók sem innihélt myndir af mönnum og konum með nöfn á borð við Clark Gable og Jean Harlow. Ég kvartaði, og af einhverri ókunnri ástæðu, brosti hún og fann aðra bók - rétta bók. Í ákafa mínum opnaði ég hana og las þar til ég fann það. Bókin sagði dálítið ótrúlegt, mjög stóra hugsun. Hún sagði að stjörnurnar væru sólin, aðeins mjög langt í burtu. Sólin var stjarna, en nálægt.“

Þegar Carl var tólf ára að afi hans spurði hvað hann ætlaði að gera þegar hann yrði eldri. „Stjörnufræðingur,“ svaraði hann. „Fínt,“ sagði afi hans, „en á hverju ætlar þú að lifa?“

Carl fór í Chicago-háskóla þar sem hann náði sér í BS-gráður árið 1954 og 1955 í stjörnufræði og líffræði, meistaragráðu í eðlisfræði árið 1956 og doktorsgráðu í stjörnufræði og stjarneðlisfræði árið 1960. Í doktorsverkefninu útskýrði hann hátt hitastig á yfirborði Venusar, en hann komst að því að ástæðan var mikil gróðurhúsaáhrif. Árið 1962 varð hann aðstoðarprófessor í stjörnufræði við Harvard-háskóla en að áeggjan vinar síns Frank Drake sneri hann til Cornell-háskóla í háskólabænum Íþöku í New York ríki árið 1968. Hann varð prófessor í stjörnufræði árið 1971 og gegndi þeirri stöðu til æviloka.

1. Vísindamaðurinn

Þegar Carl Sagan var enn á tvítugsaldri setti hann fram þá kenningu að útvarpsgeislunin sem mældist frá Venusi væri vegna mikils yfirborðshita þykks lofthjúps. Nokkrum árum síðar fékkst það staðfest þegar sovésk könnunarför könnuðu Venus.

Snemma á ferlinum setti Sagan fram útskýringu á litabreytingum sem sáust á Mars. Sumir vísindamenn töldu breytinguna stafa af árstíðabreytingar gróðurs, en Sagan og samstarfsmaður hans James Pollack sögðu breytingarnar stafa af rykstormum á Mars. Þessi kenning var einnig staðfest nokkru síðar.

Sagan tók mikinn þátt í verkefnum NASA til Mars og annarra reikistjarna. Hann var meðlimur myndahópi Mariner 9 geimfarsins sem fór til Mars árið 1971 og var fyrsta geimfarið sem komast á braut um aðra reikistjörnu. Hann hjálpaði til við að velja lendingarstað fyrir Viking 1 og Viking 2, fyrstu geimförin sem lentu á Mars.

Sagan vann að Pioneer-geimförunum sem skotið var á loft 1972 og 1973. Sagan tók þátt í að hanna veggskildina sem eru á báðum geimförunum. Önnur eiginkona Sagans, Linda Salzman Sagan, teiknaði myndirnar. Með þessum skjöldum vildu vísindamenn senda skilaboð til annarra menningarsamfélag ef svo vildi til að það fyndist í framtíðinni. Veðrun í geimnum er einstaklega hæg svo þetta skilaboð ætti að haldast óskemmt í hundruð milljónir ára, jafnvel lengur.

Carl var í hópi vísindamannanna sem sendu Voyager 1 og 2 geimförin út úr sólkerfinu. Sagan hafði yfirumsjón með tveimur hljómplötum sem festar voru á geimfarið, skilaboð til annars menningarsamfélags í geimnum. Á plötunni eru að sjálfsögðu leiðbeiningar um hvernig á að leika plötuna.

Skilaboðin, sem hann kallaði „flöskuskeyti í alheimshafinu“, er á 30 cm breiðri gull- og koparhljómplötu utan á geimfarinu. Á henni eru bæði hljóð og myndir sem valin voru sérstaklega til að lýsa fjölbreytileika lífsins og menningarinnar á jörðinni. Á plötunni eru 115 ljósmyndir og hljóðupptökur úr náttúrunni. Þarna eru líka dýrahljóð og kveðjur frá jarðarbúum á 59 tungumálum, t.d. akkadísku sem töluð var í Babýlon í fornöld. Því miður er ekki kveðja frá Íslendingum. Tónlist fær auðvitað sinn skerf, en meðal þess sem geimverurnar gætu skemmt sér yfir er Brandenbúrgarkonsert Bachs, Töfraflauta Mozarts, 5. sinfónía Beethovens og Chuck Berry að flytja Johnny B. Goode.

