La Silla stjörnustöðin

  • La Silla, ESO
    Stjörnustöð ESO á La Silla í mars 2003. Mynd: ESO

Stjörnustöðin á La Silla hefur verið höfuðvígi European Southern Observatory frá því upp úr 1960. Stjörnustöðin er um 600 km norður af Santiago, höfuðborg Chile, í 2.400 metra hæð yfir sjávarmáli. Á La Silla hefur ESO starfrækt nokkra afkastamestu 4 metra sjónauka heims.

Stjörnustöðin á La Silla er í útjaðri Atacamaeyðimerkurinnar í Chile, eins þurrasta og eyðilegasta svæði jarðar. La Silla er fjarri ljósmenguðum þéttbýlissvæðum Chile líkt og aðrar stjörnustöðvar þessa landsvæðis. La Silla, ásamt Paranal-stjörnustöðinni, býr yfir einum myrkasta næturhimni á jörðinni.

Saga

Árið 1963 var ákveðið að stjörnustöð ESO skyldi komið upp í Chile. Í kjölfarið fóru fram rannsóknir á ýmsum álitlegum stöðum í landinu en að lokum var ákveðið að byggja sjónanuka á La Silla í suðurhluta Atacamaeyðimerkurinnar, um 600 km norður af Santiago, höfuðborg Chile, í 2.400 metra hæð yfir sjávarmáli. La Silla var í eigu Chileska ríkisins, staðurinn þurr og flatur, fremur einangraður en samt aðgengilegur og langt frá allri ljósmengun og öðrum truflunum. Upphaflega hét svæðið Cinchado en var síðar nefnt La Silla sem þýðir söðull á spænsku eftir söðullögun sinni.

Samningur um kaup á svæðinu var undirritaður 30. október 1964 og var það afhent ári síðar. Árið 1965 var tímbundinni aðstöðu komið upp, verkstæði og geymslu.

Þann 25. mars 1969 vígði Eduardo Frei Montalva, þáverandi forseti Chile, stjörnustöð ESO á La Silla. Þá var hún að fullu starfhæf með svefnaðstöðu. verkstæðum, hóteli og nokkrum starfhæfum sjónaukum.

Árið 1976 var 3,6 metra sjónaukinn, sá stærsti á La Silla, tekinn í notkun. Árið 1984 var 2,2 metra sjónaukinn tekinn í notkun og 3,5 metra New Technology Telescope í mars 1989.

Árið 1987 var fyrsti stóri hálfsmillímetra sjónaukinn á suðurhveli tekinn í gagnið. Hann var samstarfsverkefni sænska vísindaráðsins og ESO.

Sjónaukar

Á La Silla hafa mörg aðildaríki nýtt sér innviðina og komið upp nýjum sjónaukum og tækjum eins og t.d. svissneska Euler-sjónaukann, Rapid-Eye Mount (REM), TAROT gammablossanemann og danska 1,5 metra sjónaukann. Á Max Planck sjónaukanum er 67 milljón pixla gleiðhornsmyndavél sem tekið hefur ótalmargar fallegar ljósmyndir af fyrirbærum næturhiminsins.

Árið 2010 var TRAPPIST sjónaukinn tekinn í notkun. TRAPPIST er helgaður rannsóknum á sólkerfum á tvennan máta: Að finna og greina reikistjörnur utan okkar sólkerfis og hins vegar til rannsókna á halastjörnum á braut um sólina okkar. Sjónaukinn er 60 cm breiður og er starfræktur frá stjörnustöð í Liège í Belgíu.

New Technology Telescope (NTT)

New Technology Telescope, NTT
New Technology Telescope ESO í La Silla stjörnustöðinni. Mynd ESO.

Sjá nánar: New Technology Telescope (NTT)

New Technology Telescope (NTT) er 3,58 metra breiður Ritchey-Chrétien spegilsjónauki sem tekinn var í notkun árið 1989. NTT var fyrsti sjónauki heims sem hafði tölvustýrðan safnspegil. Safnspegillinn er sveigjanlegur og er lögun hans lagfærð á meðan mælingar standa yfir sem tryggir bestu mögulegu myndgæði. Auk þess er hægt að beina aukaspeglinum í þrjár áttir. ESO þróaði þessa tækni sem kallast virk sjóntæki en hún er nú notuð í alla sjónauka nútímans, t.d. VLT og í framtíðinni E-ELT.

Önnur nýjung var hönnun hússins sem hýsir NTT. Hvolfþakið er lítið en loftræst er með sérstökum flipum svo loft streymir hægt og rólega yfir spegilinn sem dregur úr ókyrrð og leiðir til skarpari mynda.

3,6 metra sjónauki ESO

Sjá nánar: 3,6 metra sjónauki ESO

3,6 metra sjónauki ESO var tekinn í notkun árið 1977 og var fyrsti sjónauki samtakanna á suðurhveli jarðar sem hafði 3-4 metra ljósop. Sjónaukinn hefur verið uppfærður reglulega, meðal annars með aukaspeglum sem hafa tryggt að sjónaukinn er einn sá afkastamesti í stjarnvísindarannsóknum.

Þessi sjónauki var að mestu notaður í innrauðar litrófsmælingar. Á honum er nú HARPS litrófsritinn sem er notaður til að leita að fjarreikistjörnum og til stjarnskjálftamælinga. Með HARPS geta stjörnufræðingar gert Doppler litrófsmælingar (í kringum 1 m/s) yfir langan tíma.

2,2 metra MPG/ESO sjónaukinn

Sjá nánar: 2,2 metra MPG/ESO sjónaukinn

2,2 metra MPG/ESO sjónaukinn hefur verið í notkun á La Silla síðan snemma árs 1984. Hann er á ótímabundnu láni til ESO frá Max Planck stofnunni í Þýskalandi. Notkun sjónaukans deilist því milli Max Planck stofnunarinnar og ESO en rekstur og viðhald er í höndum ESO.

Á sjónaukanum er meðal annars 67 megapixla myndavél, Wide Field Imager, sem hefur álíka vítt sjónsvið og sem nemur breidd fulls tungls á himinhvolfinu[ og hefur tekið fjölmargar glæsilegar myndir af fyrirbærum himins. Af öðrum mælitækjum er vert að nefna GROND (Gamma-Ray Burst Optical/Near-Infrared Detector) sem greinir glæður gammablossa og FEROS (Fiber-fed Extended Range Optical Spectrograph) sem er litrófsriti með mikla upplausn og er notaður til að gera nákvæmar litrófsmælingar á stjörnum.

Uppgötvanir

Ár hvert birtast nærri 300 ritrýndar vísindagreinar sem byggja á gögnum frá stjörnustöðinni á La Silla. Á La Silla hefur fjöldi uppgötvana verið gerðar. HARPS-litrófsritinn er óumdeilanlegur sigurvegari í leit að massalitlum fjarreikistjörnum. Með HARPS fundu menn sólkerfið umhverfis Gliese 581 sem inniheldur hugsanlega fyrstu bergreikistjörnuna sem finnst í lífbelti stjörnu utan okkar sólkerfis (eso0722). Nokkrir sjónaukar á La Silla hafa leikið lykilhlutverk í að tengja gammablossa — orkuríkustu sprengingar alheims frá Miklahvelli — við endalok massamikilla stjarna. Frá árinu 1987 hefur La Silla gegnt veigamiklu hlutverki í rannsóknum á nálægustu nýlegu sprengistjörnunni, SN 1987A.

Myndasafn

Myndir

Tengt efni

Tilvísanir

Tenglar