Þessu til viðbótar stóð Carl Sagan fyrir rannsóknum á uppruna lífsins og leit að lífi í geimnum. Hann komst að því að rauðleita þokan í lofthjúpi Títans innihélt lífræn efnasambönd. Sagan var jafnframt hluti vísindahóps sem setti fram kenninguna um kjarnorkuvetur eftir kjarnorkustríð sem myndi leiða til gífurlegrar kólnunar í lofthjúpi jarðar.

Ferilsskrá Carl Sagan er meira en 240 blaðsíður að lengd. Í henni má sjá að Sagan skrifaði yfir 600 vísindagreinar og almennar greinar, meira en tíu bækur sem spönnuðu afar breitt svið, allt frá fræðibókum til skáldsögu.

Hann hlaut 20 heiðursgráður frá bandarískum háskólum fyrir framlag sitt til vísinda, bókmennta, menntunar og umhverfisvernd. Til heiðurs Carl Sagan var smástirnið 2709 Sagan nefnt eftir honum. 

2. Heillaður af lífi utan jarðar

Það sem einkennir verk Carl Sagan öðru fremur eru hugleiðingar um möguleikann á lífi utan jarðar, sem almenningur hefur heillast mjög af. Hann taldi líf algengt í alheiminum vegna þess að stjörnurnar eru svo margar.

Carl varð heimsfrægur árið 1980 þegar sjónvarpsþáttaröðin Cosmos var sýnd víða um heim og hlutu Emmy- og Peabody-verðlaun. Þættirnir eru þrettán talsins og í þeim Sagan um myndun stjarna, tímaferðalög, þróun lífsins, líf utan jarðar og geimkönnun á ótrúlega skýran og skemmtilegan hátt. Maður kemst ekki hjá því að hrífast með og horfa með honum upp til stjarnanna, enda urðu þættirnir gífurlega vinsælir. Talið er að meira en hálfur milljarður manna í 60 löndum hafi séð þættina. Bókin sem byggð var á þáttunum er mest selda vísindabók allra tíma. Hún var í 70 vikur á metsölulista New York Times og þar af 15 vikur í fyrsta sæti.

Carl Sagan var bandarískum sjónvarpsáhorfendum að góðu kunnur áður en Cosmos-þættirnir voru sýndir. Á sjöunda og áttunda áratugnum kom hann 26 sinnum fram í Kvöldþætti Johnny Carson á NBC. Carson var sjálfur mikill stjörnuáhugamaður.

Í viðtali árið 1977 sagði Sagan að hann hefði hafnað nokkur hundruð beiðnum um fyrirlestra á hverju ári en reyndi alltaf að komast í Kvöldþáttinn þegar honum var boðið. „Yfir 10 milljónir manna horfa á þáttinn,“ sagði hann. „Það er mjög margt fólk, sem er ekki í hópi áskrifenda að Scientific American.“

Í öðru viðtali varði Sagan viðleitni sína til að gera vísindin vinsæl meðal almennings, þótt það pirraði marga samstarfsmenn hans: „Það eru a.m.k. tvær ástæður fyrir því að vísindamenn gegna þeirri skildu að útskýra um hvað vísindin snúast. Önnur er eiginhagsmunir. Stór hluti fjármagnsins í vísindum kemur frá almenningi, og og almenningur á rétt á að vita hvernig peningunum er varið. Ef við vísindamennirnir aukum áhuga fólks á vísindum, eru góðar líkur á að fá frekari stuðning almennings. Önnur ástæða er sú að það er ótrúlega spennandi að miðla því sem þér finnst spennandi til annarra.“

3. Pulitzer verðlaunahafi

Fáir verða ósnortnir af lestri bóka Carls Sagan. Þær eru fjarri því að vera þurrar, þungar og leiðinlegar, heldur fylla þær mann andagift og skilja mann eftir djúpt hugsi. Bækur hans eru fullar af ljóðrænum og fallegum frásögnum um fegurð heimsins í kringum okkur; allt frá lifandi verum til dauðra hluta, frá hinu smæsta til hins stærsta. Sagan setur allt skýrt fram af svo mikilli innlifun að maður kemst ekki hjá því að hrífast með. 

Sagan gaf út fyrstu bækur sínar árið 1966. Fyrsta bókin heitir Reikistjörnurnar sem til er á mörgum íslenskum heimilum. Næsta bók hans heitir Intelligent Life in the Universe en hana vann hann í samvinnu við sovéska vísindamanninn Jósif Shklovskí. Sú bók var fyrsta sinnar tegundar og sýndi að alvöru vísindamenn höfðu áhuga á þessu viðfangsefni.

Carl Sagan hlaut Pulitzer-verðlaun árið 1978 fyrir metsölubók sína The Dragons of Eden. Í henni fjallar Sagan um þróun mannsheilans frá upphafi til dagsins í dag. Bók Sagan var fyrsta vísindabókin til að hljóta verðlaunin.

Árið 1994 sendi Sagan frá sér bókina Pale Blue Dot, sem hann skrifaði eftir Voyager-ferðirnar. Segja má að þessi bók sé nokkurs konar framhald af Cosmos og með henni ljúki hann ferðinni. Í henni rekur hann könnunarsögu mannsins út í geiminn og veltir fyrir sér framtíðinni sem fyrir okkur vakir.

Titill bókarinnar vísar til einnar áhrifamestu myndar sem Voyager 1 geimfarið tók af heimili okkar í alheiminum þann 14. febrúar 1990. Þessi mynd varpar skýru ljósi á stöðu okkar í alheiminum. Á myndinni sést að jörðin er ekkert annað en pínulítill fölblár punktur, sem sýnir greinilega smæð okkar í risastórum alheimi.

4. Efahyggjumaðurinn

Carl Sagan var oft spurður um guð þegar hann talaði um uppruna lífsins eða heimsfræði. Sagan svaraði gjarnan með því að spyrja á móti hvað spyrjandi meinti með „guð“. Sagan leit nefnilega á alla guði sem goðsagnir. Samt sem áður þekkti hann Biblíuna betur en margir aðrir. Í einni rökræðu um guð sagði prestur einn að Carl þekkti Nýja testamentið betur en margir prestar.

Sagan var trúleysingi og mikill efahyggjumaður. Í ræðu sem hann hélt á CSICOP-ráðstefnu í Seattle talaði Sagan um ást sína á vísindum og mikilvægi þess að færa þau til fólksins:

„Ég hef enn mesta ánægju af vísindum. Að efla áhuga á vísindum eins og Isaac Asimov gerði svo vel – að miðla ekki einungis uppgötvunum vísindanna heldur líka aðferðunum – er mér jafnnáttúrulegt og að anda. Því, þegar öllu er á botninn hvolft, þá viltu segja öllum heiminum frá því þegar þú ert ástfanginn. Mér þykir sú hugmynd einkennileg, að vísindamenn ættu ekki að tala um vísindin við almenning.“

Viðfangsefni næstsíðustu bókar Sagans, The Demon-Haunted World: Science as a Candle in the Dark, er nokkurs konar óður til vísinda og efahyggju. Í henni fjallar hann á skemmtilegan hátt um nauðsyn þess að temja sér gagnrýna hugsun og hve auðvelt er að falla fyrir hugmyndum sem eiga enga stoð í raunveruleikanum, t.d. líf eftir dauðann, geimverur, miðlar, stjörnuspeki og margt fleira. Þessa bók ættu allir að lesa, sérstaklega kennarar sem vilja miðla gagnrýnni hugsun til nemenda sinna.

Greinasafn Sagan, Billions and Billions, var gefið út skömmu eftir The Demon-Haunted World. Í þeirri bók eru greinar um pólitík, umhverfismál, trúmál, fóstureyðingar, lífið og dauðann sem var honum ansi nærri á þeim tíma. Í síðasti kafli bókarinnar, In the Valley of Shadow, fjallar Sagan um yfirvofandi dauða sinn og talar þar opinskátt um veikindin og viðhorf sitt til dauðans sem trúleysingi og efahyggjumaður:

„Ég vildi óska þess að ég tryði því að þegar ég dey muni ég lifa aftur, að einhver hugsun, tilfinning, eða minnugur hluti af mér haldi áfram. En jafn mikið og ég vil trúa því, og þrátt fyrir fornar menningarhefðir sem fullyrða um framhaldslíf, þá veit ég ekki um neitt sem bendir til að það sé eitthvað annað en óskhyggja.

Heimurinn er svo undurfagur og ástríkur að það er engin ástæða til að blekkja okkur sjálf með fallegum sögum þar sem lítið er um haldbærar vísbendingar. Í vanmætti okkar, virðist mér það mun betra, að horfast í augu við dauðann og vera þakklátur hvern dag fyrir þetta stutta en stórkostlega tækifæri sem lífið gefur okkur.“

5. Andlát

Carl Sagan lést 20. desember 1996, 62 ára að aldri, eftir langa og erfiða baráttu við beinmergssjúkdóm. Fyrstu tvö hjónabönd hans enduðu með skilnaði en þriðja hjónaband hans með Ann Druyan, sem var líka góður samstarfsmaður hans, varð hamingjuríkt. Auk eiginkonu sinnar og systur, lét Carl Sagan eftir sig fjóra syni, Dorion, Jeremy, Nicholas og Sam; eina dóttur, Alexöndru og sonarson.

Ári eftir dauða hans var kvikmyndin Contact frumsýnd en hún er byggð á samnefndri bók sem hann skrifaði árið 1985.